Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:06:30 (1318)

1995-11-27 18:06:30# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:06]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Einhver algengustu viðbrögð manna sem skilja ekki mannréttindahugtakið er að vísa til alþjóðasamstarfs og segja: Ísland hefur eitt atkvæði á allsherjarþinginu eins og Kína. Hve mikið er misvægi atkvæða þar?

Hér er verið að bera saman óskylda hluti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er ekki löggjafarsamkunda. Þarna eru svokölluð fullvalda ríki á samkundu. En hverjir ráða Sameinuðu þjóðunum? Það er ekki allsherjarþingið. Það er reyndar eitt stórveldi sem ræður þeim núna í krafti valdsins, öryggisráðið að formi til, með neitunarvaldi. Þannig að þetta er ekki eitt og hið sama.

Misvægi atkvæða sem tíðkast auðvitað í öðrum löndum er mjög tengt skiptingu þingsins í málstofur. Víða um lönd voru þetta leifar af þeim hugsunarhætti að það væri hægt að kalla það lýðræði þótt atkvæðisrétturinn væri skertur. Hann var skertur í þessu þjóðfélagi fyrir ekki mjög löngu, hann var bundinn við karlmenn á tilteknu aldursskeiði, tiltekna eign, konur voru útilokaðar, eignalaust fólk var útilokað o.s.frv. Þessar hugmyndir hafa svolítið breyst. Þær hafa breyst þannig að Ísland hefur skuldbundið sig, reyndar í alþjóðasamningi, þ.e. mannréttindasáttmála um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, til þess að virða grundvallarregluna: einn maður, eitt atkvæði.

Virðulegi forseti. Að því er varðar framkvæmdina á listakjöri í landinu sem einu kjördæmi, þessu litla landi, 250 þúsund sálir, er það ekki eins flókið og hv. þm. lýsti. Hægt er að hugsa sér ýmsar leiðir til þess. Persónuvalið getur snúist um það að menn velji sér þingmenn af einum lista. Hann getur líka verið í því fólginn að hann velji sér þingmannsefni af fleiri en einum lista. Líka er hægt að hugsa sér útfærslu af því taginu að menn bindi sig við að framkvæmd kosningarréttarins sé nánast í hinum gömlu héruðum til þess að minnka þetta tölfræðilega vandamál sem hv. þm. var að lýsa.

Síðan má að lokum benda á það að reiknireglan sem kennd er við d`Hondt er ekki flókin og hún kemur þessu máli ekkert við ef við erum með regluna einn maður, eitt atkvæði í einu kjördæmi.