1995-12-21 01:32:30# 120. lþ. 73.5 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[25:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í nóvembermánuði fyrir rúmu ári síðan héldu framsóknarmenn flokksþing sitt, nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Helsta fréttin sem barst frá þinginu var sú að fram þyrfti að fara skuldbreyting aldarinnar vegna stöðu heimilanna í landinu. Þar var tínt til að þar þyrfti að ráðast í breytingar í húsnæðiskerfinu og varðandi fleiri þætti til þess að létta skuldabyrði af heimilunum. Virðulegi forseti. Aðalfréttin var sú að ráðast þyrfti í stærstu skuldbreytingar Íslandssögunnar. Framhald flokksþingsins var það að þingmenn Framsfl. á því þingi ræddu mikið um skuldastöðu heimilanna, báðu um skýrslur, utandagskrárumræður, fluttu þingmál, m.a. frv. um greiðsluaðlögun og fleira sem allt átti að miða að því að létta verulega skuldastöðu heimilanna.

Fyrir kosningar gáfu þingmenn Framsfl. út kosningaloforð sín sem voru undir fyrirsögninni Fólk í fyrirrúmi og í kosningastefnuskránni var fyrirferðarmikill kafli sem bar yfirskriftina Endurreisn heimilanna. Þar var m.a. fjallað um greiðsluerfiðleika sem höfðu skapað neyðarástand á þúsundum heimila þar sem gjaldþrot blasti við mörgum þeirra. Meginástæðurnar væru atvinnuleysið, stórhækkaðir skattar, auknar álögur í heilbrigðis- og menntamálum, lækkun barna- og vaxtabóta, gallað húsbréfakerfi, stuttur lánstími og háir vextir. Því var síðan lofað að komið skyldi á lögum greiðsluaðlögun eða slíkt sagt nauðsynlegt og síðan sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Gripið verði til víðtækra skuldbreytinga sem feli í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt, skuld sé lækkuð eða fryst um tíma meðan fólk leitar lausnar á tímabundnum erfiðleikum, svo sem vegna atvinnuleysis og veikinda.`` Einnig var talað um að lengja lánstíma húsbréfakerfisins.

Við erum nú, eftir að Framsfl. hefur sest að á stjórnarheimilinu ásamt sjálfstæðismönnum, að sjá efndir á þessum loforðum. Ég hygg að þingið hafi búist við verulegu átaki af hálfu framsóknarmanna í þessu máli, miðað við loforðin og ég er sannfærð um að fólk í greiðsluerfiðleikum batt miklar væntingar við frv. sem við höfum fengið inn í þingið.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta frv. hlýtur að valda mörgum miklum vonbrigðum. Ég átti þess ekki kost að vera viðstödd 1. umr. um málið en a.m.k. tveir þingmenn, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, fóru mjög ítarlega yfir frv. og röktu fyrir hæstv. ráðherra þá galla sem væru á því. Þær sögðu að hér væri um þrengingar að ræða miðað við ákvæði sem í gildi væru og lytu að greiðsluerfiðleikum. Þær bentu á að úrlausnir fyrir landsbyggðina væru verri en fyrir höfuðborgarsvæðið, miðað við veðhæfni eigna, og færri fengju fyrirgreiðslu, miðað við ákvæði sem var í frv. hæstv. ráðherra. En svo bar við við umræðuna að hæstv. ráðherra sá ekki ástæðu til þess að svara ýmsum spurningum sem til hans var beint og taldi fjarri lagi að um nokkrar þrengingar væri að ræða.

Nú hefur, virðulegi forseti, þetta mál hæstv. ráðherra fengið umfjöllun í nefnd og allt sem þessir tveir hv. þm. sögðu við 1. umr. virðist hafa komið á daginn að var rétt. Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að fara um það nokkrum orðum, þó að orðið sé áliðið, enda mun ég ekki setja á almenna umræðu um húsnæðismál, aðeins benda á breytingar sem hafa orðið á frv. Ég hlýt, virðulegi forseti, í leiðinni að vekja athygli á nokkrum loforðum framsóknarmanna í húsnæðismálum.

Varðandi fyrsta ákvæðið, sem var eitt af helstu kosningaloforðum framsóknarmanna, um að lengja lánstímann í húsbréfakerfinu, vil ég enn ítreka það sem ég hef sagt, bæði innan þings og utan, að ég tel að lengingin á lánstíma muni litlu breyta fyrir kaupendur íbúða. Ég tel að mikil óvissa sé um hvaða áhrif þetta hafi á afföll, raunar viti það enginn, en mjög líklegt er í mínum huga að þetta muni hafa aukin afföll í för með sér.

