Mengun af brennisteinssamböndum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:07:07 (1423)

1995-11-29 14:07:07# 120. lþ. 43.4 fundur 78. mál: #A mengun af brennisteinssamböndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:07]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Austurl. hefur spurt mig tveggja spurninga á þskj. nr. 78 sem hann hefur gert grein fyrir. Fyrri spurningin hljóðar svo:

,,Hvað veldur því að Ísland hefur ekki staðfest bókanir við samninginn frá 1979 um loftmengun sem berst langa leið milli landa, þ.e. er varðar frekari minnkun á losun brennisteins eins og Hollustuvernd ríkisins hefur lagt til?``

Því er að svara að auglýsing um fullgildingu samningsins frá 1979, um loftmengun, sem berst langar leiðir milli landa, birtist 11. maí 1983. Samningurinn er viljayfirlýsing þeirra sem að honum standa um að þeir séu staðráðnir í að verja menn og umhverfi gegn loftmengun með því að leitast við að takmarka, draga úr og koma í veg fyrir loftmengun eftir því sem unnt er.

Til að ná fram markmiðum samningsins hafa verið gerðar við hann sérstakar bókanir um einstök efni. Ísland hefur ekki skipað framkvæmdaraðila fyrir samninginn og hefur ekki sinnt alþjóðasamstarfi í tengslum við hann. Þar sem aðrir alþjóðlegir samningar á sviði umhverfismála hafa verið álitnir mikilvægari fyrir umhverfisvernd og íslenska hagsmuni en þær bókanir sem gerðar hafa verið hingað til hafa íslensk stjórnvöld ekki staðfest þessar bókanir.

Nú er hins vegar rætt um að gera sérstaka bókun við samninginn um takmörkun við losun lífrænna, þrávirkra efna og munu íslensk stjórnvöld, ef af verður, taka virkan þátt í þeirri samningsgerð, enda sinnt því máli sérstaklega á alþjóðlegum vettvangi. Má þar t.d. nefna nýafstaðna svokallaða Washington-ráðstefnu sem íslensk stjórnvöld sinntu.

Á Íslandi er þó rekin ein EMEP-stöð sbr. 9. gr. samningsins en með EMEP er átt við samstarfsáætlun um eftirlit með og mat á tilfærslu loftmengunarvalda langar leiðir í Evrópu. Þessi stöð er við Írafoss þar sem brennisteinsdíoxíð og fleiri efni í úrkomu eru mæld. Veðurstofa Íslands sér um rekstur stöðvarinnar.

Ísland hefur ekki staðfest bókanir við samninginn en eftirfarandi bókanir hafa verið gerðar við hann. Reyndar taldi hv. þm. þær upp áðan en þær eru samkvænt mínum lista:

1. Um fjárhagslegar skuldbindingar.

2. Um takmörkun á losun brennisteinsdíoxíðs.

3. Takmörkun á losun köfnunarefnisoxíða.

4. Takmörkun á losun rotgjarnra, lífrænna efna. Og ég held að hv. þm. hafi nefnt fimmtu bókunina, sem reyndar er ekki á mínum lista, sem hann taldi að hefði verið gerð 1994 um brennisteinsmengun. Vanti eitthvað á þennan lista þarf ég að skoða það nánar, svo svarið sé rétt og ítarlegt.

Hollustuvernd ríkisins hefur ekki lagt til að Ísland staðfesti bókanir við samninginn. Með bréfi dags. 14. febrúar 1994 lýsir stofnunin þeirri skoðun sinni að rétt sé að skoða vandlega þann möguleika að undirrita bókunina um takmörkun á losun brennisteinsdíoxíðs. Enn fremur vekur stofnunin athygli á að Ísland hafi ekki ákveðið framkvæmdaraðila fyrir samninginn, eins og ég reyndar gat um áður, og telur að það þurfi að gerast. Það mál er nú í athugun í ráðuneytinu.

Efni sem þessar bókanir fjalla um hafa til þessa ekki verið talin skapa teljandi umhverfisvandamál hér á landi eftir því sem rannsóknir sýna. Eins og ég hef áður sagt hefur Ísland látið aðra samninga á sviði umhverfismála hafa forgang þar sem þeir eru taldir skipta meira máli. Má þar sem dæmi nefna Vínarsamninginn um verndun ósonlagsins og Montreal-bókunina við hann um ósoneyðandi efni sem og aðra samninga sem snerta sérstaklega mengun sjávar. Þeir fjármunir sem stjórnvöld hafa til að framkvæma alþjóðasamninga eru takmarkaðir og því nauðsynlegt að forgangsraða málum á því sviði sem við teljum að séu mikilvægust fyrir okkur og okkar hagsmuni.

Seinni spurning hv. þm. hljóðar svo: ,,Hvenær hyggst ríkisstjórnin undirrita þessar bókanir?``

Því er til að svara að það hefur ekki verið á dagskrá að staðfesta bókanirnar við samninginn heldur að tilnefna framkvæmdaraðila sem hlýtur að vera eðlilegur undanfari fullrar þátttöku í samningnum, verði hún talin nauðsynleg, eins og reyndar kom fram í svari mínu við fyrri lið fyrirspurnarinnar. Og að lokum, hæstv. forseti, er rétt að vekja athygli á að Ísland hefur staðfest tilskipun ESB um rokgjörn lífræn efni, svokallað VOC 1 sem að verulegu leyti byggir á bókun við samninginn og áður er nefnd.