Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 13:38:37 (1679)

1995-12-07 13:38:37# 120. lþ. 57.2 fundur 207. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (fasteignaskattur, þjónustuframlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[13:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna og vil biðja velvirðingar á því að frumvarpið skyldi ekki vera fyrr fram komið. Að sumu leyti get ég sjálfum mér um kennt en þannig háttaði til að hér eru hengd saman í eitt frumvarp tvö atriði sem komin eru hvort frá sinni nefndinni. Tillögurnar um jöfnunarsjóðinn eða það sem að honum snýr voru tilbúnar fyrir löngu og það frumvarp hefði jafnvel verið hægt að leggja fram á vorþingi. Hins vegar var nefndin sem fór yfir breytingarnar á hinu atriði frumvarpsins, þ.e. breikkun fasteignaskattsstofnins, ekki búin að ljúka störfum fyrr en í haust. En þar sem það var í farvatninu, fannst mér eðlilegra að hengja þetta saman í eitt frumvarp og ég vona að þingmenn hafi skilning á því.

Síðan stóð fyrir dyrum fjármálaráðstefna sveitarfélaga og í sambandi við hana var efni jöfnunarsjóðskaflans kynnt sérstaklega fyrir sveitarstjórnarmönnum. Það fannst mér eðlilegt að gera og heyra viðbrögð sveitarstjórnarmanna ef það væri ekki almenn samstaða um þetta í kjölfarið á fjármálaráðstefnunni. Síðan leið fjármálaráðstefnan og þessum hugmyndum var þar vel tekið. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði að ganga frá frumvarpi. Það hlaut samþykki í ríkisstjórn, var sent til þingflokka og afgreitt þar, en fyrir mistök eða óheppni skulum við segja og töf um prentun að lokum, náðist ekki að afgreiða það. Þess vegna er það svo síðbúið.

Ég tek alveg undir það að ekki er vansalaust að leggja svo seint fram frumvarp sem þarf að afgreiðast helst fyrir áramót ef hv. félmn. treystir sér til með svona stuttum fyrirvara. Úr þessum ræðustól hef ég flutt fjöldamargar ræður áþekkar þeim sem voru fluttar í morgun þegar ég hef verið í stjórnarandstöðu og slíkar ræður hef ég líka flutt í þingflokki framsóknarmanna þegar við höfum verið stjórnarmegin og átalið ráðherra um seinagang í frumvarpasmíð. Nóg um það.

Ég vil taka það fram vegna orða hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, að ég ber mjög mikla virðingu fyrir Alþingi og störfum þess. Ég hef langa þingreynslu. Ég er búinn að vera hér í meir en tvo áratugi innanbúðarmaður og veit hvernig störf fara fram og ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi alls ekki að vera nein afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Nóg um það.

Hv. þm. Kristinn Gunnarsson spurði hvenær bráðabirgðaákvæðið félli úr gildi. Það sést glögglega ef hann hefði lesið alla leið aftur í 7. gr. en þar segir svo:

,,Bráðabirgðaákvæði þetta gildir þangað til álagningu árið 1999 á grundvelli ákvæðisins er lokið.``

Það eru engin tvímæli um það að þá er þetta bráðabirgðaákvæði fallið dautt. Hitt er svo annað mál að þetta bráðabirgðaákvæði var í eðli sínu kúnstugt og ekki lagatæknilega neitt sérstaklega vel heppnað. Ég var ekki í félmn. þegar það var sett inn á sínum tíma og ber ekki persónulega neina sérstaka ábyrgð á því. Sjálfsagt hef ég greitt því atkvæði í þingsölum. Þetta bráðabirgðaákvæði var ekki í upphaflegu frumvarpi og ég hef kannað það að það mun hafa komið inn í meðförum hv. félmn. á sínum tíma.

Varðandi óskýrar skilgreiningar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um, þá er unnið að reglugerð við þessi lög og hún verður að sjálfsðgðu kynnt hv. félmn. Þar er tekið á hinum smærri atriðum og skilgreint nánar það sem fær stoð í lögunum. Ég tel það bara einboðið að hv. félmn. fái þessi reglugerðardrög til athugunar og samanburðar og menn eigi ekkert að velkjast í vafa um hvað í málinu felst. Jafnframt er nákvæmari upptalning í jöfnunarsjóðskafla þessa frumvarps en er í núgildandi jöfnunarsjóðslögum.

Hv. þm., sem mér þykir slæmt að skuli ekki vera í salnum, hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, var líka að velta því fyrir sér hvort við ættum yfirleitt að hafa jöfnunarsjóð. Ég tel að við komumst ekki hjá því að hafa jöfnunarsjóð og væri tilbúinn að fara í langa ,,diskússjón`` við hv. þm. út af því. Jöfnunarsjóður hefur verið mjög mikilvægur vegna þess að sveitarfélögin í landinu eru ákaflega mismunandi. Þau eru misstór og þau hafa misjafna tekjumöguleika og misjafna aðstöðu á margan hátt. Og það er algerlega óhjákvæmilegt að hafa þarna jöfnun á. Nú er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, eins og ég, mjög á því að sameina ekki sveitarfélög með valdboði, að það sé val íbúanna sjálfra hvort þeir sameinast öðrum sveitarfélögum eða ekki. Þar af leiðir að við komum enn um sinn til með að búa við misstór sveitarfélög og missterk í landinu. Það eykur enn á þörfina fyrir jöfnunarsjóði. Síðast en ekki síst eykst hún svo greinilega mjög við yfirtöku sveitarfélaganna á grunnskólanum.

Um skattheimtuna, þ.e. breikkun á fasteignaskattstofninum, er það að segja að þarna er verið að fella niður skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem hefur satt að segja lengi verið umdeildur í þingsölum. Þessa skattheimtu hafa menn aldrei treyst sér til að setja á nema frá ári til árs og ég held að kannski sé ekki mikil eftirsjón af henni. Hæstv. fjmrh. hefur ýmist talað fyrir þessum skatti eða á móti honum. Ég hef oftar talað með honum en á móti, en sé ekkert eftir því að þessi skattheimta falli niður og annað komi í staðinn. Sveitarfélögin urðu að fá tekjur í staðinn fyrir afnám aðstöðugjalds sem við vorum sammála um á sínum tíma að afnema eða a.m.k. naut það mikils stuðnings í þinginu. En herra forseti, ég vil láta þess getið að mér finnst eftir á að hyggja að aðstöðugjaldið hafi haft vissa kosti sem eftirsjón er að. T.d. örvaði það sveitarfélögin til þess að laða til sín atvinnustarfsemi.

[13:45]

Ég vænti þess að hv. félmn. fái þetta frv. til meðferðar. Ég er svo sem ekki að segja henni fyrir verkum, fjarri því, en ég bið hana að líta á málið með velvild. Ég bið velvirðingar á því hvað það er seint fram komið, en bendi á það sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur lagt ríka áherslu á og fulltrúar þess koma til með að leggja áherslu á þegar frv. verður til meðferðar í félmn. að það er hagsmunamál sveitarfélaganna að fá botn í málið fyrir áramót þótt það sé hins vegar hárrétt hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að betra hefði verið fyrir þau að geta gengið að þessu vísu og lögfestu við gerð fjárhagsáætlana eða frá upphafi fjárhagsáætlunarvinnunnar. En ég hygg samt að forráðamenn sveitarfélaga hafi flestir vitað að þetta var í farvatninu.