Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 17:20:09 (1309)

1995-11-27 17:20:09# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., SF
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[17:20]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Mér sérstaklega ljúft að taka þátt í umræðum um fyrirliggjandi þáltill. þar sem ég tel mjög brýnt að nú þegar verði hafin vinna við að jafna atkvæðisréttinn. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einmitt að það eigi að endurskoða kosningalöggjöfina með það fyrir augum að hún verði einfaldari og tryggi jafnara vægi atkvæða á milli kjördæma. Reyndar liggur einnig fyrir fyrispurn sem ég lagði fram fyrir nokkru til forsrh. um hvað liði framkvæmd þessa ákvæðis stefnuyfirlýsingarinnar.

Ástæða þess að brýnt er að reka á eftir ríkisstjórnarflokkunum með það að hefja nú þegar vinnu við að breyta kosningalöggjöfinni er reynsla síðasta kjörtímabils. Þá var svipað ákvæði í hvítbók þáv. ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. en hvað gerðist? Það gerðist nánast ekki neitt. Menn héngu yfir engu þangað til í desember 1994 eða um það bil korter í kosningar eins og maður segir á mannamáli, þá var fyrst sest niður. Útkoman úr því varð að sjálfsögðu engin og var tímaskorti kennt um. Sjálfstfl. og Alþfl. komu málinu mjög lítið áleiðis.

Þessi ferill má ekki endurtaka sig og þótt stefnuyfirlýsingin segi að jafna eigi atkvæðisréttinn viðurkenni ég að við sem höfum mjög djúpa sannfæringu fyrir því að þetta mál verði að vinna hratt og vel verðum að vera með pískinn á lofti. Það verður að halda málinu vakandi og það má alls ekki svæfa það eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Meðal ungs fólks er mjög breið pólitísk samstaða um þá kröfu að kosningalöggjöfin verði endurskoðuð og í nýlegri ályktun allra stjórnmálahreyfinga ungs fólks segir, með leyfi forseta:

,,Núverandi misvægi atkvæða er óþolandi brot á grundvallarmannréttindum. Kosningalög eru hornsteinn lýðræðis í hverju landi og þar eiga allir að sitja við sama borð. Ekki má þó horfa fram hjá þeirri staðreynd að landsmönnum er mismunað eftir búsetu innan stjórnkerfisins. Það ber að taka á því en þessi mismunur verður aldrei leiðréttur með misjöfnu vægi atkvæða. Krafa okkar er að kosningalög tryggi mannréttindi og lýðræði en ekki hagsmuni stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna eins og nú er.``

Þetta var yfirlýsing allra stjórnmálahópa ungs fólks. En núverandi kosningalöggjöf er orsök þess að atkvæðavægi einstaklings í einu kjördæmi vegur margfalt á við atkvæðavægi einstaklings í öðru kjördæmi. Við kosningarnar 1991 náði þingmaður kjöri með 443 atkvæði á bak við sig og við síðustu kosningar náði þingmaður kjöri á 648 atkvæðum. Á sama tíma náðu frambjóðendur með 3.150 atkvæði á bak við sig 1991 ekki kjöri né frambjóðandi með 3.248 atkvæði á bak við sig 1995. Þetta er að mínu mati algerlega fráleitt.

Fyrir utan mismunandi vægi atkvæða er einnig í núverandi kosningalöggjöf sá grundvallargalli að kjósandi hefur í raun ekki hugmynd um hver hagnast á atkvæði hans hvert sinn. Kjósandinn kýs ákveðið framboð í kjördæmi sínu, en vegna flókinna reiknireglna nýtist það atkvæði e.t.v. ekki kjördæmi kjósandans, heldur framboði í allt öðru kjördæmi, jafnvel frambjóðanda sem kjósandinn er algerlega andsnúinn.

Hvernig á svo að breyta kosningalöggjöfinni til að jafna vægi atkvæða? Að mínu mati er besta leiðin sú að gera landið að einu kjördæmi og mig langar aðeins að segja það við hv. þm. sem flytur þessa tillögu að það þarf alls ekki að þýða neitt mikið flokksræði. Það má alveg hugsa sér landslistann þannig að hann sé óraðaður, hann geti verið í stafrófsröð. Síðan fer kjósandinn inn í kjörklefann og merkir við. Það er svokallað persónuval. Það er prófkjör í kjörklefanum. Það felst aldeilis ekki flokksræði í því. Það er einmitt þveröfugt. Það er eins opið og hægt er að hafa það. Kosningalöggjöfin er eitthvað á þeim nótum í Finnlandi og hefur gengið vel þar. En hvað þýðir það að landið yrði eitt kjördæmi? Það þýðir auðvitað það að atkvæðavægi yrði alveg jafnt, það yrði einn maður eitt atkvæði. Kjördæmapot og hreppapólitík mundi minnka og fleiri konur yrðu líka valdar á þing þannig að það eru ýmsir kostir við það.

Af hverju mundi atkvæðavægið verða jafnt? Það skýrir sig að sjálfsögðu sjálft. Af hverju mundi hreppapólitík minnka? Það skýrir sig að flestu leyti en við sem erum hér vitum auðvitað hvernig vinna okkar er og hvernig þetta kjördæmapot kemur út. Við upplifum það því miður dags daglega. Við erum með átta kjördæmi og mér þykir hálfskondið á tímum góðra samgangna. Ég get nefnt sem dæmi að í Færeyjum eru kjördæmin sjö og okkur finnst það fyndið en það er svona álíka fyndið og við erum með átta kjördæmi. Af hverju fjölgar konum á þingi ef við breytum kosningalöggjöfinni og gerum landið að einu kjördæmi? Jú, þá yrði auðvitað landslisti og honum yrði raðað upp í gegnum flokkana en ég teldi reyndar betra að hafa hann opinn eða bara í stafrófsröð og fólk mundi velja sjálft. En ef flokkarnir mundu raða honum upp er alveg ljóst að enginn flokkur, a.m.k. ekki Sjálfstfl. trúi ég, mundi dirfast að raða upp fjórum konum í 25 efstu sætunum. Framsfl. mundi ekki heldur dirfast að setja þrjár konur í efstu 15 sætin einungis og Alþb. mundi heldur ekki dirfast að setja tvær konur í efstu níu sætin. Landslistinn mundi þannig að öllum líkindum valda því að konur kæmust frekar að. Þetta leiðir hugann að því sem margir vilja segja í sambandi við jafnrétti kynjanna að það þurfi viðhorfsbreytingu. Viðhorfsbreytingin er löngu komin. Konur mundu komast á þing ef kosningalöggjöfinni yrði breytt. Það vantar ekki viðhorfið. Viðhorfin eru breytt.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þótt skoðun mín sé sú að það væri skynsamlegast að gera landið að einu kjördæmi er alls ekki víst að nein samstaða náist um hana. En það er trú mín að það sé einungis tímaspursmál hvenær landið verður að einu kjördæmi, ég er alveg sannfærð um að það verður. E.t.v. líða 10--15 ár þangað til, gott og vel. En meðan við bíðum eftir því að fólk átti sig á því að það er skynsamlegasta leiðin er ég tilbúin til þess að skoða allar leiðir sem eru í þá átt að jafna atkvæðisréttinn.