Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 16:16:40 (1369)

1995-11-28 16:16:40# 120. lþ. 42.9 fundur 71. mál: #A menningar- og tómstundastarf fatlaðra# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[16:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa ágætu tillögu sem hér er flutt um að skipa nefnd um menningar- og tómstundastarf fatlaðra og er sannfærð um að það er mikill grundvöllur fyrir því að taka á þessu máli núna og opna bæði umræðuna og auka möguleika fatlaðra á þessu sviði. Það er mjög mikilvægt að skapa fötluðum grundvöll til fjölbreyttrar þátttöku í okkar þjóðlífi. Það hefur verið gert að hluta til. Það hefur verið gert með lagasetningu undanfarna áratugi. Það er búið að ganga nokkuð vel frá stöðu fatlaðra hvað varðar félagslegan aðbúnað þeirra í nánasta umhverfi. En það er mikið starf óunnið í þeirra þágu enn þá. Hér er hreyft mjög þörfu máli sem snýr að menningarmálum og tómstundum fatlaðra og við höfum auðvitað kynnst því að þar hefur margt spennandi gerst. Ég get nefnt leikhúsið að Sólheimum sem var alveg sérstakt og út af fyrir sig þegar hafist var handa með það. Það eru bara fáeinar vikur síðan mörg okkar voru á málverkasýningu á vegum Félags heyrnarlausra sem var mjög athyglisverð. Það er full ástæða til í þessu samhengi að nefna íþróttasamband fatlaðra þar sem fatlaðir hafa sýnt ótrúlega hæfni og reynst afreksfólk á sínu sviði. Unnið til afreka og sýnt getu sína, ekki síst sannað sig fyrir sjálfum sér, bæði heima og heiman. Ég nefni það sérstaklega hvað það er til mikils sóma fyrir alla sem hafa komið að þeim málum að gera fötluðum kleift að iðka svo öfluga íþróttastarfsemi hér á landi sem raun ber vitni. Og allt er þetta angi af hinu sama sem hér er hreyft og mjög mikilvægt að vinna að.

Það er hægt að orða það svo að nú sé þörf á auknu aðgengi fatlaðra að þjóðfélaginu. Þegar við tölum um aðgengi er algengast að við hugsum um ferlimál, hin hefðbundnu ferlimál fatlaðra. Það er mikilvægt að leysa þau og það hefur verið unnið að því á liðnum árum, ekki síst með því að ferlinefndir hafa starfað á flestum landsvæðum en aðgengi er miklu fleira. Aðgengi er hreinlega það að allar dyr séu opnar sem mögulegar eru fyrir fatlaða inn í þjóðfélagið. Við getum nefnt að táknmálið sé viðurkennt sem tungumál heyrnarlausra, það er þeirra aðgengi að samfélaginu. Við getum talað um aðgengi að þeim sviðum þjóðlífsins sem standa ófötluðum opin en illfær eru fötluðum af því að þar eru ósýnilegu þröskuldarnir. Flm. þessarar tillögu hefur einmitt lagt áherslu á að gera úttekt á því hvar þröskuldarnir á þessum sviðum eru í menningar- og listaheiminum.

Það er ekki hægt að tala um þessa hluti öðruvísi en að nefna menntunarmál og möguleika fatlaðra í framhaldsskólum og atvinnumálin sem nú skipta svo miklu máli. Það er sannfæring mín að það sem brennur mest á í málum fatlaðra nú um stundir eru bæði menntunar- og atvinnumál. Mig langar að nefna það hér, virðulegi forseti, að fyrir nokkrum árum var það tilraunaverkefni í Menntaskólanum í Kópavogi að nemendur á félagsfræðibraut tóku að sér að vera eins konar liðveislufélagar ungra, fatlaðra einstaklinga. Með því gerðu þeir þeim kleift að fara út á meðal ófatlaðra ungmenna og taka þátt í félagslífi af ýmsu tagi. Þetta var afar áhugavert verkefni. Það var þroskandi fyrir heilbrigðu nemendurna sem tóku það að sér og það opnaði nýjar leiðir og nam á brott þröskulda fyrir fötluðu ungmennin sem ella hefðu ekki átt möguleika á að fara á þennan hátt í bíó, á böll, í leikhús og hreinlega út á meðal annarra ungra einstaklinga. Það voru vissulega ákveðin útgjöld sem þurfti að leysa í þessu samhengi og það var gert. En ég er sannfærð um að þetta er þáttur sem vert er að skoða einmitt í tengslum við það verkefni sem hér er lögð tillaga fram um.

Virðulegi forseti. Ég vil minna á það um leið og ég lýk máli mínu um þessa tillögu að lögin um málefni fatlaðra tóku gildi 1. september 1992, þ.e. í þeirri mynd sem þau eru núna. Í þeim lögum er ákvæði um að þau skuli endurskoða innan fjögurra ára, sem þýðir að þeirri endurskoðun sé lokið fyrir 1. september 1996. Ég tel mjög æskilegt að niðurstaða þeirrar vinnu sem færi í gang ef þessi tillaga nær fram að ganga gæti legið fyrir á þeim tíma sem unnið verður að lagasetningu og endurskoðun laganna, ef svo færi að eitthvað af því sem þarna kæmi fram ætti erindi inn í lögin. Ég treysti því að þessi tillaga fái stuðning hv. þingheims þannig að þetta ágæta mál nái fram að ganga.