Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 12:19:30 (1540)

1995-11-30 12:19:30# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[12:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir allt sem hv. þm. Stefán Guðmundsson segir um markaðsmál á landbúnaðarafurðum. Að sjálfsögðu er innanlandsmarkaðurinn það sem skiptir öllu máli fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar. Ég vona sannarlega að sú nýja nefnd sem hæstv. ráðherra ætlar að skipa muni taka á þessum málum, hvernig verði hægt að styrkja innanlandsmarkaðinn þannig að bændur haldi markaðshlutdeild sinni hér heima og gott betur. Þeir þurfa svo sannarlega á því að halda. Ég er heils hugar sammála og vona að við eigum eftir að sjá það á þessu samningstímabili að staða bænda á markaðnum batni og við getum með aðgerðum lækkað sláturkostnaðinn sem ég hef talið vera eina mestu meinsemdina í allri verðlagningunni, ekki vegna þess að þetta sé illa gert af hálfu sláturleyfishafa heldur er allt of mikill kostnaður sem hleðst utan á verðið. Það kostar eftir því sem mér er sagt yfir 150 kr. á kg að slátra einni á eða einu lambi. Allir sjá að meðan hægt er að fara út í verslun og kaupa sér pasta fyrir 150 kr. og láta það duga fyrir tveggja manna fjölskyldu kaupa menn frekar pasta en lambakjöt fyrir 400--500 kr.