Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:32:13 (1290)

1995-11-27 15:32:13# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:32]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Drífu Sigfúsdóttir vil ég benda á að ríkið hefur með ýmsum hætti dregið sig út úr beinum rekstri stofnana sinna í heiminum og get ég tekið sem dæmi, og benti á það reyndar í síðustu umræðu, að norska ríkisstjórnin og einnig sú danska drógu sig út úr rekstri pósts og síma með því að gera um þau hlutafélög. Póstur og sími í Noregi, Telenord, er t.d. alfarið í eigu norska ríkisins sem hlutafélag. Að dómi allra þeirra starfsmanna sem við sem fórum þangað í heimsókn í sumar töluðum við, þá hefur það orðið til þess að gjörbreyta rekstrinum til hins betra og gert hann allan opnari, liprari og auðveldari en áður var. Allt sem ég heyrði um það og við sem vorum í þessari ferð laut að því að starfsemin hefði orðið skilvirkari en áður.

Samskipti við aðrar þjóðir og önnur fyrirtæki urðu einnig auðveldari þannig að í ljósi þeirrar reynslu tel ég að við eigum að reyna þetta einnig í stórum fyrirtækjum eins og fríhöfninni í Leifsstöð og gera það þannig að fullt samráð sé haft um það við starfsfólkið, að það sé hluti af stjórninni og að reksturinn verði hlutafélag sem verði í eigu ríkisins. Þannig hefur þetta gengið upp hjá öðrum vestrænum þjóðum og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að það geti gengið upp hjá okkur og full sátt gæti orðið um það við starfsmenn.