1995-12-21 00:06:59# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður heilbr.- og trn. hélt ágætisræðu eins og hans er von og vísa. Hann heldur ávallt góðar ræður og hjartnæmar. Hann hefur greinilega slæma reynslu af stjórnarsamstarfinu við Sjálfstfl. því hann er sár eftir þann bardaga.

Ég vil leiðrétta nokkrar missagnir hjá hv. formanni heilbr.- og trn. Hann talaði eins og við værum að leggja niður bílakaupalán. Þau eru óbreytt. Hann talaði um að við værum að leggja niður ekknabætur. Hann talaði ekki um að dánarbætur koma í staðinn sem eru bæði fyrir ekkjur og ekkla. Hann talaði um 50% hækkun á þjónustugjöldum. Það er alveg rétt að gert er ráð fyrir að komugjald á heilsugæslustöðvar hækki um 100 kr. og um 200 kr. til sérfræðings. Við ræddum það í gær að sérstakt tillit yrði tekið til öryrkja og þeirra sem minna hafa. (ÖS: Hvar er sú útfærsla?) Sú útfærsla kemur, enda er ekki búið að hækka þessi komugjöld, hv. formaður og haltu nú stillingu þinni. (ÖS: Viltu ekki bara að ég þegi?) Nei, nei, ég vil endilega að hv. þm. tali.

Hann talaði um geðverndarmál og sagði að þar hefði ekkert gerst. Hann hefur ekki fylgst mikið með. Það er búið að byggja upp barna- og unglingageðdeild á Akureyri og það er verið að byggja upp unglingadeðdeildina á Landspítalanum. Mér finnst mjög mikilvægt að hv. formaður heilbr.- og trn. viti þetta. Það er verið að hækka örorkubætur og ellilífeyrisbætur. Þannig að ræða hv. formanns heilbr.- og trn. er ekki alveg í takt við raunveruleikann. Hann minnist aldrei á þau gjöld sem erfitt er að leggja af sem Alþfl. setti á með einfaldri reglugerð án þess nokkurn tímann að ræða um það hér á hinu háa Alþingi. Sett var ferliverkagjald þar sem sjúklingar borga 15--20 þús. kr. fyrir hverja komu til sérfræðings. Sérfræðingurinn fær 60% af því í vasa sinn. Hann ræðir aldrei um það. Það var aldrei kynnt á Alþingi. Ég kynni það þó hér að komugjald á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga verður hækkað um 100 kr. og 200 kr. Tíma mínum er lokið og er nú formaðurinn á leið í stólinn og þrunginn spennu og tilfinningum.

(Forseti (GÁS): Forseti vill minna hæstv. ráðherra á að tími til andsvara er tvær mín en ekki rúmar þrjár.)