1995-12-21 00:10:20# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hún fær stundum hjarta mitt til að slá örar. Ég hef metnað fyrir hönd hæstv. ráðherra og ég taldi að hennar biði glæsilegur ferill. Ég er því miður að komast á aðra skoðun. Ég velti því fyrir mér hvernig hún eyðir tíma sínum. Ekki í að fylgjast með því sem er að gerast í ráðuneyti hennar. Hún kemur hér og ber á brjóst og segir: ,,Ég kynni þó reglugerð um hækkun á komugjöldum.`` Herra forseti, var það ekki svo að það voru m.a. sá þingmaður sem hér stendur, hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem þurftu að krefjast þess utan dagskrár í gær að það fengist umræða um nákvæmlega þetta í heilbr.- og trn. Aðstoðarmaður hæstv. heilbrrh. hafði komið á fund nefndarinnar og kynnt breytingar á bandormi en að þeim fundi loknum nokkrum tímum síðar sáum við í sjónvarpinu að verið var að breyta þessum reglugerðum. Þannig að það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að tala um að hún hafi haft frumkvæði að því að kynna þessar brtt., enda skiptir það engu máli.

Stundum gengur pólitík út á tákn og kannski bara út á tákn og því miður er hæstv. heilbrrh. nú að verða tákn ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Hún nefndi bílakaupalánin. Þau skipta kannski ekki miklu máli nema fyrir örlítinn hóp manna en þau lán eru ekki hæstv. heilbrrh. að þakka nú. Það var hún sem óskaði eftir því að lánin yrðu tekin til baka og það var ekki fyrr en eftir harkalegar umræður hér í þingsölum að hún tók þau upp aftur eða bað um að það yrði gert. En hún hefur ekki enn treyst sér til þess að láta sinn eiginn flokk styðja tillögu um að skjóta lagastoð undir lánin. Hún getur hvenær sem er eða eftirmaður hennar tekið þetta til baka. Hún nefndi líka ekkjulífeyrinn. Það skiptir líka litlu máli en ég tek það sem dæmi um að hæstv. ráðherra skiptir um skoðun, rétt eins og smellt sé fingrum, eftir því hvort það rignir í dag eða það er sól á morgun, eftir því hvort hún er í ríkisstjórn eða ekki. Allar grundvallarskoðanir hennar á heilbrigðismálum hafa breyst við það að hún varð ráðherra. Það þýðir ekkert fyrir hana að tala um þjónustugjöld sem erfitt sé að taka af. Hún háði kosningabaráttu þar sem hún lofaði að taka þau aftur. Munurinn á mér og hæstv. ráðherra er hins vegar sá að ég hugsaði um þessi þjónustugjöld, þau eru erfið, en ég komst að þeirri niðurstöðu að í stöðunni væri rétt að taka þau upp. Ég blekkti ekki kjósendur, ég sagði þeim frá því. Hæstv. ráðherra fór fram með eina stefnu og sveik hvert einasta snitti sem hún hefur sagt um heilbrigðismál. Mér þykir það miður vegna þess að þrátt fyrir allt þá ber ég hlýhug í brjósti til þessarar ágætu þingkonu.