Framleiðsla og sala á búvörum

Mánudaginn 04. desember 1995, kl. 17:27:19 (1589)

1995-12-04 17:27:19# 120. lþ. 51.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur


[17:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gerði grein fyrir því áðan að það hefur þegar verið óskað eftir áframhaldandi viðræðum. Þar er að vísu um kúabændur að ræða, en ljóst er að það eru ekki landssamböndin eða sambönd einstakra búgreina sem sitja við samningaborðið, heldur eru það Bændasamtökin sem slík. Í þeim samningi sem við erum að fjalla um núna hefur fyrst og fremst verið fjallað um sauðfjárræktina og í væntanlegum viðræðum verður kannski fremur rætt um málefni kúabænda. Ég held samt að það sé alveg ljóst að ef að því samningaborði koma í viðbót fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, eins og kúabændur hafa óskað eftir, muni þar frekar verða rætt um málefni greinarinnar í heild og almenna stefnumörkun. Enda er ástandið með nokkrum öðrum hætti varðandi viðræður við kúabændur en viðræður við sauðfjárbændur. Í sumar stóðum við frammi fyrir því að takast á við þann mikla vanda sem kominn var upp í sauðfjárræktinni og reyna að leysa hann fljótt. Það sama á ekki við um kúabændurnar. Þótt ástandið þar sé að vísu ekkert til að hrópa húrra fyrir, er það með allt öðrum hætti og þess vegna gefst meiri tími til almennrar umræðu um stöðu atvinnugreinarinnar og stefnumótun til lengri tíma.

Varðandi eftirlitsmálin er það auðvitað svo að þar eru það fyrst og fremst forðagæslumenn sem hafa það hlutverk að fylgjast með ástandinu. Mér er ljóst að þeirra hlutverk er ekki alltaf auðvelt. Einnig mætti hugsa sér að aðrir opinberir embættismenn í landbúnaðinum, t.d. hérðasdýralæknar, kæmu einnig að einhverju leyti að þessu eftirlit. En það er ekki fullrætt og verður rætt nánar við Bændasamtök Íslands um það hvernig að þessum eftirlitsþætti verði staðið þannig að hann geti talist ásættanlegur.