Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 16:41:04 (1578)

1995-12-04 16:41:04# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[16:41]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að rifja það upp fyrir hv. þm. að Alþfl. hefur aldrei farið með stjórn landbúnaðarmála (Gripið fram í: Jú.) nema í minnihlutastjórn Benedikts Gröndals sem var starfsstjórn og sat stuttan tíma. Alþfl. hefur aldrei farið með stjórn landbúnaðarmála. Það hafa gert ráðherrar á vegum Framsfl., Sjálfstfl. og Alþb.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að Alþfl. hefur ekki orðið allt of mikið ágengt í að koma fram tillögum sínum og hugmyndum um umbætur í stjórn landbúnaðarmála en engu að síður hefur nú þokast.

Um gamla búvörusamninginn sem Alþfl. lýsti sig að vísu andvígan má segja að hann gerði einn hlut sem var sá að hann hefur leitt til meiri sparnaðar í ríkisútgjöldum en nokkur önnur einstök aðgerð í landbúnaðarmálum. Annað er að með gerð GATT-samkomulagsins tókst að hnekkja útflutningsbótakerfinu sem landbúnaðarráðherrar á liðinni tíð hafa sótt 48 þús. millj. íslenskra króna í á undanförnum árum. Það er kannski mesta þrifaaðgerðin.

Í þriðja lagi tókst að frumkvæði utanríkisviðskiptaráðherra Alþfl., að ná samningum, fyrst og fremst GATT-samningunum sem a.m.k. að forminu til þýða að núverandi landbúnaðarkerfi, ríkisforsjárkerfi er komið að útgönguversunum. Að vísu geta fulltrúar tregðulögmálsins tafið framkvæmdina og spillt framkvæmdinni innan lands um hríð, en undanhaldið er hafið og það verður ekki aftur snúið. Þetta kerfi er ekki aðeins komið að útgönguversinu, það er raunverulega komið á knén. Aðeins á eftir að fá góðan sálusorgara til að kasta á það rekunum.