Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:31:44 (1430)

1995-11-29 14:31:44# 120. lþ. 43.5 fundur 170. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:31]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins út af athugasemd hv. 4. þm. Austurl. um ákvæði laganna hvað varðar valdsvið. Eins og fram kom í svari mínu er það svo að í lögunum er heimildin um að veita undanþágur veitt þessari stofnun, áður Siglingamálastofnun ríkisins en nú Hollustuvernd ríkisins. Það er rétt að Hollustuvernd ríkisins heyrir auðvitað undir umhvrn. og þar með umhvrh. svo að sjálfsagt er það rétt að ábyrgðin falli þar undir. Hitt er svo líka spurning sem er til umhugsunar hver íhlutunarréttur eða afskipti ráðherra á að vera beint í málum. Auðvitað verður að skoða þau fyrst og fremst faglega eins og þau efni sem við fjöllum um hér og það er Hollustuverndar ríkisins að gæta þess að farið sé til hins ýtrasta eftir því sem lögin kveða á um. Auðvitað geta komið upp álitamál sem ráðuneyti og þar með ráðherra þarf að kveða upp úr um.

Ég held að það sé líka ljóst samkvæmt því sem kom fram í svari mínu áðan að umtalsverð breyting hefur orðið á því hvernig menn hafa staðið að förgun skipa. Á árunum 1980--1990 var svo og svo mörgum skipum sökkt, bæði stálskipum og tréskipum en það hefur ekki verið gert síðan nema það sé fyrir slysni og vonandi að það sé ekki af ásettu ráði. Það er ekki líðandi ef menn eru að fara á bak við lögin. Hitt kann svo að vera rétt sem fyrirspyrjandi, hv. 7. þm. Reykv., nefndi í lok máls síns að við búum að einhverju leyti við óleyst vandamál hvað þetta varðar. Gömul, ónýt og úrelt skip liggja víða í höfnum og við eigum eftir að leysa málið. Það má ekki sökkva þeim en við höfum ekki fundið þá leið að nýta þau á þann skynsamlegasta hátt sem hægt er eða koma þeim fyrir á annan þann hátt sem væri ásættanlegt. Það er mál sem viðkomandi yfirvöld þurfa að horfast í augu við, þeir sem eiga skipin, eftir atvikum sveitarstjórnir ef þau eru komin á einhvern hátt á yfirráðasvæði þeirra, og svo auðvitað Hollustuvernd og umhvrn. og er sjálfsagt að taka þátt í þeirri umræðu.