Ég tel einnig að við munum standa frammi fyrir því að þetta skekki verð á fasteignamarkaðnum þannig að ef íbúð er til sölu sem tveir aðilar bjóða í, annar með húsbréfum til 15 eða 25 ára, segjum 25 ára, en hinn til 40 ára, þá muni seljandi íbúðar óska eftir hærra kaupverði frá þeim sem býður 40 ára bréfin frá Húsnæðisstofnun. Ég held að þetta muni koma í ljós. Ég spái því að hérna geti verið um að ræða um 300--500 þús. kr. á meðalíbúð. Þetta eigum við eftir að upplifa á fasteignamarkaðinum á næstu mánuðum. Þannig að ég held að lækkun á greiðslubyrði sem sumir hafa reiknað út að geti orðið um 17%, framsóknarmenn sögðu að vísu 25% við kjósendur, muni ekki skila sér til íbúðarkaupenda.

Í ofanálag liggur í augum uppi að eignamyndun verður mun hægari hjá þeim sem taka 40 ára lán en þeim sem taka lán til 25 ára. Heildarvaxtagreiðslur á lánstímanum verða helmingi hærri. Það hefur verið reiknað út að miðað við 25 ára lán og meðallán húsbréfakerfinu, sem eru 3 millj. kr., þá sé heildargreiðslubyrði um 2 millj. á lánstímanum en miðað við 40 ára lán þurfi fólk að borga helmingi meira eða 4 millj. á lánstímanum. Að hafa fasta vexti í svona langan tíma, í 40 ár, hlýtur að vera mjög varhugavert. Þetta eru aðvaranir sem ég hef sett fram, virðulegi forseti, og vil ítreka varðandi þetta atriði málsins.

Eitt vil ég spyrja ráðherrann um, sem mér kemur mjög á óvart. Þetta ákvæði, sem framsóknarmenn töldu að væri lausnin eða a.m.k. ein mikilvæg lausn á greiðsluvanda heimilanna, nær ekki til eldri lána. Ég hygg að allir hafi staðið í þeirri trú að þegar framsóknarmenn kæmu með tillögu sína um lengingu á lánstíma í húsbréfakerfinu í 40 ár þá mundi það einnig ná til eldri lána. En eftir því sem ég fæ upplýst, það verður ekkert af því séð í þessu frv., þá á þessi 40 ára lenging eða lenging úr 25 í 40 ár, ekki að ná til fólks sem þegar hefur tekið húsbréfalán. Ég hygg að margir standi í þeirri meiningu að eftir að frv. hefur orðið að lögum geti fólk með 25 ára bréf, sem stendur í þeirri trú að það muni lækkað greiðslubyrði sína, sem ég ítreka að ég efast um, gengið upp í Húsnæðisstofnun og fengið skuldbreytingu á 25 ára lánum í 40 ár. En, virðulegi forseti, það virðist ekki vera raunin. Það eru eingöngu ný lán sem tekin eru eftir að þetta ákvæði hefur verið lögfest. Ég hygg að margir verði gapandi undrandi yfir því að geta ekki gengið upp í Húsnæðisstofnun og fengið þessa lánalengingu.

Þetta eru, virðulegi forseti, í mínum augum og örugglega margra annarra ekkert annað en svik af hálfu hv. framsóknarmanna og hæstv. ráðherra við almenning. Ég hygg að framsóknarmenn og Framsfl. hafi fengið verulega fylgisaukningu út á loforð sín um að endurreisa heimilin, taka á skuldabyrði þeirra o.s.frv. En við erum að upplifa á þessu þingi, virðulegi forseti, í máli eftir mál svik framsóknarmanna. Það er svona á mörkunum að maður geti reiðst yfir þessu. Manni finnst þetta fremur dapurlegt og sorglegt fyrir hönd fólksins í landinu sem treysti á Framsfl. að þetta skuli vera niðurstaðan.

En þá kem ég að aðalatriði máls míns sem er 2. gr. frv. Þar lagði hæstv. ráðherra til verulegar breytingar frá því ákvæði sem í gildi var. Og hver er niðurstaða hv. félmn. þegar hún hefur fjallað um málið sem hún stendur einhuga að? Það er að umbreyta algjörlega 2. gr. frv. og lögfesta núverandi ástand í húsnæðismálum. Það var nefnilega þannig, virðulegi forseti, að árið 1993 var sett reglugerð sem heimilaði Byggingarsjóði ríkisins að veita greiðsluerfiðleikalán, að vissum skilyrðum uppfylltum, vegna verulegs atvinnuleysis og greiðsluvanda fólks. Í þennan lánaflokk voru settar 300 millj. kr. Ég hygg að það hafi verið í ráðherratíð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þegar hún var félmrh., að enn var bætt við þennan lánaflokk 200 millj. kr. Þannig að þá voru 500 millj. settar í lánaflokkinn. Síðan var sett ákvæði til bráðabirgða í lögin um Húsnæðisstofnun sem heimilaði frystingu á lánum í allt að þrjú ár ef um verulega greiðsluerfiðleika var að ræða og skuldin sem safnaðist upp átti að leggjast við höfuðstólinn. Og hvað gerist nú, virðulegi ráðherra? Menn héldu að hér yrðu verulegar breytingar, fólk fengi að strika út sínar skuldir eða lækka þær verulega eins og segir í þessu plaggi um endurreisn heimilanna. Og ráðherrann hefur kannski staðið í þeirri trú að hann væri að gera eitthvað slíkt þegar hann lagði frv. fyrir Alþingi. En þegar hv. félmn. hefur fjallað um frv. umturnar hún því öllu og breytir því í núverandi horf, eða eins og það er í húsnæðislánakerfinu. Hv. félmn. stendur öll að því ásamt stjórnarliðum að breyta frv. og setja í lög þau ákvæði sem eru í gildi og voru í gildi áður en hæstv. félmrh. Páll Pétursson settist í ráðherrastól. Þetta er öll reisnin. Þarna sjáum við hvernig Framsfl. efnir sín loforð.

