Endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:03:58 (1389)

1995-11-28 18:03:58# 120. lþ. 42.12 fundur 167. mál: #A endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:03]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég held að þær hafi verið gagnlegar og það er spurning hvort það væri ekki skynsamlegt í framhaldi af þessu að tekin verði ákvörðun í málinu. Málið liggur þannig, svo sérkennilegt sem það er, að það eru engin lagaákvæði til um það sem má í þessu sambandi, bara um það sem má ekki. Það eru engin lagaákvæði til um tjáningarfrelsi, engin um prentfrelsi né þá ábyrgð sem því fylgir, engin um málfrelsi í þjóðfélaginu, engin lög sem byggja á 73. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún er núna. Þess vegna er það spurning hvort ekki er kominn tími til þess að það verði til löggjöf sem tekur á þeim hlutum sem við viljum tryggja og hafa opna í þjóðfélaginu og hvort það er ekki besta leiðin til þess að nálgast þau vandamál, sem hv. flm. og fleiri hafa komið inn á, frekar en að bíða alltaf eftir því að dómsmrn. endurskoði meiðyrðalöggjöfina. Satt best að segja er sú bið orðin alveg nógu löng og lítið hefur út úr henni komið. Það er spurning hvort það er ekki miklu nær að fara hinum megin í hlutina, þ.e. að setja hér almenn lög á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hv. síðasti ræðumaður, 1. flm., var að tala um, þ.e. að um yrði að ræða almenna löggjöf af þessu tagi.