Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 14:05:38 (1594)

1995-12-05 14:05:38# 120. lþ. 52.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., RA (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur


[14:05]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Sá búvörusamningur sem hér er til afgreiðslu er afar ófullnægjandi og gallaður í mörgum greinum og í hann vantar margt sem þar þyrfti að vera. Ég undrast að ekki skuli tryggðar fullar efndir af hálfu ríkisvaldsins á vilyrðum núverandi búvörusamnings. Efndir á ákvæðum fyrri samnings um 400 millj. kr. til atvinnuuppbyggingar í sveitum og um 2 milljarða til Skógræktar og Landgræðslu gætu auðveldað mörgum bændum að hætta sauðfjárframleiðslu og þannig skapað aukið svigrúm fyrir þá sem halda áfram í þessum búskap. Ég minni á að bændur hafa greitt hundruð millj. kr. í tryggingagjöld en eiga þó ekki eðlilegan aðgang að Atvinnuleysistryggingasjóði. Þessu þyrfti tvímælalaust að koma í lag í tengslum við þennan samnings.

Loks vil ég minna á umhverfisþátt málsins. Það er fyrir löngu tímabært að sauðfjárrækt sé lögð niður af þeim svæðum þar sem hún hentar síður af umhverfisástæðum eða vegna annarra ytri skilyrða, t.d. á Reykjanesi og almennt á því svæði sem nefnt er landnám Ingólfs, en það gæfi bændum á svæðum sem háð eru sauðfjárrækt aukið svigrúm. Það segja ekki aðrir já við að vísa þessu máli til 3. umr. en þeir sem eru innilega sammála því. Ég sit hjá.