[25:45]

Nú kem ég að kjarnanum í máli mínu. Húsnæðisstofnun hefur sent álit sitt á þessu frv. til laga sem ráðherrann flytur. Og að hverju kemst Húsnæðisstofnun? Hún kemst að því að hér sé um verulegar breytingar að ræða í frv. ráðherrans frá því sem gilt hefur á undanförnum árum. Fram kemur í áliti Húsnæðisstofnunar að 2.000 manns hafa fengið greiðsluerfiðleikalán og skuldbreytingu frá 1993 þegar reglugerðin var sett og nýr lánaflokkur stofnaður. Hefðu ákvæði ráðherrans sem hann er að beita sér fyrir verið í gildi 1993 í stað þeirra ákvæða sem þá voru í gildi, hefði 80% af þeim 2.000 sem fengu fyrirgreiðslu verið hafnað. Aðeins 20% þeirra sem fengið hafa fyrirgreiðslu frá 1993 hefðu fengið hana samkvæmt þeim tillögum sem ráðherrann lagði fram í frv. fyrir tveimur eða þremur vikum, 400 manns í stað 2.000.

Mér þykir með ólíkindum að ráðherrann hafi vitað hvað hann var að gera þegar hann flutti þetta frv. Nefndin sem fékk það úrlausnarefni frá ráðherranum að leysa skuldavanda heimilanna var skipuð 2. júní 1995. Hún hefur sjálfsagt fundað stíft síðan eða upp undir hálft ár og hver er niðurstaðan? Að koma með ákvæði sem þrengja verulega stöðu fólks í greiðsluerfiðleikum til að fá fyrirgreiðslu.

Mér skilst að hv. 3. þm. Vesturl., Magnús Stefánsson, hafi veri formaður nefndarinnar sem kom með þetta snjallræði um hvernig leysa ætti greiðsluerfiðleika heimilanna. Hann hlýtur að hafa platað ráðherrann. Ráðherrann hefði varla farið að flytja þetta frv. inn í þingið ef hann hefði vitað að þar var um að ræða verulegar þrengingar frá því sem verið hefur. Ekki síst gagnvart fólki úti á landi. Það er verið að þrengja verulega veðhæfni sem sett er sem skilyrði. Í áliti Húsnæðisstofnunar kemur fram að veðsetning miðaðist áður við 70% af brunabótamati. Ráðherrann vildi breyta veðsetninguni þannig að hún miðaðist við 65% af matsverði. Húsnæðisstofnun telur næsta víst að a.m.k. um 20% umsækjenda sem fengu fyrirgreiðslu samkvæmt fyrri ákvæðum fengju samkvæmt þessu ekki skuldbreytingu vegna ónógrar veðsetningar. Það var ekki bara verið að þrengja, virðulegi forseti, að fólki í greiðsluerfiðleikum í heild sinni á landinu öllu, heldur var sérstaklega í frv. ráðherrans og ríkisstjórnarinnar þrengt að fólki sem býr úti á landi. Það var sérstaklega tekið fyrir af ráðherranum, sem er þó þingmaður Norðurl. v. að því er ég best veit. Mér er það algerlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, hvað hæstv. ráðherra var að hugsa þegar hann lagði þetta frv. fram í þinginu. Efndir loforðanna um endurreisn heimilanna, um skuldbreytingu aldarinnar, eru sem sagt þær að ef ákvæði ráðherrans hefðu verið í gildi 1993 hefðu 80% af þeim 2.000 manns sem fengið hafa fyrirgreiðslu frá þeim tíma ekki fengið hana. Og það er hv. félmn. sem bjargar ráðherranum frá þeirri skömm að lögfesta slík ákvæði. Það ber að þakka hv. félmn. fyrir það hvernig hún tekur á þessu máli. Niðurstaðan er sú að það er verið að lögfesta það ástand sem verið hefur í gildi á umliðnum árum sem engir gagnrýndu meira en hv. framsóknarmenn. Þingið er raunverulega að bjarga framsóknarmönnum frá þeirri skömm að þrengja, eins og ráðherrann vildi, enn frekar þessi ákvæði en verið hefur. Þetta er alveg með ólíkindum.

