Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 12:08:34 (1532)

1995-11-30 12:08:34# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[12:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason kom og ræddi um nefnd, svokallaða sjö manna nefnd eða ígildi hennar sem hæstv. landbrh. sagði í ræðu sinni í nótt að hann mundi skipa til endurskoðunar á lögum og samningum um landbúnaðinn og til að sjá inn í framtíð í þessum málaflokki. Ég fagnaði því áðan og geri enn að landbrh. skuli ætla að leggja af stað með nýja nefnd. Þessi nefnd sem var svokölluð sjö manna nefnd verður náttúrlega ekki endurreist í þeirri mynd sem hún var en hæstv. landbrh. svarar því. En ég tel það mjög mikilsvert skref af hálfu ráðherrans að teygja sig í áttina til aðila vinnumarkaðarins og aðila neytenda vonandi, því að án samkomulags og trúnaðar við launþega og neytendur verður ekki rekin nein skynsamleg stefna í þessum efnum. Þetta er mjög mikilvægt atriði og í mínum huga eitt af því stærsta sem hefur verið sagt í umræðunni þannig að ég fagna þessu sérstalega.

Varðandi það að ríkisvaldið geti gert samninga sem fjárlagavaldið samþykkir ekki, ég vona að hæstv. landbrh. svari því líka, þá er að sjálfsögðu mikill munur á löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið getur gert samninga sem löggjafarvaldið samþykkir alls ekki og í þessu tilfelli er um að ræða útgjöld samningsins og sem er ekki verðtryggður af hálfu löggjafarvaldsins þó að hann sé vísitölutryggður af hálfu framkvæmdarvaldsins. Löggjafarvaldið þarf vegna þess að þetta ákvæði var tekið út að samþykkja á hverju einasta ári þessar verðtryggingar og ríkisstjórnin verður að biðja um það. Þeir geta reynt að hafa þetta með einhverju móti, en þetta er staðreynd málsins.