Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. desember 1995, kl. 16:25:32 (1890)

1995-12-13 16:25:32# 120. lþ. 64.8 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv., 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur


[16:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þessar ágætu umræður. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að menn séu ekki sammála því að þetta gjald sé lagt á. Það er gamalkunn deila hér á hinu háa Alþingi og ég get tekið þátt í henni og stofnað til umræðna um það mál. En ég ætla ekki að gera það. Röksemdirnar sem fram hafa komið með og á móti þessum gjöldum hafa verið skýrðar hér í umræðunum. Ég sjálfur hallast að því að það sé rétt að leggja á slík gjöld. Ég sé ekkert athugavert við þá meginstefnu að menn greiði gjöld eins og þessi vegna setu sinnar í Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri frekar en ýmsum öðrum skólum.

Varðandi það hvernig gjaldið er reiknað þá kemur það fram í greinargerðinni að þar er tilgreint hvaða verkefni það eru sem háskólinn lítur á og segir þar, með leyfi virðulegs forseta:

,,Skrásetningargjaldið er bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og stendur undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar má sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans.``

Þarna er skilgreint hvað felst í þessu hvað það er sem er greitt af rekstrarkostnaði háskólans fyrir þetta fé. Síðan segir:

,,Grunngjaldið, sem miðað er við í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, 24.000 kr., er framreiknuð sú upphæð sem háskólinn innheimti fyrir háskólaárið 1992--93. Upphæð gjaldsins mun síðan koma til árlegrar endurskoðunar við setningu fjárlaga.``

Ég tel að gjaldið sé nú 24.000 kr., sama og það var á síðasta ári þannig að þarna er ekki um breytingu á fjárhæðinni að ræða. Það var hugmyndin hjá háskólanum eins og kemur fram í greinargerðinni þá breytti menntmrn. því ákvæði í tillögu háskólans að hafa þarna vísitölutengingu en það var horfið frá því miðað við þá meginstefnumörkun ríkisstjórnarinnar að slíkar tengingar séu ekki lengur eðlilegar í lögum og þess vegna stendur þarna að upphæð gjaldsins komi síðan til árlegrar endurskoðunar við setningu fjárlaga. Þannig er gjaldið fundið. Það eru sem sagt þessi efnisatriði sem tíunduð eru í greinargerðinni síðan er þetta framreiknuð fjárhæðin frá 1992--1993 sem vikið var að í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur.

Varðandi það sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spurði um þá er það að segja að í frv. er gert ráð fyrir að innriti menn sig ekki á innritunartíma þá eigi þeir að greiða 15% álag á skrásetningargjaldið. Varðandi það hvort menn geti borgað hálft gjald eða annað slíkt þá eru ekki heimildir um það í þessu lagafrv. eins og hér kemur fram. Það eru engar undantekningar frá því að menn greiði við skrásetningu til náms skrásetningargjald sem er 24.000 kr. Þannig að ég veit ekki heldur hvað er hálft nám í háskólanum og á erfitt með að átta mig á því hvernig menn ætla að skilgreina (Gripið fram í: Missiri.) slíka hluti. Það er ekki mælt fyrir um slíkar heimildir í þessu frv., það sést á texta þess.

[16:30]

Varðandi spurninguna um skrásetningargjöld og skólagjöld. Það kom fram í máli Guðnýjar Guðbjörnsdóttur að hún gerði greinarmun, réttilega, á skrásetningargjaldi annars vegar og skólagjöldum hins vegar. Mér finnst mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga þegar þeir ræða þessa gjaldtöku að þarna er ekki um skólagjöld að ræða heldur skrásetningargjald því skólagjald er hugtak sem menn nota um það þegar menn borga hluta af námskostnaði sínum með gjaldi sem kallað er skólagjald. Þannig er það í Endurmenntunarstofnun háskólans. Þar eru greidd skólagjöld því þar greiða menn kostnað af náminu. Það sama er að segja um öldungadeildir framhaldsskólanna. Þar er um skólagjöld að ræða þar sem má innheimta allt að þriðjungi kostnaðar við kennsluna af nemendum. Þetta er ekki skólagjald, heldur er þetta skrásetningargjald. Ef menn ætla út í innheimtu af skólagjöldum þá er verið að stíga annað skref heldur en gert er með þessum frv. og það er mál sem víða er rætt en ekki tillaga gerð um í þessum frv. Hér er um það að ræða að staðfesta heimildina til þess að innheimta skrásetningargjöldin.

