Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:23:19 (1324)

1995-11-27 18:23:19# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:23]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Það er gjarnan svo þegar menn eru í þessum ræðustóli að útskýra sitt mál að þeir réttlæta afstöðu sína með því að vísa til aðstöðumunar, að þeir séu að tala í nafni réttlætis og þá ekki síður hitt að þegar verið er að setja hér lög, þá horfa menn mjög til jafnréttis allra þegnanna, lögin eiga að ná til þeirra allra og gera þeim öllum jafnhátt undir höfði. Og menn nefna ekki síður jafnræðisreglu, vísa til hennar máli sínu til stuðnings. Það er því tímabært, þó ekki sé langt liðið á þetta þing eða þetta kjörtímabil, að menn taki upp umræðuna um jöfnun atkvæðisréttarins. Í því samhengi tel ég að óhjákvæmilegt sé að menn tali jafnframt um einföldun kosningalöggjafarinnar, eins og hér hefur reyndar verið gert.

Það er að mínu mati æskilegt að atkvæðisréttur fólks í landinu sé jafn og það er á sömu forsendum og ég tel að við eigum að horfa til jafnréttis í öðrum þeim málum sem hér er fjallað um. Ég vil reyndar taka kosningarréttinn þar aðeins fram yfir vegna þess að jafn kosningarréttur er grundvöllur þess að við getum horft til þess að hér sé tekið lýðræðislega á málum, að hér séu fullkomin mannréttindi virt.

Varðandi einföldun kosningalöggjafarinnar tel ég líka að það sé mjög nauðsynlegt að hún sé skoðuð með það fyrir augum að menn viti hvað þeir eru að gera með atkvæði sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé alveg ljóst, þegar fólk greiðir atkvæði, hverjum það er að greiða atkvæði eða hverju. Það er líka hluti af því sem við viljum kalla mannréttindi.

Mér fannst eftirtektarvert að þegar hv. þm. Viktor B. Kjartansson, flm. þessarar tillögu, mælti fyrir henni, vísaði hann til annars máls sem hér var til umræðu fyrir skömmu, en þá var hér til umfjöllunar þáltill. um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Það er athyglisvert að hann skyldi í þessu samhengi vísa til þess máls sem eins konar seríumáls, vegna þess að ég held að sú togstreita sem er um jöfnun atkvæðirséttarins í landinu stafi ekki hvað síst af því að menn horfa mjög til þess að þeir sem fara með löggjafarvaldið eru jafnframt framkvæmdarvaldshafar. Ekki er það einasta svo að þingmenn geti orðið ráðherrar og þar með framkvæmdarvaldshafar, heldur er það einnig þannig að býsna margir alþingismenn sitja í ýmsum nefndum og ráðum sem fara með framkvæmdarvaldið. Staðan hjá okkur er sú að við erum með mun fleiri mál til ákvörðunar hjá ríkisvaldi heldur en í sveitarstjórnum. Ef við horfum til okkar nágrannalanda eru hlutföllin allt önnur og mun fleiri mál eru færð sveitarstjórnum til ákvörðunar. Á meðan svo mikið af valdinu er samþjappað hér í kringum framkvæmdarvaldið, í kringum ríkisstjórn, og rennur með þessum hætti inn á hv. Alþingi, held ég að það sé mjög eðlilegt að fólkið úti um landið líti svo á að það geti því aðeins treyst því að réttar þess sé gætt, að það eigi svo og svo marga alþingismenn.

Mín skoðun er hins vegar sú að ef við breyttum þessu hlutfalli á milli þeirra ákvarðana sem teknar eru annars vegar af ríkisvaldinu og hins vegar á sveitarstjórnarstiginu, þ.e. við breyttum þeim þætti stjórnsýslunnar, væri mun auðveldara að ná sátt um þetta grundvallarmál. Ég er mjög höll undir það sem menn hafa kallað: landið --- eitt kjördæmi. Ég er höll undir það af ýmsum ástæðum. Ég tek undir það sjónarhorn sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan varðandi hlut kvenna. Ég er sannfærð um að hann mundi batna ef við hefðum landið allt eitt kjördæmi. En ég vil líka skoða þá hugmynd í því ljósi að mér finnst að við eigum, 265 þúsund hræður, að bera umhyggju fyrir högum hvers annars, hvort sem við búum í Reykjavík, vestur á fjörðum, austur á fjörðum eða hvar svo sem búsetan kann að vera. Og ég hlýt að spyrja: Af hverju kom ég ekki hér upp vegna samgöngumála á Vestfjörðum eða af hverju var það ekki hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem kom hér upp út af samgöngumálum á Vestfjörðum þegar þær fréttir bárust að flugsamgöngur þar mundu að öllum líkindum verða lakari en verið hafði? Af hverju var það einn af þingmönnum kjördæmisins sem kom upp með þá umræðu og af hverju töluðu aðallega þingmenn þess kjördæmis í þeirri utandagskrárumræðu? Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist, en hefði ekki verið eðlilegra og vildum við ekki öll fremur sjá hlutina ganga þannig fyrir sig á hv. Alþingi að okkur kæmu öll mál við, hvort sem hlutirnir eru að gerast á suðvesturhorninu eða annars staðar á landinu?

Ég vil jafnframt lýsa yfir stuðningi við tillögur sem þau hafa einna helst nefnt í mín eyru, Jón Baldvin Hannibalsson annars vegar og Jóhanna Sigurðardóttir hins vegar, að menn ættu að skoða hugmynd um stjórnlagaþing. Hverju mundi það breyta, segja menn, ef einhverjir aðrir væru kjörnir, væntanlega yrðu það einhverjir aðrir, til þess að fara yfir þessi mál? Jú, það mundi breyta því að menn væru þá ekki að fjalla um sinn persónulega hag og það skipti býsna miklu. Það ætti þó sagan að hafa kennt okkur.

Svo rétt aðeins ein setning inn í deilur sem hér hafa farið fram, býsna skemmtilegar þó, um það hvort einhver munur sé á því að Ísland hefur eitt atkvæði á vettvangi eins og hjá Sameinuðu þjóðunum eða annars staðar í alþjóðasamstarfi og að menn vilji gjarnan sjá þá sem tala fyrir einn maður eitt atkvæði, samþykkja hlutfallsatkvæðisrétt Íslendinga inni á þeim samkomum, þá held ég að við verðum að horfa á löndin sem sjálfstæðan aðila sem í krafti þess hefur eitt atkvæði. Það er eins með þjóðir og þá einstaklinga sem við mörg hver teljum að eigi að hafa hver sitt atkvæði að þær geta svo sem verið mismerkilegar. Eigi að síður getum við horft á það þannig að það sé jafneðlilegt að hver þjóð hafi eitt atkvæði á þeim vettvangi þar sem menn hafa komið sér saman um að ráða ráðum eins og það að hver þegn hafi eitt atkvæði.