Raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 14:34:25 (1866)

1995-12-13 14:34:25# 120. lþ. 63.1 fundur 141. mál: #A raforkuframleiðsla Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjunar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur


[14:34]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Mathiesen spyr í fyrsta lagi: ,,Hversu mikið geta orkufyrirtækin Hitaveita Suðurnesja og Landsvirkjun aukið raforkuframleiðslu sína til þess að mæta aukinni orkuþörf vegna stækkunar álversins í Straumsvík án þess að byggja nýtt stórt vatnsaflsorkuver?``

Hitaveita Suðurnesja getur aukið raforkuvinnslu sína nú þegar um 20 gwst. á ári án nokkurra nýrra fjárfestinga. Aukinn rekstrarkostnaður væri sáralítill ef nokkur við þessa viðbótaraukningu.

Til þess að mæta aukinni orkuþörf vegna stækkunar Ísals þarf Landsvirkjun að ráðast í eftirfarandi aðgerðir:

1. Hækka Blöndustíflu sem mun auka orkugetu raforkukerfisins um 165 gwst. á ári.

2. Fara þarf í fimmta áfanga Kvíslaveitu sem felur í sér að veita vatni úr austustu kvíslum Þjórsár um Kvíslaveitu til Þórisvatns. Samhliða er gert ráð fyrir að skipt verði um vatnshjól í Búrfellsstöð og afl hennar aukið þannig um 35 megavött. Orkuvinnslugeta kerfisins mun aukast um 375 gwst. á ári við þessar aðgerðir á Þjórsársvæðinu. Samkvæmt þessu þarf því ekki að byggja nýtt, stórt vatnsorkuver til þess að anna orkuþörf vegna stækkunar álversins í Straumsvík.

Hv. þm. spyr í öðru lagi: ,,Hversu langan tíma tekur að auka raforkuframleiðsluna?``

Eins og áður kom fram getur Hitaveita Suðurnesja aukið raforkuframleiðslu sína nú þegar um 20 gwst. á ári. Varðandi framkvæmdir Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að framkvæmdum við hækkun Blöndustíflu ljúki haustið 1996, við fimmta áfanga Kvíslaveitu 1997 og að búið verði að skipta um vatnshjól í Búrfellsstöð í ársbyrjun 1998.

Hv. þm. spyr í þriðja lagi: ,,Hver yrði kostnaðurinn á orkueiningu?``

Kostnaður við að auka raforkuframleiðslu Hitaveitu Suðurnesja um 20 gwst. á ári er óverulegur ef nokkur.

Eins og komið hefur fram við umræðu um frv. til laga um lagagildi viðaukasamnings um Ísal vegna stækkunar álversins í Straumsvík hefur stjórn Landsvirkjunar ályktað að það geti verið til þess fallið að veikja samningsstöðu fyrirtækisins að viðsemjendur þess hafi aðgang að orkuverðsákvæðum áður gerðs rammasamnings og samþykkti stjórnin að viðskiptaleynd skyldi ríkja um orkuverðið. Með vísun til þessarar samþykktar hafa forráðamenn Landsvirkjunar óskað eftir að ekki verði greint frá kostnaði á orkueiningu við áðurnefndar framkvæmdir Landsvirkjunar. Ég vek athygli á að Landsvirkjun hefur kynnt orkuverðssamninginn og fyrirhugaðar framkvæmdir til að mæta orkuþörf vegna stækkunar álversins á fundi með iðnn.