Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 18:38:23 (1326)

1995-11-27 18:38:23# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[18:38]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig að hefðbundin framsóknarsjónarmið hafa heyrst þó í þessari mannréttindaumræðu. Hv. þm. sagði sem svo að hún styddi ekki hugmyndina um það að Vestfirðir hefðu bara tvo þingmenn en Reykjavík 26. Þetta er býsna algengt sjónarmið.

Nú vill svo til um þann sem hér stendur að hann var sem fulltíða maður búsettur í 10 ár á Vestfjörðum. Flutti þaðan engu að síður en hafði á þeim tíma allt að því fimmfaldan atkvæðisrétt og missti hann við flutningana. Það er mér nokkurt umhugsunarefni að ekki hafa verið neinir búferlaflutningar frá neinum landsfjórðungi sem jafnast á við búferlaflutninga frá Vestfjörðum. Þannig að ef þessi byggðastefna eða þessi vísitala atkvæðisréttarins á að vera partur af byggðastefnu Framsfl. þá hefur hún ekki dugað. Hún hefur ekki dugað til þess að bæta mönnum upp eitthvað annað. Hún hefur nákvæmlega engin áhrif haft á ákvarðanir manna um búsetu. Það er þó eina réttlætingin fyrir því að það eigi að bæta mönnum eitthvert óhagræði í aðstöðu með því að gefa mönnum meiri atkvæðisrétt.

Hitt er svo annað mál að byggðastefna á auðvitað fullkominn rétt á sér. Hún á fyrst og fremst að vera í því fólgin að færa meira af miðstjórnarvaldi ríkisins heim í héruð. Ef menn óttast miðstjórnarvald, ef menn óttast að héruðin fari halloka vegna þess að menn nái þeim mannréttindum að því er varðar almennar leikreglur, einn maður eitt atkvæði sem er auðvitað óafsalanleg mannréttindi hvað sem svo einhver mandarín í Brussel segir þá geta menn hins vegar brugðist við á annan veg. Það er einfaldlega pólitísk spurning: Viljum við raunverulega breyta verkaskiptingu miðstjórnarvaldsins og héraðanna með því að færa meira vald heim í héruð? Þá mundu Vestfirðingar sem aðrir ráða meiru um mál sín vegna þess að atkvæðisrétturinn er ekki fyrir landið. Hann er fyrir einstaklingana sem byggja landið.