Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 15:52:46 (1297)

1995-11-27 15:52:46# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[15:52]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðum um þetta mál, bæði það sem menn hafa sagt í dag og það sem menn töluðu um í síðustu viku. Fyrrv. samgrh., utanrrh. og fjmrh. hafa talað einna mest. Þegar stiklað er á því sem þeir komu helst inn á gerði ég mér grein fyrir því og skal viðurkenna að ég áttaði mig ekki á þegar ég lagði fram þessa þáltill. ásamt Kristjáni Pálssyni, að flugstöðin og flugvöllurinn jafnvel allur væri hreint olnbogabarn í íslensku þjóðlífi.

Hér talaði fyrrv. utanrrh. áðan og sagði að þessi þáltill. væri vitlaust vistuð, þar sem við gerðum tillögu um að fela fjmrh. þetta mál. Það er dálítið merkilegt að það skuli ganga fram með þessum hætti að flugstöðin skuli vera undir utanrrh. Ég tek alveg undir þær athugasemdir sem síðan hafa komið fram. En ég verð að segja að mig undrar það mjög að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem hefur setið á þingi í nokkur ár og jafnframt gegnt því veigamikla starfi að vera utanrrh., skyldi ekki hafa flutt tillögu um það hverjir eiga að stjórna þar, svo augljóst sem þessi vitleysa á rekstri flugstöðvarinnar liggur fyrir honum. Ég er hissa á honum að hafa ekki fyrir löngu verið búinn að koma með tillögu um það, sérstaklega þegar hann var utanrrh. að yfirstjórn flugstöðvarinnar yrði færð til og sett undir samgrh. eins og hefur komið fram.

Ég held að það væri nauðsynlegt að setja flugstöðina undir markaðssinnaða stjórn. Það er ekki glórulaus hugmynd sem hér liggur á bak við, en það sem hefur hins vegar komið fram er að vandamálið er flugstöðin sjálf. Hér hefur verið upplýst að aðilar hafa farið út úr flugstöðinni vegna hárrar húsaleigu. Ég trúi því að ef hægt væri að leigja út meira af flugstöðinni en raun ber vitni, hlyti að vera hægt að lækka húsaleiguna.

Það er líka það sem hér var komið inn á áðan að utanrrh. færi með alræðisvald í sambandi við flugstöðvarbygginguna og það væri ekkert vandamál gagnvart flugstöðinni ef fjármagnið sem þarna kemur inn í formi verslunarreksturs væri notað til þess að greiða afborganir af lánum flugstöðvarinnar. Það er athyglisvert líka og segir kannski söguna enn betur hvernig er haldið á þessum málum.

Það sem hefur gerst er að í allt of mörg ár er búin að vera innbyrðis togstreita um þessa flugstöð þannig að þessi þáltill. er þó alla vega að því leyti góð að hún hreyfir málinu. Það var löngu tímabært.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir að um þessar mundir væru starfsmenn flugstöðvarinnar að fagna því að tollfrjáls verslun væri að gefa í aðra hönd jafnmiklar tekjur eins og á öllu síðasta ári og það er gott. Ég vil taka það fram sérstaklega vegna ummæla sem hér hafa fallið að starfsmenn ríkisins í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli hafa sinnt afar góðu starfi, verið þjónustuliprir og unnið sitt starf vel. Þegar litið er til þess að 840 þús. manns fara um flugstöðina á ári, þá er það mín skoðun og sannfæring að það sé hægt að gera betur og það sé eðlilegt að verslunin í landinu fái að koma nálægt þessu. En hér hafa menn verið með ýmsar dylgjur um það að öðruvísi ætti að málum að standa. Það er alveg sama hvar litið er á flugstöðina. Það er jafnvel orðið bitbein fyrrv. ráðherra hvernig eigi að halda á málum.

Ég held að það fari ekkert á milli mála hvað stendur í þessari þáltill. Það er alveg ljóst hvað við erum að fara þar, að ríkið dragi sig út úr rekstri tollfrjálsra verlsana. (JBH: Ekki segir Kristján það.) Það er nú svo, virðulegi forseti, að það er bitamunur en ekki fjár ef svo má segja hvar þessi tillaga lendir og hvort það verður hjá utanrmn. eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kom inn á áðan. Ég tel að ef þessari þáltill. er veitt brautargengi, þá er mér að meinalausu í hvaða nefnd hún lendir.