Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 20. desember 1995, kl. 22:16:35 (2232)

1995-12-20 22:16:35# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[22:16]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér ræða hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar af miklum tilfinningahita málefni aldraðra og fatlaðra og láta í veðri vaka að ríkisstjórnarflokkarnir fari hamförum gegn kjörum þessa fólks. Þetta er ekki rétt. Það er ekkert slíkt í gangi. Gamla fólkið sér í gegnum blekkingartal stjórnarandstöðunnar næst þegar það fær greitt út. Bæturnar hafa ekki verið skertar um eyri. Desemberuppbót hefur aldrei verið hærri en nú og 3,5% hækkun um áramót blasir við. Það hringdi t.d. í mig í dag gamall maður sem sagði að félagi sinn sæti alveg undrandi yfir desemberuppbótinni. Af tali stjórnarandstöðunnar að dæma hélt hann að hann ætti ekki eyri í umslaginu. En þegar hann opnar það voru þar ekki 26 þús. eins og hann bjóst við heldur 56 þús. Þannig er hlutunum snúið hér á hvolf.

Hvað fatlaða varðar er það furðulega að þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir stóð síðast að fjárlagagerð fór til Framkvæmdasjóðs fatlaðra 330 millj. Framkvæmdasjóður hefur á næsta ári 337 millj. til ráðstöfunar. Til málefna fatlaðra fer á næsta ári 10% meira en á þessu ári. Þetta eru staðreyndir málsins og það er aumt að halda þessu tali áfram með þeim hætti að öldruðu fólki og fötluðum skuli líða illa vegna þessa tals sem hér viðgengst og er ekki rétt. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir segir að við framsóknarmenn séum aðrir menn en í fyrra. Þetta er alrangt. Ég er nákvæmlega sami maðurinn og ég var í fyrra. En hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er dálítið breytt og önnur kona en hún var áður í stjórnarandstöðu. Hún býr nú við þær aðstæður að flokkur hennar, Þjóðvakinn sjálfur, er gleymdur og týndur og fylgið vart mælanlegt.