Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 19. desember 1995, kl. 21:29:53 (2174)

1995-12-19 21:29:53# 120. lþ. 72.1 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[21:30]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frv. til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Við erum komin í 3. umr. Ég gat því miður ekki verið viðstödd lok 2. umr. málsins af sérstökum ástæðum og þess vegna var ég aldrei búin að láta í ljós skoðun mína á breytingunum sem eru til umræðu en ég sýndi það náttúrlega í atkvæðagreiðslu hver hugur minn er til frv. Það hefur jafnan talist til tíðinda þegar skattafrumvörpin koma fram. Ég minnist þess að við 1. umr. um málið fagnaði ég því hvað þetta frv. kom óvenjusnemma fram. Við höfum mátt búa við það á undanförnum árum að skattafrv. hafa komið ákaflega seint fram og þinginu gefist lítill tími til að fjalla um þau.

Þegar maður horfir á þá miklu málasúpu sem við erum að glíma við þessa dagana og innihald hennar þá skilur maður hvers vegna ríkisstjórnin beitir þessum aðferðum. Það er vegna þess, hæstv. forseti, að hér eru á ferð þvílíkir hlutir að ég hef aldrei séð annað eins. Ég verð að segja, hæstv. forseti og hæstv. fjmrh., að mér er gróflega misboðið. Ég meina það frá innstu hjartans rótum að mér finnst það sem ríkisstjórnin er að leggja til á þessu ári vera svo hrikalegt að ég hlýt að spyrja, eins og ég reyndar gerði úr ræðustól í dag: Hvað gengur hæstv. ríkisstjórn til? Þá er ég fyrst og fremst að meina og vísa til þess að aftur og aftur er ráðist á sama hópinn. Þá er ég að tala um fjárlögin, bandorminn og skattafrumvörpin. Ráðist er á sama hópinn aftur og aftur, gamla fólkið. Hvenær fékk ríkisstjórnin þær upplýsingar að aldrað fólk á Íslandi hefði breiðustu bökin og þangað væri mest að sæka? Töluvert af gömlu fólki á miklar eignir. Það er líka til einhver hópur af fólki sem hefur fjármagnstekjur og það jafnvel miklar, eins og ég hef nefnt dæmi um fyrr. En að hægt sé að rýra tekjur alls þessa hóps með þeim hætti sem verið er að gera er algjörlega ótækt. Ég væri sjálf reiðubúin til að standa að því að hækka svokallaðan hátekjuskatt um 5%, þó að það komi líka óréttlátt niður. Það lendir á sjómönnum, á mörgum sem vinna mjög mikið. En það sem hér er verið að gera er ekki réttlátt. Ég ítreka að mér finnst þetta svo hrikalegt að ég var hálfmiður mín í gærkvöldi eftir fund í efh.- og viðskn. Þar var verið að kynna enn eina súpuna af áformum frá heilbrrn. sem öll bitnar meira og minna á gömlu fólki. Ég spyr enn og aftur, hvað gengur ykkur til? Það þarf ekki annað en að skoða þessar tölur sem hafa verið birtar þar sem menn hafa verið að reyna að slá á hvað sé nú verið að spara mikið til að sjá að það eru verulegar fjárhæðir sem á að sækja til gamla fólksins. Samkvæmt lauslegum útreikningum starfsmanns fjmrn. þá er það einhvers staðar á bilinu 400--450 millj. kr. Suma liðina er býsna erfitt að áætla, m.a. hvaða áhrif fjármagnstekjur muni hafa á skerðingu lífeyrisgreiðslna. Menn vita að það er töluvert mikið um að fólk hafi ekki gefið upp þær fjármagnstekjur sem það hefur, enda hefur það svo sem ekki skipt miklu máli. Þótt fólki beri reyndar skylda til þess lögum samkvæmt hefur ekki verið gengið mjög hart eftir því þannig að menn hafa ekki mjög áreiðanlegar tölur um hversu mikið þetta er. Þó kom fram á fundi efh.- og viðskn. að það væri líklega um þriðjungur af fjármagnstekjum sem er gefinn upp á skattframtölum. Samt sem áður eru þetta einhvers staðar á bilinu 400--450 millj. kr. sem menn ætla að hafa af gamla fólkinu. Þá er því svarað til að bæturnar hækki á móti. Þær hækka um 3,5% núna um áramótin. Inni í því er hækkun ellilífeyris, hækkun örorku og hækkun tekjutryggingar, þ.e. hækkun upp á u.þ.b. 450 millj. kr. sem nær bæði til ellilífeyrisþega og öryrkja. Þannig að það er langt í frá, hæstv. fjmrh., að sú hækkun vegi upp það sem verið er að skerða hjá gamla fólkinu.

