Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 14:27:43 (1347)

1995-11-28 14:27:43# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[14:27]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessa greinargerð. Það var vissulega ástæða til að kynna málið og taka það til umræðu á Alþingi og þeim mun betra ef ráð er í tíma tekið. Það ber vott um að tímaskyn hæstv. ráðherra sé í sæmilegu lagi.

Ég held að mönnum beri öllum saman um að Íslendingar eins og allir Norðurlandabúar vilja nokkuð á sig leggja til þess að varðveita norræna vegabréfasambandið sem við höfum 40 ára reynslu af.

Þegar þrjú Norðurlanda eru orðin aðilar að Evrópusambandinu og þrjú þeirra hafa óskað eftir aðild að Schengen með fullum skuldbindingum, stöndum við að öðru óbreyttu frammi fyrir breytingum sem mundu kollvarpa því. Það teljum við ekki æskilegt. Á hinn bóginn kemur mér kannski nokkuð á óvart að málið skuli ekki vera lengra á veg komið og undirbúningi skuli ekki hafa þokað lengra fram en virðist vera af þessum upplýsingum. Það segi ég í ljósi aðdragandans sem og þess að á sameiginlegum fundi forsætisráðherra Norðurlanda 27. febr. var hin pólitíska stefna mörkuð, þ.e. það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að Norðurlöndin hefðu sameiginlega ákveðna afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfi. Það er ekki nýtt, það liggur fyrir. Þá er spurningin um hvernig þetta megi útfæra. En þar virðist fæstum spurningum svarað svo að óyggjandi sé. Í niðurlagsorðum segir, með leyfi forseta:

,,Það á eftir að koma í ljós hverjir kostir standa okkur til boða af hálfu Schengen-landanna. Jafnframt þarf að meta kosti og galla aðildar frekar, hver kostnaður hlýst af aðild, svo og kanna hver áhrif það hefur ef við verðum ekki þátttakendur í samstarfinu á samgöngur og flutningastarfsemi, ferðalög til og frá landinu, svo og á samskipti okkar við Evrópu almennt.`` Hæstv. ráðherra hnykkir á því með því að segja að fram hjá því verði ekki litið að kostnaður geti hindrað þátttöku í þessu samstarfi.

[14:30]

Það sem vekur athygli mína er að það liggur ekki fyrir hverjir kostir standa okkur til boða. Það er ekki búið að meta kosti og galla. Það er meira að segja ekki búið að meta hvaða áhrif það hefur ef við stöndum utan við, sem ég hélt að lægi í stórum dráttum fyrir. Og það er gefið í skyn a.m.k. að þetta geti orðið okkur svo dýrt í framkvæmd að það verði útilokað af kostnaðarsökum.

Þá spyr ég næst og beini því til hæstv. dómsmrh.: Hvaða tímaáætlun sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þessu máli að því er varðar framhaldsvinnu þess á grundvelli hinnar almennu stefnumótunar að við viljum gjarnan gera það sem unnt er, ef það er ekki útilokað af öðrum ástæðum, til að viðhalda norræna vegabréfasambandinu? Er það svo að niðurstaða og þá með fullri útfærslu eigi að liggja fyrir á ráðherrafundi undir lok desembermánaðar eða er það rétt að hér sé verið að ræða um lengri undirbúningstíma og reyndar lengri aðlögunartíma áður en kæmi að framkvæmdum? Af blaðafregnum sem ég treysti ekki að séu áreiðanlegar, hefur t.d. heyrst frá Finnlandi að þeir geri ráð fyrir býsna löngum aðlögunartíma. Í ljósi þessa og í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram og svara hæstv. ráðherra hér aðan, þá er það svo að málið virðist ekki liggja ljóst fyrir. Það þarf að afla upplýsinga og vinna úr upplýsingum. Reyndar segir svo á einum stað í þessari skýrslu að íslensk stjórnvöld hafi fengið spurningalista í sínar hendur, en þau hafi ekki sjálf lokið við að svara þeim spurningum sem þar eru lagðar fyrir. Síðan er bent á að útfærslan hver sem hún verður í smáatriðum geti þýtt talsverðar breytingar, sérstaklega á rekstri og starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þannig að þar kallar á framkvæmdir. Það er sama hvar borið er niður, málið er lítt þroskað eins og það er orðað á máli aðila vinnumarkaðarins. Kostirnir við þetta samstarf eru ótvíræðir eins og fram kom í máli ráðherra á sömu sviðum, bæði að því er varðar aðild að upplýsingakerfum og lögreglusamstarf. Það er lykilatriði að það sé tryggt í framkvæmd að við höldum öllum þeim tólum og tækjum og heimildum sem við höfum til þess að hafa strangt eftirlit í framkvæmd með hugsanlegum innflutningi fíkniefna til landsins. Ráðherra hagaði að vísu orðum sínum svo að það væri ekki ástæða til þess að óttast það, ef ég skil hann rétt.

Af því sem fram hefur komið er ekki annað hægt að segja en að það er þakkarvert að kynna málið almennum orðum á hinu háa Alþingi. Undirbúningi er mjög áfátt. Hann er skammt á veg kominn. Hin pólitíska stefnumörkun liggur fyrir, en niðurstaðan er í óvissu, samkvæmt því sem ráðherrann segir sjálfur. Það virðist því vera nægur tími til stefnu til þess að fara ofan í saumana á málinu. En stjórnvöld eiga líka eftir að vinna frekari nauðsynlega heimavinnu í þessum þætti Evrópumálanna.