Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 15:17:03 (1358)

1995-11-28 15:17:03# 120. lþ. 42.7 fundur 104#B Schengen-samkomulagið, munnleg skýrsla dómsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[15:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessa skýrslu. Hún er á vissan hátt fróðleg þótt jafnframt sé ljóst að mikið er enn eftir af heimavinnunni áður en til ákvörðunar getur komið í málinu.

Mér virðist ljóst að um er að ræða mjög margar áleitnar pólitískar spurningar sem hér er ekki tekin afstaða til og vafalaust eru mjög skiptar skoðanir um eins og hefur komið fram í þessari umræðu, þótt líklegt sé að flestir vilji áframhaldandi sameiginlegt vegabréfasamband við Norðurlöndin og jafnvel að það verði útvíkkað til Schengen-ríkjanna. Að auki á eftir að finna út hver kostnaðaraukinn verður, svo og aðrar efnahagslegar afleiðingar af þátttöku okkar í þessu samstarfi. Því vil ég spyrja hæstv. dósmrh. nánar um meðferð þessa máls og tímasetningar í því sambandi.

Í fyrsta lagi: Hvenær mun liggja ljóst fyrir hver kostnaður verður af aðild okkar að Schengen-samstarfinu og nánari upplýsingar um efnahagslegar afleiðingar þátttökunnar, svo og pólitískt mat ríkisstjórnarinnar á því að taka þátt í þessu samstarfi og að gera það ekki? Er að vænta einhvers slíks mats á næstunni?

Þá vil ég spyrja hvort hæstv. dómsmrh. er kunnugt um hvers vegna England og Írland, sem eru eyjur eins og Ísland, hafa ekki óskað eftir aðild að samstarfinu.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. eða utanrrh. hvernig þeir sjá fyrir sér ákvarðanatöku í þessu máli. Hvenær gera þeir ráð fyrir að þingið komi formlega að ákvörðun í þessu mikilvæga máli? Er það réttur skilningur hjá mér að ákvörðun verði að liggja fyrir í málinu fyrir 15. janúar 1996 eða verður möguleiki á að gerast aðili að þessu samkomulagi síðar ef vilji Alþingis liggur í þá átt?