Afgreiðsla mála

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 14:38:45 (1597)

1995-12-05 14:38:45# 120. lþ. 53.92 fundur 126#B afgreiðsla mála# (aths. um störf þingsins), RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[14:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að taka undir orð hv. 14. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, og það kemur mér mjög á óvart að heyra þá túlkun sem hér kemur fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds vegna þess að ég hef litið svo á að þegar við erum að vísa málum til nefndar og milli umræðna, þá séum við að stuðla að þeirri lýðræðislegu umfjöllun sem ákveðið hefur verið að viðhafa í þessari stofnun og að fjalla skuli um mál við þrjár umræður. Það furðar mig að þessi afstaða komi fram, sérstaklega þar sem flokkurinn sem sat hjá við að vísa málinu til 3. umr. greiddi síðan atkvæði með því að taka það með afbrigðum á dagskrá. Þá hljótum við að fara að velta því fyrir okkur hvort það að hafa skoðun á því hvort mál eigi að halda áfram milli 1. og 2. umr., milli 2. og 3. umr. og taka mál með afbrigðum á dagskrá, hvort í því felist efnisleg afstaða til mála. Ef þetta er túlkun eins af forsetum þingsins, þá held ég að það sé mjög tímabært að forsetar og formenn þingflokka skoði það hver túlkun þingskapa sé á þessu ákvæði.