Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 18. desember 1995, kl. 17:13:43 (2138)

1995-12-18 17:13:43# 120. lþ. 70.1 fundur 221. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur


[17:13]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð um þetta mál. Mér sýnist að allar þær tillögur sem hv. allshn. leggur til til breytinga á frv. séu mjög til bóta og þar hefur m.a. verið tekið mið af þeim umræðum sem áttu sér stað bæði í hv. félmn. og umhvn. Ég vil þó halda til haga nokkrum athugasemdum sem komu fram með þeim tilmælum að sú nefnd sem mun vinna að endurskoðun þessara laga skoði vel þær athugasemdir sem hér koma fram.

Ég vil upplýsa það, eins og reyndar fram kemur í umsögn félmn., að þar urðu mjög miklar umæður um þetta frv. Þar er skemmst frá að segja að skoðanir voru mjög skiptar, þótt varla verði mikið um ágreining við afgreiðslu þessa máls. Þetta mál er ákaflega vandmeðfarið, menn eru að reyna að vega og meta hvað rétt sé að gera við aðstæður eins og þessar. Menn voru í fyrsta lagi að ræða um samráð við heimamenn sem hv. allshn. hefur tekið tillit til. Það var rætt um það atriði laganna hvort heimaaðilum ætti að vera heimilt að beita valdi í einstaka tilvikum og meiri hluti félmn. var á því að það skyldi vera heimilt og allshn. gerir enga breytingu á því ákvæði.

[17:15]

Það var mikið rætt um 5. gr. frv., bæði um hvernig ber að meta eignir sem eru á hættusvæðum og það markmið sem kemur fram í greinargerð frv., sem ég gerði að umræðuefni við 1. umr. um málið. Rætt var um hvort eðlilegt væri að ofanflóðasjóður yrði eigandi húsa sem þyrfti að rýma endanlega eða hugsanlega að flytja og hvort það væri verkefni stjórnar sjóðsins að ráðstafa þessum húsum. Þá var einnig fjallað mikið um síðustu málsgrein 5. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.``

Allmörgum nefndarmönnum í félmn. fannst að þetta væri atriði af því tagi sem þyrfti að íhuga mjög gaumgæfilega. Ég sé að einnig er minnst á þetta atriði í umsögn umhvn. Býsna margt þarf að skoða og meta þegar við hyggjum að framtíðinni. Ég ætla að láta allar mínar hugleiðingar um þetta liggja á milli hluta og styðja frv. en ítreka að sú nefnd sem á eftir að endurskoða lögin kynni sér sjónarmiðin sem koma fram í umsögnum félmn. og umhvn. og taki vonandi mið af þeim, enda er þarna margt verulegrar íhugunar virði.