Við eigum eftir að fara betur í þessi mál, í einstök atriði þessarar skerðingar, þegar við komum að bandorminum. En ég vil taka sérstaklega fyrir það atriði sem hv. síðasti ræðumaður kom einnig inn á. Því miður var samþykkt við 2. umr. að fella niður á einu bretti 15% frádrátt vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum, eins það heitir í frv. Þetta er enn eitt dæmið um þessi dæmalausu vinnubrögð sem viðgangast hérna. Þetta var tekið upp fyrir ári síðan. Fyrir ári síðan var ákveðið að nálgast tvísköttunina með þessum hætti og það veit hamingjan að þáv. ríkisstjórnarflokkum var sannarlega bent á hvað það væri vitlaust að fara þessa leið, m.a. vegna þess að það yrði gífurlegur vöxtur í útgjöldum ríkisins við þetta, afslátturinn mundi vaxa mjög mikið. Það væri miklu nær að nálgast málið hinum megin frá. Þeir sem núna greiða í lífeyrissjóði séu ekki tvískattaðir. Hvernig sem menn hefðu svo hugsanlega ívilnað fólkinu sem orðið er 67 eða 70 ára og borgaði í lífeyrissjóði, a.m.k. hin síðari ár. En þáv. ríkisstjórnin ákvað að fara þessa leið. Þetta var vissulega glaðningur til margra gamalmenna.

En núna, ári síðar, eftir að búið er að gera samninga við verkalýðshreyfinguna er ákveðið að taka þetta aftur af á einu bretti. Látum nú vera að menn hefðu farið þá leið sem var búið að boða í frv., um að afnema þetta í þrepum. Þó það hefði jafnvel verið vægar en gert var ráð fyrir, í þremur þrepum, vegna þess að fólk munar um þetta. En að taka þetta svona á einu bretti og ofan á allar hinar skerðingarnar. Mér finnst þetta svo gróft, svo makalaust, að ég á ekki orð yfir þetta. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar var gerð rækileg grein fyrir þessu í nál. minni hluta efh.- og viðskn. fyrir ári síðan. Þar kemur einmitt fram hvað fólk munar um þetta að meðaltali. Þar eru þeir nefndir sem t.d. hafa greitt lífeyri í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem er nú enginn smáhópur. Samkvæmt þessum tölum voru það 4.528 manns. Það eru kennarar, hjúkrunarfræðingar og ýmsir starfsmenn ríkisins. Fyrir þetta fólk voru þetta að meðaltali 82 þús. kr. á ári. Það er á milli 7 og 8 þús. kr. á mánuði fyrir fólk sem hefur kannski 60--80 þús. kr., gefum okkur 70--80 þús. kr. Það eru nú engin ósköp til að lifa af. Við erum að tala um fólk sem þarf líka að borga af því skatta, mjög iðulega fasteignagjöld og náttúrlega að sjá fyrir sér. Þessi skerðing er veruleg og fólk munar verulega um þetta. Ég hefði svo sannarlega verið tilbúin til þess að standa að því að afnema þetta í áföngum. Eins og þetta er gert, búið að samþykkja skerðinguna við 2. umr., er þetta svo gróft að það ná engin orð yfir það.

