1995-12-21 00:27:22# 120. lþ. 73.3 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[24:27]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé óþarfi að kalla nefndina saman vegna þessa máls sérstaklega. Ég fagna því að málinu skuli vísað til umboðsmanns Alþingis og að sjálfsögðu hlýtur nefndin og Alþingi að taka tillit til þess ef umboðsmaður sér eitthvað athugavert við afgreiðslu málsins. Það sem ég vil hins vegar vekja athygli á í þessu sambandi er það að hér er verið að fjalla um breytingu á lögum um almannatryggingar með síðari breytingum en ekki breytingu á skattalögum. Það hefur verið talinn vera töluverður eðlismunur á því hvort breytingar á bótum eru gerðar með afturvirkri viðmiðun eða breytingum á sköttum. Þannig er hægt að rekja mörg dæmi t.d. frá síðasta kjörtímabili þar sem tengingar bóta t.d. við eignir voru skertar með afturvirkri viðmiðun. Eins þegar tekjutenging ellilífeyrisins var upphaflega tekin upp, þá var að sjálfsögðu verið að nota afturvirka viðmiðun sem voru tekjur sl. árs. Fyrir þessu eru að sjálfsögðu mörg fordæmi. En málið hefur verið talið liggja þannig fyrir að þegar bótalögum hefur verið breytt þá hefur það verið látið átölulaust og ekki talið andstætt stjórnarskránni að nota afturvirka viðmiðun með þessum hætti. En við í efh.- og viðskn. erum að sjálfsögðu reiðubúin til að taka mark á áliti umboðsmanns Alþingis og allra góðra manna sem fjalla um þetta mál á faglegum grunni.