Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 19:05:46 (1337)

1995-11-27 19:05:46# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[19:05]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hefur að mínu mati leitt til þess að mjög hefur hallað undan fæti á landsbyggðinni hvað varðar íbúaþróun og kannski hvað mest og örast á Vestfjörðum er nákvæmlega ójafnt vægi atkvæða. Vestfirðingar ráða of litlu um hagsmuni sína, þess vegna tekst þeim ekki betur til að standa í ístaðinu miðað við íbúa annars staðar, sérstaklega hér við Faxaflóann, af því að íbúar við Faxaflóann ráða of miklu fyrir hagsmuni sína og Vestfirðingar of litlu fyrir hagsmuni sína. Þess vegna hefur orðaleppurinn ,,jöfnun atkvæðisréttarins`` aðra merkingu en hv. þm. vill vera láta. Það er hægt að benda á að þetta þýði að þeir sem búa úti á landi eigi að knýja á um breytingar sem gera þeim kleift að ráða meira um hagsmunamál sín en þeir gera í dag.

Ég nefndi áðan nokkur atriði sem að mínu viti skipta miklu máli um hvernig þróunin verður í þeim efnum ef t.d. Vestfirðingar tækju málin í sínar hendur hvað það varðar. Þá held ég að þeim mundi betur farnast að ráða yfir auðlindinni, t.d. ráða fiskimiðunum fyrir utan Vestfirði. Er hv. þm. Viktor B. Kjartansson tilbúinn til að leyfa Vestfirðingum að ráða þessari auðlind? Ég held að bæði hann og fleiri hér muni hrista hausinn af því að þeir vilja ráða og hafa gert það hingað til.