Verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 16:01:07 (1299)

1995-11-27 16:01:07# 120. lþ. 41.5 fundur 166. mál: #A verslunarrekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar# þál., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[16:01]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður lýsti í fáum orðum þeim mikla vanda sem snýr að flugstöðinni. Hann sagði að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi hann flutt tillögu þar að lútandi til að reyna að koma einhverju viti fyrir samgrh. um þetta mál. Öll þessi umræða hefur lyft nokkurri hulu af þessu vandamáli og vandinn er miklu stærri en maður gerði sér grein fyrir. Ég nefni sem dæmi að hér hefur komið fram að þeir aðilar sem vildu afla upplýsinga um rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar þurftu að bíða í eina sex mánuði til þess að fá upp gefnar nokkrar tölur úr rekstri flugstöðvarinnar frá utanrrn.

Fleira er í þessum dúr. Hér er reglugerð um rekstur tollfrjálsrar verslunar á Keflavíkurflugvelli á vegum ríkisins og hún er frá 1981. Í fríhöfninni má selja hvers konar varning eins og tíðkast í fríhöfnum erlendis. Hér er talað um að forstjóri sé skipaður af utanrrh., þannig að samtengingin þarna á milli er með ólíkindum. Ég vona að þessi þáltill. verði a.m.k. til þess að málið verði tekið upp og skoðað í heild sinni. Væntanlega verður þá gripið til aðgerða í framhaldi af því til að létta þessu ástandi af flugstöðinni svo að bæði þeir sem starfa þar og eiga þar viðdvöl megi betur við una.