Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:11:16 (1368)

1995-11-28 16:11:16# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:11]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 71 hef ég lagt fram till. til þál. um skipun nefndar um menningar- og tómstundastörf fatlaðra. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu og gera tillögur um úrbætur. Nefndina skipi fulltrúi ráðuneytis, einn frá Samtökum sveitarfélaga, einn frá svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra, einn frá Öryrkjabandalaginu og einn frá Þroskahjálp.``

Í greinargerð með þáltill. segir m.a.:

,,Margt hefur áunnist í málefnum fatlaðra á liðnum árum. Komin er æskileg sátt um meginatriði í búsetumálum fatlaðra og aðbúnað á heimilum þeirra. Ýmislegt fleira mætti upp telja sem áunnist hefur þótt vissulega sé vandi allt of margra enn óleystur.

Margt af því sem eðlilegt er talið og eftirsóknarvert hjá þorra þjóðarinnar hefur ekki komist til framkvæmda hjá fötluðum og reyndar varla orðið tilefni umræðu þegar þeirra málefni ber á góma. Má þar til dæmis nefna alla þá uppbyggingu er orðið hefur á síðustu árum á sviði lista og menningar og fjölbreytt tækifæri til tómstunda og skemmtanalífs. Fyrir þessari uppbyggingu hefur ríkið staðið, í mörgum tilvikum í samstarfi við sveitarfélögin, eða um hefur verið að ræða stuðning ríkis með framlögum til reksturs og/eða framkvæmda. Með stuðningi sínum hafa ríki og sveitarfélög viðurkennt það sem samfélagslegt verkefni að auðvelda þjóðinni aðgang að hvers konar menningar- og listastarfsemi, svo og tómstundaiðkun. Þá hefur rekstur og uppbygging listaskóla verið styrkt af ríki árum saman.``

Þar er aðgengi fatlaðra mjög takmarkað, sem og reyndar í öðrum skólum. Og ég vil geta þess hér, virðulegi forseti, að möguleikar fatlaðra til þátttöku í tómstunda- og menningarstarfi skóla hvort sem er á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi eru oft mjög takmarkaðir, einfaldlega vegna þess að ekki er gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra.

,,Margir fatlaðir búa yfir lista- og sköpunargáfu á ýmsum sviðum sem hægt er að virkja, þeim og öðrum til þroska og gleði. Þær almennu menntunarleiðir, sem bjóðast á þessu sviði, henta mörgum fötluðum ekki án sérstakrar aðstoðar. Mikilvægt er að gefa þessu hæfileikafólki sömu möguleika á að virkja og þroska hæfileika sína og aðrir njóta.

Á árinu 1994 fóru 144.442 Íslendingar utan og greiddu í fargjöld um 4 milljarða kr. og eyddu í ferða- og dvalarkostnað erlendis um 17,5 milljörðum kr. eða samtals í ferðakostnað um 21,5 milljörðum íslenskra kr. Fjöldi ferðamanna sýnir að hin margvíslegu ferðatilboð sem bjóðast gera stórum hluta þjóðarinnar kleift að ferðast og kynnast öðrum löndum og þjóðum. Þessi tilboð standa fötluðum einnig til boða, en þeir sem vegna fötlunar geta ekki ferðast einir verða að kaupa sér aðstoð sem þýðir að þeir verða að greiða allt að tvöfaldan kostnað vegna ferða og uppihalds fylgdarmanns sé ekki um að ræða ferðir sem sérstaklega eru skipulagðar fyrir fatlaða.

Annað dæmi skal nefnt sem lýtur að sumarleyfum eða orlofsdvöl. Fjölmörg launþegafélög og samtök launþega eiga nú hundruð sumarbústaða, orlofsheimili og orlofsíbúðir til afnota fyrir félagsmenn sína. Þorri fatlaðra hefur engan rétt til þessara bústaða vegna þess að þeir eru ekki meðlimir í launþegafélögum. Þótt þeim bjóðist af og til bústaðir til afnota fyrir velvilja eiganda sitja þeir alls ekki við sama borð og aðrir. Kostnaður við aðstoð og fylgd er fjárhag þeirra ofviða þótt þeir gætu staðið undir eigin ferða- og uppihaldskostnaði. Þá er full ástæða til að geta þess að það heyrir til algerrar undantekningar ef hús og umhverfi er hannað með tilliti til fatlaðra.

[16:15]

Mörg önnur atriði mætti upp telja, en það verður ekki gert hér. Á þetta er bent þar sem hvergi er gert ráð fyrir aðstoð eða fjármagni til að standa undir þeim kostnaði sem hér um ræðir og fötluðum, sem gert er að lifa af tryggingabótum, er fjárhagslega ofviða.

Ástæða er til að hefja umræðu um lífsgæði fatlaðra utan grundvallarþarfa og fá tillögur til úrbóta.``

Því er þessi tillaga lögð fram. Ég vil einnig bæta því við að ég tel ekki síst ástæðu til að þessi úttekt fari fram með tilliti til þess að svo virðist sem að því sé stefnt að umsjón með málefnum fatlaðra færist í auknum mæli yfir á sveitarfélögin. Það er því eðlilegt að það verði metinn kostnaður við þau verkefni sem enn eru óunnin og varða aðbúnað og aukna möguleika fatlaðra til náms, tómstunda og menningarstarfs til jafns á við aðra. Það er einnig nauðsynlegt að gera þessa úttekt sem tillagan felur í sér svo að sjá megi hvert raunverulegt ástand þessara mála er og hvaða leiðir eru færar til úrbóta.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu fer ég fram á að tillögunni sé vísað til umfjöllunar í hv. félmn. og síðan til síðari umræðu.