Virðulegi forseti. Það er komið fram á nótt og ég skal ekki lengja mál mitt frekar nema tilefni gefist. Það liggur fyrir að þegar fjallið tók jóðsótt, fæddist lítil mús. Lausnir framsóknarmanna í húsnæðismálum voru skrum og blekking gagnvart fólkinu í landinu. Ég held að blekking og svik framsóknarmanna hafi aldrei opinberast jafn vel og í þessu frv. Og er þó af mörgu að taka hér á þingi.

Ég vil leggja þrjár spurningar fyrir ráðherrann sem ég óska eftir að fá svar við. Það liggur fyrir að verið er að lögfesta núverandi ástand, því verður ekki á móti mælt. Þetta var áður í reglugerð og ráðherrann hefði ekki endilega þurft að fá lagastoð undir það nema hann ætli að greiðsluerfiðleikalán eigi að vera til frambúðar. Varðandi frystinguna á lánunum var um bráðabirgðaákvæði að ræða sem átti að renna út 1. janúar 1996. Það var einungis hægt að framlengja það ákvæði og þurfti ekki nefnd margra manna í hálft ár til að komast að þeirri niðurstöðu. Spurningar mínar til ráðherrans eru þessar:

Er það virkilega rétt að ákvæðið um lánalenginguna nái ekki til fólks sem þegar hefur tekið lán? Flestir standa víst í þeirri trú. Er einungis verið að gefa þeim kost á lánalengingum sem taka húsbréfalán eftir að þetta ákvæði hefur verið lögfest?

Í annan stað vil ég spyrja ráðherrann hversu mikið fjármagn sé ætlað til þessara lánaflokka, því nú er verið að breyta frá því sem ráðherrann lagði til. Merkilegt nokk, virðulegi forseti, lagði hann til að komið væri til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum með húsbréfum, sem hann hefur þó gagnrýnt manna mest. En nú þegar þessi fyrirgreiðsla flyst yfir í Byggingarsjóð ríkisins er nauðsynlegt að ætla til hennar ákveðið fjármagn. 500 millj. kr. hafa verið markaðar í því skyni frá 1993 og ég spyr ráðherrann: Hve hárri fjárhæð ætlar hann að verja í þennan greiðsluerfiðleikalánaflokk sem hann ætlar greinilega að verði viðvarandi úr því að hann vill fá hann lögfestan. Verður gert ráð fyrir því núna við 3. umr. fjárlaga að setja fjármagn í þennan greiðsluerfiðleikalánaflokk? Þetta, virðulegi forseti, er mikilvægt að fá upplýst.

Ég skal ekki lengja mál mitt frekar. Það væri mjög freistandi að fara í ýmis ummæli sumra framsóknarmanna sem nú eru orðnir ráðherrar um húsnæðismál, en það bíður betri tíma. En ég spyr hvort hv. þm. Guðni Ágústsson sé í húsinu.

(Forseti (GÁS): Forseti upplýsir að hann er það ekki.)

Hann hefur auðvitað hlaupið á brott þegar hann heyrði að það átti að fara að ræða húsnæðismál vegna þess að hv. þm., sem er mikill áhugamaður um að reyna að greiða úr greiðsluerfiðleikum fólks, treystir sér auðvitað ekki til að sitja undir þeirri skömm sem þessi niðurstaða hlýtur að vera fyrir framsóknarmenn. Hv. þm. sagði 15. júní að hann ætlaði að það kæmu fram í haust þingmál sem tækju á þeim vanda sem við blasti, aðgerðir sem dygðu til að koma til móts við skuldugar fjölskyldur sem eiga í erfiðleikum. Hv. þm. sagði sem eðlilegt var að hann ætlaði að gefa ráðherranum tíma til að leysa þessi mál, en það var greinilegt að hv. þm. ætlaði ekki að gefa ráðherranum lengri tíma en fram á haust, eða til jóla.

Virðulegi forseti. Hér er engin lausn á ferðinni. Þetta frv. gerir það eitt að afhjúpa blekkingar framsóknarmanna. Þeir hafa enga lausn á húsnæðisvanda fólks eða greiðsluerfiðleikum fólks í landinu.

Þriðja spurningin er: Hvenær megum við eiga von á frv. um greiðsluaðlögun sem framsóknarmenn sögðu að þyldi enga bið þegar þeir ræddu þetta mál fyrir ári?