Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 11:18:10 (2199)

1995-12-20 11:18:10# 120. lþ. 73.9 fundur 241. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur krókabáta) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[11:18]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta sjútvn. og brtt. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 89 21. júní 1995. Sú tillaga sem liggur fyrir þinginu í frumvarpsformi er að framlengja bráðabirgðaákvæði. Síðan er bætt við nýrri grein í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum þar sem að kveðið er á um að hækka húftryggingarverðmæti eða styrk til úreldingar. Það skuli að hámarki nema 80% af húftryggingaverðmæti á krókabátum í stað 45% í núgildandi lögum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund til sín Arndísi Steinþórsdóttur frá sjútvrn., Hinrik Greipsson frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt, þó með breytingum sem að hljóða svo, með leyfi forseta:

,,Við 2. gr. Greinin orðist svo:

Ákvæði til bráðabirgða III orðast svo:

Sjávarútvegsráðherra er, þrátt fyrir ákvæði 7. gr., heimilt að ákveða að til ársloka 1996 skuli styrkur vegna úreldingar krókabáta vera hærra hlutfall af húftryggingarmati en gildir um önnur skip. Jafnframt er heimilt að ákveða að til 1. október 1996 geti úreldingarstyrkur vegna krókabáta numið að hámarki 80% af húftrygginarverðmæti. Á sama tímabili er Þróunarsjóði heimilt að kaupa krókabáta sem hafa verið úreltir. Getur sjóðurinn m.a. notað þá til þróunarverkefna erlendis.

Ef ákveðið verður að greiða úreldingarstyrki skv. 1. mgr. skal endurreikna styrki til þeirra krókabáta sem þegar hafa fengið greidda styrki til samræmis við hinar breyttu reglur.``

Tillögur nefndarinnar til breytingar á frv. eru annars vegar að Þróunarsjóði sjávarútvegsins verði heimilt að kaupa krókabáta sem hafa verið úteltir og nýta í þróunarverkefnum erlendis m.a. Með þessu er ekki verið að hrófla við heimildum til að nýta úrelta fiskibáta til annarrar starfsemi, svo sem ferðamannaþjónustu eða sportveiða.

Hins vegar er svo lagt til að sérstaklega verði tekið fram að ef ákveðið verður að nýta heimild ákvæðisins megi sú hækkun sem þar kemur fram á prósentunni einnig nýtast þeim sem þegar hafa fengið útreikninga á sínum styrk eða fengið hann útgreiddan samkvæmt ákvæði þessara laga.