Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:27:46 (1428)

1995-11-29 14:27:46# 120. lþ. 43.5 fundur 170. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:27]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er góðra gjalda vert að ýta á eftir lagabreytingum til þess að tryggja þann grunn sem er undir aðgerðum á þessu sviði. En eins og hæstv. ráðherra kom að hefur ráðuneytið lagt inn sitt orð í þessu efni og ég hélt satt að segja að þetta væri úr sögunni. Það kom fram í svari að um eitt dæmi hafi verið að ræða og það er auðvitað of mikið.

Ég vil koma að einu atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í sínu svari og það var að þetta mál væri ekki á hans valdsviði heldur undir Hollustuvernd ríkisins sem er stofnun undir umhvrn. Ég er satt að segja dálítið undrandi á því ef hæstv. ráðherra telur ekki að hann hafi íhlutunarrétt ef svo vill við bera, ef hann vill nota hann gagnvart stofnun sem er undir ráðuneyti hans.

Að öðru leyti hvet ég aðeins til þess og tek undir með fyrirspyrjanda að allt verði gert til þess að koma umgengni okkar við hafið, bæði varðandi mengun í sjó og eins varðandi hafsbotninn í annað og betra horf. Það er spurning hvort ekki þarf að taka miklu fastar á en gert hefur verið af okkar hálfu, einnig að því er varðar beitingu veiðarfæra.