Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:05:10 (1342)

1995-11-28 14:05:10# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:05]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir skýrslu hans, verð ég að segja alveg eins og er að mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram hvert væri samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar hvað varðar Schengen-samkomulagið. Eins og við vitum felur það í sér tvennt, þ.e. annars vegar afnám vegabréfaeftirlits milli samningsríkjanna og hins vegar afnám tollskoðunar og eftirlit með innflutningi og þá almennt eftirlit með ferðamönnum sem koma til landsins og varningi þeirra.

Það fyrra virðist manni vera í sjálfu sér mjög jákvætt og einfalt markmið að setja sér, en það seinna er allt annars eðlis og útheimtir í raun og veru að við séum í tollabandalagi við þessi ríki. Við erum þá komin inn á viðkvæma hluti eins og sóttvarnir, fíkniefnavarnir og margt fleira því skylt. Öllum er kunnugt að fíkniefni eiga ærið miklu greiðari aðgang að Amsterdamborg heldur en Reykjavík og ef við legðum niður landamæraeftirlit gagnvart flugi frá Amsterdam, værum við í raun og veru að fela Hollendingum eða Spánverjum eða Grikkjum eða einhverjum öðrum þjóðum að annast fíkniefnavarnir fyrir okkur. Ég held að hvorki hæstv. ráðherra né neinum öðrum geti dottið slíkt í hug. Þess vegna finnst mér að það mundi gera umræðuna töluvert skýrari ef við fengjum á hreint hvort það er ekki fyrst og fremst vegabréfahliðin sem við erum að tala um. Yrði ekki tollskoðunarhliðin algerlega að vera undanþegin? Og þá vaknar um leið spurningin: Er það þá raunhæft að aðili eins og Íslendingar sem einungis vill skoða vegabréfahlið málsins geti orðið aðili að svona samningi?

Ég vil sem sagt óska eftir því að hæstv. ráðherra geri ögn skýrari grein fyrir samningsmarkmiði ríkisstjórnarinnar.