Það er ýmislegt fleira í frv. sem aftur tengist bæði fjárlögunum og bandorminum. Það er auðvitað fyrst og fremst það atriði að aftengja, eins og við höfum kallað það, bætur örorku- og ellilífeyrisþega, atvinnuleysisbætur og reyndar ýmsar fleiri greiðslur sem verða föst upphæð. Ég get ekki annað en tengt þetta atriði við nýendurskoðaða spá Þjóðhagsstofnunar um efnahagslífið á næsta ári. Þar spáir Þjóðhagsstofnun því að hagvöxtur verði mun meiri en búist hafði verið við og þar af leiðandi veltan í þjóðfélaginu og síðan tekjur ríkissjóðs í framhaldi af því. Það vekur spurningar um hver verðlagsþróun verður á næsta ári, hvaða breytingar verða hugsanlega á kauptöxtum, þrátt fyrir þá samninga sem gerðir hafa verið. Maður hefur í gegnum árin séð að ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir neinum launahækkunum en iðulega er nú samið um þær samt.

Hér er gengið inn á þá braut að festa bætur elli- og örorkulífeyrisþega og reyndar atvinnuleysisbæturnar sem hafa verið tengdar launaþróun í landinu með ákveðnum hætti. Atvinnuleysisbæturnar eru t.d. miðaðar við taxta fiskverkunarfólks og hafa fylgt hækkunum á honum. Þannig hækka þær t.d. meira núna um áramótin en bætur örorku- og ellilífeyrisþega. Þær hækka um 5,4% vegna þessara viðmiðana við kauptaxta fiskverkunarfólks, á meðan hinar bæturnar hækka um 3,5%. Hver verður svo þróunin á árinu? Þessar upphæðir sem á að festa í lög verða óbreyttar allt næsta ár, svo framarlega sem ekki takist að knýja fram einhverjar breytingar, fyrir utan það 3% svigrúm sem er sums staðar að finna. En hver verður þróunin annars staðar? Hvaða úrbætur fá launþegar? Bent hefur verið á í álitum nokkurra fagnefnda Alþingis, þ.e. minni hlutans, að það er sálrænn þáttur í þessu að taka bæturnar úr tengslum við laun. Þetta er einhver bótahugsun sem verið er að styrkja að nýju í stað þess að ganga út frá því að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfi að lifa eins og aðrir og ættu að fá hækkanir til samræmis við hækkandi verðlag í samfélaginu. Hér á að keyra þessa stefnu í gegn. Eins og bent hefur verið á í útreikningum Alþýðusambandsins þá er viss feluleikur í þessu og það kemur svo sem reynar kemur fram. Verið er að spara ákveðnar upphæðir. Það sama gildir um útreikninga á persónuafslætti og alla útreikningana sem hér eru. Það hefur um árabil staðið deila milli Alþýðusambandsins og fjmrn. um þá og Alþýðusambandið heldur því fram að kjör fólks hafi verið stórlega skert með þessum útreikningum.

[21:45]

Hér eru líka til umræðu ýmis atriði sem tengjast kjarasamningum og ekki er mikið um að segja eins og flýting á því að hætta tvísköttun lífeyris á launþega. Um þetta var samið við samtök launafólks og ekkert er við því að segja. Þetta kostar ríkið auðvitað stórfé og það er eðlilegt að ríkisvaldið þurfi að ná þessum tekjum inn. En það er bara ekki sama hvernig það er gert. Það er ekki sama hver það er sem er látinn borga.

Hér er reyndar enn einu sinni framlengt ákvæði um sérstakan tekjuskatt manna, þ.e. 5% aukatekjuskattur á þá sem hafa 225 þús. kr. í laun sem er reyndar uppreiknað hér eins og annað. Það er spurning eins og ég nefndi áðan hvort ekki hefði verið nær að leita betur hjá hinum raunverulega breiðu bökum en að fara ofan í vasana hjá gamla fólkinu. Ekki hef ég miklar vonir um að komið verði á fjármagnstekjuskatti á næsta ári. Ég hef ekki mikla trú á því að það takist núna frekar en áður. Það hefur staðið til að koma honum á a.m.k. undanfarin fimm ár og sennilega lengur. Get ég þá rifjað það upp sem fram kom í umræðum að það er merkileg staðreynd að fjármagnstekjuskattur skyldi hafa verið afnuminn árið 1978 og er Ísland sennilega eina ríkið í Evrópu sem hefur afnumið þennan skatt en það gengur afar illa að koma honum á. (Fjmrh.: Það er verið afnema hann í tveimur löndum.) Það er verið að afnema í tveimur löndum, segir hæstv. fjmrh. og væri fróðlegt að fá að vita hvaða rök eru fyrir því.

