Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 17:42:24 (1385)

1995-11-28 17:42:24# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[17:42]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Ég held gagnstætt Vikublaðinu, sem hv. flm. nefndi áðan, að þessar tillögur séu tímabærar jafnvel þó fram hafi komið áður. Ég get tekið undir með síðasta hv. ræðumanni um það að ég tel enga ástæðu til þess að efast um vilja flutningsmanna til að haldið sé uppi fullkomnu tjáningarfrelsi í landinu. Auðvitað er hið raunverulega tilefni tillögu af þessu tagi ekki nýliðnir atburðir, heldur breytt fjölmiðlun í landinu. Breytt fjölmiðlun frá þeim tíma þegar meiðyrðakafli hegningarlaganna er settur og breytt fjölmiðlun frá þeim tíma sem prentlög eru sett. Því þau vantar í raun og veru þarna inn í. Þau eru hinn hlutinn af þessu dæmi öllu saman, m.a. lögum um ábyrgð einstakra manna sem rita og stjórna blöðum og öðrum fjölmiðlum.

Það hefur gerst á síðustu 15--20 árum að tækni og efnisleg umfjöllun hefur breyst mjög mikið í fjölmiðlun. Tækninni hefur fleygt fram. Við erum núna með mörg útvörp, sjónvörp. Við erum með ýmsar tölvutengingar, þar á meðal Internetið og innihald fjölmiðlanna og ástæður þeirra sem reka þá hafa líka breyst. Við höfum sem sé horfið frá þeirri fjölmiðlun sem fyrst og fremst var á pólitískum forsendum hér í mínu ungdæmi og sennilega flestra þeirra sem hér sitja, og til annars ástands sem við vitum kannski ekki alveg enn þá hvað er. Við bendum oft á það, sérstaklega þeir sem nálægt fjölmiðlun standa, að það ástand einkennist af aukinni fagmennsku. Það gerir það. Við getum líka kennt það við aukið lýðræði, að það séu ekki hin opinberu samskipti stjórnmálaflokka eða stofnana o.s.frv. í samfélaginu, heldur líka hið beina lýðræði þar sem einstaklingurinn í símanum tekur til máls, þar sem fólk kemst að í útvarpi, þar sem talað er við það í blaði o.s.frv. Við getum líka kallað þetta nýja ástand eða kennt það við markaðinn, vegna þess að fjölmiðlar eru ekki lengur reknir á pólitískum forsendum þá eru auðvitað fyrst og fremst markaðssjónarmiðin á bak við. Það getur að vísu farið saman, þótt það hafi ekki alltaf gert það. Mætti rifja upp ýmsar sögur í því efni með öðrum fyrrv. ritstjórum sem sitja hér í salnum.

[17:45]

Um Internetið vil ég segja þetta: Ég sé enga sérstaka ástæðu til endurskoðunar á lagasetningu út af Internetinu eingöngu. Í samskiptum á Internetinu, sem ég þekki ekki vel en hef aflað mér nokkurra upplýsinga um, fellur hver þáttur undir lagagreinar eða reglur sem gilda um aðra þætti. Hér á landi er sími og fax. Internetið er í raun og veru ekkert annað en einvers konar ofursími eða ofurfax. Segja má að heimasíðurnar séu persónulegur fjölmiðill eða stofnanalegur fjölmiðill fyrir einstaka menn og fyrirtæki. Um þetta gilda því sömu reglur og þar. Munurinn er annars vegar meiri hraði og síðan það sem hv. flm. nefndi sem eru stöðvar erlendis sem fara fram í skjóli nafnleyndar. Slíkar stöðvar eru hins vegar ekki til hér. Við þessu er erfitt að gera og sennilega rétt að eina leiðin til að koma í veg fyrir dreifingu efnis á þann hátt, þ.e. dreifingu nafnlauss efnis, því að allt annað efni á Internetinu má rekja ef menn hafa til þess tækifæri fyrir hraðanum til ákveðins ábyrgðarmanns, að það verði ekki gert nema með einhvers konar alþjóðasamningum. Ég tek undir að ég held að þessi meiðyrðalöggjöf, hegningarlögin og einnig prentlögin eigi að endurskoða. Ég get tekið undir ýmsar athugasemdir flutningsmanns við meiðyrðalöggjöfina og ýmsar viðbætur sem flutningsmaður nefndi, t.d. um hugsanlegan mun á opinberum persónum og almennum persónum eða hvað á að kalla það, munur sem blaðamenn og fréttamenn nota mjög mikið og er t.d. í störfum siðanefndar blaðamanna algengt umræðuefni. Ég get líka tekið undir með flutningsmanni um 237. gr. sem er ákaflega erfið í skilningi og túlkun:

,,Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.``

Það er að vísu um þessa ágætu grein að segja að hún á sér svo sögulegar rætur að maður mundi sjá eftir henni úr lögunum því að í Staðarhólsbók Grágásar segir:

,,Ef maður bregður manni brigslum og mælir áljót þótt hann segi satt, og varðar það fjörbaugsgarð, ...`` Það er því spurning hvort þessi grein fellur undir þjóðminjavörsluna í landinu. (Gripið fram í: Má ekki taka upp fjörbaugsgarð?) Jú, það væri líka góð hugmynd og skóggang. Það væru góðar refsingar. Þá væri hægt að reka þetta samfélag svolítið í framsóknarstíl.