Hv. þm. Svavar Gestsson taldi að álit umboðsmanns væri högg í höfuð stjórnvalda. Hvaða orð sem menn nota um það þá er það svo og það er hluti af okkar stjórnkerfi að unnt er að skjóta málum, álitaefnum, til umboðsmanns Alþingis og hann segir sitt álit á þeim. Það er misjafnt hvernig menn bregðast við slíkum álitum. Við getum farið í gegnum söguna hér og rifjað upp hvernig ráðherrar hafa brugðist við álitum umboðsmanns Alþingis. Sumir hafa brugðist við á þann veg að segja að álitin séu aðeins álit. Hann segi ekki annað en sína skoðun og hún eigi ekki að ráða afstöðu stjórnvalda. Þau geti farið sínu fram í sjálfu sér án tillits til álits umboðsmanns. Ég taldi hins vegar rétt í þessu tilviki og tel almennt og er þeirrar skoðunar að það séu eðlilegir stjórnsýsluhættir að stjórnvöld taki tillit til álits umboðsmanns, bregðist við með þeim hætti sem skynsamlegt er þegar slík álit liggja fyrir og í þessu tilviki var nauðsynlegt að mínu mati að snúa sér til Háskóla Íslands eins og ég gerði í bréfi til háskólaráðs og fara þess á leit við háskólann að hann gerði tillögu um það hvernig hann teldi best að því staðið að eyða þeirri óvissu sem skapaðist eftir að álit umboðsmanns kom fram. Í framhaldi af þeirri tillögu, sem ég fékk frá háskólaráði, og samþykkt var 24. ágúst 1995, var farið í það að smíða þetta frv. og sömuleiðis frv. um Háskólann á Akureyri.

Varðandi þær spurningar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson varpaði fram þá spurði hann annars vegar: Hvernig er gjaldið ákveðið? Ég tel mig hafa svarað því með vísan í grg. þar sem eru tíunduð rök Háskóla Íslands fyrir því hvað á bak við gjaldið er. Hver er afstaða stúdentaráðs Háskóla Íslands? spurði hv. þm. Í stuttu máli sagt, þá hefðu þau drög að samningi sem liggja fyrir og birtast sem fylgiskjal með frv. að sjálfsögðu ekki komið fram nema af því að þar er um drög að ræða sem unnin eru af háskólaráði eða yfirvöldum háskólans annars vegar og stúdentaráði Háskóla Íslands hins vegar og hef ég ekki orðið var við annað en að stúdentaráð sé í sjálfu sér sátt við þessa málsmeðferð. Ég taldi og er þeirrar skoðunar að það hafi verið nauðsynlegt í umræðum um þetta mál að taka af skarið varðandi stöðu stúdentaráðs Háskóla Íslands, að svara spurningum um skylduaðild sem hafa komið upp og tel ég að eins og þeim spurningum hefur verið svarað sé tekinn af allur vafi um afstöðu menntmrn. í því efni. Ráðuneytið telur að það beri að tryggja stjórnarskrárverndaðan rétt manna til þess að standa utan félaga í háskólanum eins og annars staðar og í grg. segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Framlag háskólans til stúdentaráðs er grundvallað á sömu rökum og undanfarna áratugi. Stúdentar skulu hafa umsjón með nauðsynlegri starfsemi í háskólasamfélaginu og lýðræðislega kjörið stúdentaráð er ákjósanleg leið til að gera það markmið að veruleika. Ekki er um það að ræða að með þessu innheimti háskólinn félagsgjöld stúdentaráðs af stúdentum, heldur ráðstafar hann hluta sértekna sinna til starfsemi þeirra samkvæmt samningi við stúdentaráð.``

Samningurinn er tvíhliða. Vilji stúdentaráð ekki gera slíkan samning við háskólaráð finnst mér að það geti komið til álita að lækka þessa fjárhæð um 10% þannig að þá lækki þessi gjöld sem munar því að stúdentaráð taki ekki að sér þau verkefni sem þarna er um að ræða. En það finnst mér vera álitaefni sem ástæðulaust er að velta fyrir sér hér og nú en þannig væri hægt að taka á málum ef menn teldu að stúdentaráð gæti sinnt þessum verkefnum án slíks samnings við háskólaráð.

Ég vil einnig vekja athygli á því að af hálfu stúdentaráðs Háskóla Íslands var núna 1. des. staðið að því að stofna Hollvinasamtök Háskóla Íslands sem ég tel að sé mikið og þarft verkefni, að slík samtök starfi, og við sem höfum stundað nám í Háskóla Íslands og aðrir sem hafa áhuga á að styrkja starfsemi hans, geti lagt sitt af mörkum með þátttöku í þessum Hollvinasamtökum og greitt þar gjald eins og reglur Hollvinasamtakanna gera ráð fyrir. Í sjálfu sér finnst mér að þegar menn af hálfu stúdenta standa fyrir því að stofna samtök þeirra sem eru utan skólans, Hollvinasamtök við skólann, sem byggjast á því að menn vilji láta í ljósi stuðning við skólann með sérstökum framlögum, að þá liggi líka í því viðurkenning á því að þeir sem við skólann eða innan hans starfa og stunda þar nám, að það sé ekkert óeðlilegt við það að þeir inni einnig gjald af hendi til skólans til að styrkja hann auk þess sem hér hefur komið fram frá kennara við skólann að þessi skipan hefur stuðlað að auknu skipulagi við innra starf skólans sem að sjálfsögðu ber ekki að vanmeta. Að sjálfsögðu má deila um það hvað þessar fjárhæðir eigi að vera háar og við getum metið það. Skólagjöld eða skrásetningargjöld í skólum eru mismunandi há. Miklu hærri sum heldur en hér er um að ræða. Menn verða seint sammála um fjárhæðir en hér er, herra forseti, ítrekað verið að leggja lagalegan grunn að því að þessi skrásetningargjöld séu innheimt