1995-12-21 00:25:20# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. formaður efh.- og viðskn. flutti nokkrar brtt. sem vissulega eru ljós í myrkrinu vegna þess að þær milda nokkuð þær aðgerðir sem fyrirhugaðar voru, sérstaklega gagnvart öldruðum og öryrkjum. Því ber að fagna og þá sérstaklega þeim aðgerðum þar sem mildaðar eru þær ákvarðanir sem fjölluðu um aftengingu bóta við verðlag. En ég verð að lýsa vonbrigðum með það að hv. meiri hluti hefur ekki treyst sér til að flytja brtt. um að fallið verði að fullu frá því að skerða miskabæturnar sem við höfum mikið fjallað um í kvöld. En alla vega hefur þetta nokkrum árangri skilað því að þessar brtt. eru hér fluttar. En ég vil spyrja hv. formann efh.- og viðskn. að því, af því að okkur barst bréf í kvöld frá landssambandi fatlaðra, þar sem að segir, með leyfi forseta, og þá er verið að fjalla um fjármagnstekjuskattinn og bætur aldraðra. Þar segir:

,,Það hlýtur að koma til álita hvort hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða sem kveður á um að allir séu jafnir fyrir lögum. Auk þess er um afturvirkni skattalaga að ræða og svo virðist að gengið sé einnig gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Þessi aðgerð kemur mjög í bakið á ákveðnum hópi í þjóðfélaginu þar sem skattur á fjármagnstekjur vegna ársins 1995 verður látinn skerða bætur á árinu 1996.``

Síðan kemur fram að ef þessi aðgerð gangi fram þá muni landssamband fatlaðra leita niðurstöðu hjá umboðsmanni Alþingis. Ég tel að þarna sé um mjög alvarlega aðvörun að ræða þar sem að því er látið liggja að hér sé um brot á stjórnarskránni að ræða. Ég ræddi um það í kvöld að nauðsynlegt væri að efh.- og viðskn. kæmi saman til fundar milli 2. og 3. umr. til að fjalla um þetta bréf landssambands fatlaðra og vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort hann verður við þeirri ósk.