Vatnalög

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 19:20:00 (2047)

1995-12-15 19:20:00# 120. lþ. 67.3 fundur 234. mál: #A vatnalög# (holræsagjald) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur


[19:20]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Til þess að þingmenn átti sig á því hvaða mál er hér á ferð þá afgreiddi hv. félmn. með hraði lítið og gott frv. sem gengur út á það að sveitarstjórnir fái heimildir í lögum til þess að lækka eða fella niður holræsagjald sem tekjulitlum elli- eða örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Þessi lagabreyting er til samræmis við þau lög sem gilda um fasteignagjöld og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur þessari heimild víða verið beitt þó ekki hafi verið fyrir henni lagastoð en borgarráð Reykjavíkur beindi þeim tilmælum til hæstv. félmrh. að leggja fram þá lagabreytingu sem hér er til umræðu.

En þeir aðrir aðilar sem hugsanlega treysta sér ekki til að greiða þessi gjöld, þeir sem eru svo illa staddir að geta ekki greitt þessi gjöld og teljast hvorki til ellilífeyrisþega né örorkulífeyrisþega, geta leitað sér aðstoðar félagsmálastofnana sem þá taka á þessum málum. Upplýsingar um þessa meðferð mála fékk ég hjá Þórði Skúlasyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og ef menn vilja ganga í þessum breytingum þurfum við tíma til þess að skoða þau mál betur. Nú stöndum við frammi fyrir því að sveitarfélögin í landinu eru að vinna sínar fjárhagsáætlanir og það liggur á því að fá þessa breytingu. Ég er hins vegar reiðubúin til þess, og áreiðanlega öll félmn., að skoða þessi mál nánar síðar og þá í samhengi við önnur gjöld sem fólki er gert að greiða til sveitarfélaganna.