Fjármagnstekjuskattur er með ýmsu móti í hinum ýmsu ríkjum og eflaust eru margar leiðir til að nálgast þær tekjur fólks. Eins og oft hefur verið bent á í því sambandi þarf auðvitað að fara varlega þegar verið er að koma á fjármagnstekjuskatti. Þetta er viðkvæmt mál og það þarf bæði að forðast fjármagnsflótta úr landi eða að skapa einhvern óþarfa ótta hjá sparifjáreigendum. Skattur af þessu tagi má ekki vera til að draga úr sparnaði. Þetta er ekki auðvelt. Það er augljóst mál. Hins vegar er alveg stórmerkilegt hvernig komið hefur verið á fót hverri nefndinni á fætur annarri ár eftir ár sem skilar þykkum og ítarlegum skýrslum og síðan verður aldrei neitt úr neinu. Kann Alþfl. líklega sögu af því frá síðasta kjörtímabili hvernig stóð á því að það náði aldrei fram að ganga þrátt fyrir ítrekaðar samþykktir innan ríkisstjórnarinnar og milli ríkisstjórnarflokkanna um það. (Gripið fram í.) Ég stóð í þeirri meiningu að Alþfl. hefði verið í ríkisstjórn með Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili. Ég minnist þess að hafa séð það og heyrt margsinnis frá þeim að þeir hafi fengið Sjálfstfl. til að samþykkja það að koma á fjármagnstekjuskatti. Er þetta ekki rétt, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson? (Gripið fram í.) Þeim er eitthvað farið að förlast minni. Þetta er kannski túlkunaratriði hver samdi um hvað við hvern og hvenær. Það er auðvitað ekki meginatriði þessa máls heldur þetta. Við stöndum frammi fyrir því að það er að birta til í íslensku efnahagslífi og meira að segja meira en menn áttu von á. Tekjur ríkisins munu aukast og menn eru meira að segja farnir að vara við þenslu og því að menn fari hér á eitthvert fjárfestingar- og eyðslufyllirí. En spurningin er hvernig ríkisstjórnin ætlar að nýta sér þann bata. Í hvað á að verja þeim peningum sem inn koma? Hvert er verið að sækja þær tekjur sem ríkisstjórnin er að reyna að afla sér?

Við höfum séð undanfarna daga að í fyrsta lagi er verið að sækja dágóða summu til atvinnulífsins með hækkun tryggingagjalds sem var mótmælt mjög harðlega af aðilum atvinnulífsins og reyndar Alþýðusambandinu líka vegna þess hvað þetta kemur misjafnlega við fyrirtækin. Þetta er einn af þessum óréttlátu sköttum. Það er líka verið spara með því að frysta persónuafslátt og ýmsar bætur. Síðast en ekki síst er verið að sækja peninga til gamla fólksins. Ætla ég ekki að tíunda það enn einu sinni hvernig það er gert. Um það á eftir að verða mikil umræða á næstu dögum.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig til að koma inn á örlítið atriði sem eru þau vinnubrögð sem við tíðkum á hinu háa Alþingi. Þau hafa oft verið afar slæm og eins og ég nefndi hér í upphafi eru þau m.a. tilkomin vegna þess að það er verið að koma í gegn á örskömmum tíma alls konar breytingum sem eru þess eðlis að þeir sem þær snerta hafa ekki tíma til viðbragða. Fólk hefur ekki tíma til að átta sig á því hvað er verið að gera. En það er líka margt sérkennilegt sem gerist í þessum ferli síðustu vikurnar fyrir jól. Eitt dæmi um það eru breytingartillögur frá meiri hluta efh.- og viðskn. við þetta frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem eru lagðar fram fyrir 3. umr. málsins. Þar koma til atriði sem menn eru að bæta við eitthvað sem er verið að leiðrétta. Fyrst og fremst virðist þetta þó stafa af því að þeir hafi tekið sig til, annaðhvort hjá ríkisskattstjóra eða hjá skattadeild fjmrn. og farið að lesa lögin um tekjuskatt og eignarskatt og uppgötva þá ýmsar villur og leiðréttingar sem væri aldeilis fínt að laga núna fyrir jólin. Þessu er mokað út úr ráðuneytinu og í stað þess að menn gefi sér nú tíma til að vinna þetta almennilega er verið að þessu hér í fljótheitum fyrir jól. Í framhaldsnefndaráliti efh.- og viðskn. þar sem búið er að gera grein fyrir þessum breytingum segir svo: ,,Ástæða þess er sú að við þinglega meðferð frv. sem síðar varð að lögum nr. 147/1994 láðist að lagfæra þessa greinartilvísanir.``