Ég vil hins vegar segja að menn hnjóta um fátt í meiðyrðalögunum. Hins vegar skiptir túlkunin mjög miklu máli og þar komum við að ákveðnu vandamáli. Túlkun dómstólanna hefur valdið hér framan af, t.d. eftir það tímabil sem hv. þm. Svavar Gestsson, vitnaði til, að menn höfðu skömm á þessari löggjöf. Almennilegir menn höfðuðu ekki mál á grundvelli þessarar löggjafar. Það breyttist fyrir nokkrum árum fyrir tilverknað ýmissa annarra manna og síðan hefur verið nokkur straumur meiðyrðamála. Það verður að segjast eins og er að þegar menn hafa farið yfir þau, blaðamenn, fjölmiðlamenn, og ég vona lögfræðingar, hefur skort mjög samræmi í túlkun og það jafnvel þannig að dómarnir hafa stangast á innbyrðis. Það kemur fyrir að Hæstiréttur breyti dómi frá fyrra dómstigi. Þessi mismunandi túlkun dómstóla hefur skapað réttaróvissu í þessum málum sem kemur mjög niður á fjölmiðlamönnum og skapar hjá þeim ákveðin viðhorf gagnvart öllum breytingum. Hún skapar hjá þeim tortryggni, í fyrsta lagi hjá dómsvaldinu og einnig gagnvart löggjafarvaldinu eins og hv. 8. þm. Reykv. ræddi hér áðan.

Í erindi sem Sigurður Már Jónsson flutti og birti í Blaðamanninum í ágúst 1994 fer hann yfir ýmis af þessum málum. Hann fer yfir meiðyrðamál frá árunum 1987 til miðs árs 1994 og tekur þau út úr sem blaðamenn hafa lent í. Ég vil nefna nokkur mál þar sem sektir hafa verið hæstar þannig að menn hafi hugmynd um það við hvað fjölmiðlamenn geta búið í þessum efnum. Áður hefur verið minnst á mál ákæruvaldsins gegn Halli Magnússyni frá 1992 úr Hæstarétti þar sem Hallur var dæmdur til að greiða 610 þús. kr. í sekt. Í héraðsdómi 1992 var tekið fyrir mál Úlfars Þormóðssonar og Gallerí Borgar gegn Kristjáni Þorvaldssyni og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur sem skrifuðu þá í Pressuna. Það mál endaði með 750 þús. kr. dómi, fór í Hæstarétt og stendur nú í 1.235 þús. kr. með vöxtum og dráttarvöxtum. Það mál er sérstakt vegna þess að blaðið, sem þau skrifuðu í, fór á hausinn. Þær tryggingar sem þau töldu sig hafa fyrir að þurfa ekki að verða sjálf persónulega ábyrg fjármálalega í skrifum sínum reyndust ekki halda. Sækjendur málsins krefjast nú að blaðamennirnir tveir borgi þessa upphæð sem nú er komin í u.þ.b. 1.235 þús. kr. Það sem Hrafn Gunnlaugsson fékk dæmt í máli sínu gegn Helgarblaðinu var 471.500 kr. Það mun hafa verið 1993 eða 1994. Í máli Más Péturssonar gegn Pressunni í héraðsdómi 1994 var niðurstaðan 625.000 kr. (Forseti hringir.) Ég fer fram á að fá að lesa þótt tíminn sé að renna út niðurstöðu Sigurðar Más í þessu efni. Hann kallar þennan feril meiðyrðamála sjálfsafgreiðslumeiðyrðamál. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þeir sem hafa lagt sig eftir því að lesa dóma, hvort sem það er vegna starfa sinna eða af áhuga, sjá að efnislegur rökstuðningur fyrir niðurstöðu málsins á að leiða til lögskýrðrar dómsniðurstöðu. Í meiðyrðamálum lítur þetta öðruvísi út. Dómar í þeim eru fullir af mótsagnakenndum fullyrðingum þar sem smekkur dómarans ræður ríkjum. Dómarar hafa ákveðið að uppsetning efnis sé óviðurkvæmileg ein og sér, svo vitnað sé til orðalags þeira, jafnvel leyft sér að gagnrýna notkun mynda ef þeim býður svo við að horfa. Með öðrum orðum, dómarar landsins hafa tekið að sér að vera útlitshönnuðir og í framhaldi af því sérfræðingar í smekklegri uppsetningu blaða. Með löglærðan smekk sinn að vopni og úrelta lagasetningu í farteskinu virðast þeir standa frammi fyrir blöðum nútímans og hamast við að dæma.``

Þess vegna held ég að það sé vilji blaðamanna einnig að löggjafinn hreyfi sig í þessum málum þrátt fyrir alla tortryggnina og ég legg mikla áherslu á þau síðustu orð í greinargerð flutningsmanna að vítt samráð verði haft um þessa hluti ef tillagan nær fram að ganga.