Hér fyrir ári urðu mistök við lagasetningu sem nú er verið að leiðrétta. Ég spyr mig og reyndar sem formaður í einni af nefndum þingsins: Hvað gerum við mikil mistök í þeim flýti sem hér er núna, í þessum hamagangi? Það væri fróðlegt að vita. Ég finn fyrir því sjálf að mér finnst það visst álag að reyna að afgreiða hér jafnvel stór og mikilvæg mál á örskömmum tíma og maður er með lífið í lúkunum yfir því að það séu einhverjar villur eða að okkur sé að yfirsjást einhver atriði sem kunni að reynast mistök síðar meir.

Hæstv. forseti. Staðreyndin er að sú stefna sem er að finna í þessu frv. til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og sú stefna sem kemur hér fram í frv. til fjárlaga og í bandorminum er algjör mistök. Því miður höfum við sem erum í stjórnarandstöðu ekki afl til að breyta eða koma í veg fyrir þessi mistök þó við séum að reyna allt hvað við getum til að reyna að fá fólk til að átta sig á því hvað er að gerast. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér hefur þótt heldur sorglegt að sjá svipinn á mínum fyrri félögum úr stjórnarandstöðu, hv. framsóknarmönnum, sem margir hverjir glotta við tönn og minnast þess hvernig þetta var nú á seinasta kjörtímabili þegar við áttum vissulega í mjög harðri baráttu við þáverandi ríkisstjórn. En það sem núverandi ríkisstjórn er að gera er engu betra. Það er erfitt að mæla slíkt á einhvern mælikvarða en það sem hér er lagt til er, eins og ég hef áður sagt, með því versta sem ég hef séð. (Fjmrh.: Leiðréttingar.) Ekki leiðréttingar heldur sú stefna sem er að finna í frv. og þetta er ekki fyndið, hæstv. fjmrh. Við erum að tala um aðgerðir sem bitna á fólki, gömlu fólki sem er að reyna að lifa á sínum lífeyri og reyna að standa undir því sem það kostar að lifa og búa, hvort sem það er í borginni eða úti á landi. Ég beini því enn og aftur til meiri hlutans á Alþingi að skoða hvað er raunverulega verið að gera. Við höfum ekki fengið neitt einasta heildardæmi um það hvað þessar breytingar þýða fyrir einstaklinga. Það gengur erfiðlega að fá slík dæmi. Við höfum fengið einhverjar áætlaðar heildartölur, heildarsparnað upp á 357--450 millj. Þar á móti hækkun á bótum upp á 450 millj. sem eins og ég nefndi áðan ná bæði til örorku- og ellilífeyrisþega. En hvað þýðir þetta fyrir einstaklingana? Ég minntist á það við 2. umr. um fjárlögin að sú kenning var vinsæl á 18. öldinni og hefur verið tekin upp af mörgum hagfræðingum síðan að það væri hlutverk stjórnvalda að reyna að skapa sem mesta farsæld eða hamingju þegnanna. Mönnum er tíðrætt um það í hagfræði nútímans um samhengi á milli efnahagslífsins og þess hvernig fólki líður. Um samhengi á milli þjóðfélagsástandsins, líðanar fólks og aðgerða stjórnvalda. Það er samhengi þarna á milli. Það sem ríkisstjórnin er að gera með þessu frv. og öðru því sem hér verður til umræðu á næstu dögum er að skapa óhamingju. Það er verið að skapa óhamingju og erfiðleika. Gegn þessu verðum við að beita okkur af öllu afli.