1995-12-21 02:05:50# 120. lþ. 73.5 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur


[26:05]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni var hugmyndin ekki sú að setja á langar ræður um húsnæðismál um miðja nótt, þótt e.t.v. væri ástæða til. En orð ráðherrans áðan gefa mér aðeins tilefni til þess að lengja mál mitt.

Hæstv. ráðherra var ánægður með að allir stæðu að þessu nál. en hvað felst í því, virðulegi forseti,og brtt. sem nefndin flytur? Það er verið að leiðrétta afglöp ráðherrans og ég skil vel að hann sé afar ánægður með að þingið grípi í taumana og leiðrétti afglöpin áður en þau koma til framkvæmda og fólk sér hvaða leiðir framsóknarmenn hafa í húsnæðismálum. Hæstv. ráðherra sagði að sú sem hér stendur væri sú eina sem ekki væri ánægð með niðurstöðu nefndarinnar. Ég er svo sannarlega ánægð með niðurstöðu nefndarinnar. Ég vil láta það koma fram að ég mun styðja brtt. sem nefndin hefur gert varðandi greiðsluerfiðleikanana. Mér finnst mjög ánægjulegt, eftir allar ræðurnar sem hæstv. ráðherra hefur flutt um hvernig sú sem hér stendur hefur tekið á húsnæðismálum og aðrir framsóknarmenn einnig, að hann skuli lýsa því yfir núna úr ræðustól að hann sé afar ánægður með tillögurnar sem nefndin flytur.

Hverjar eru þessar tillögur, virðulegi forseti? Það er verið að lögfesta ákvæði sem hafa verið í framkvæmd frá 1993 og hann er afar ánægður með þessar tillögur, tillögur sem hann og Framsfl. hafa verið að hamast gegn á undanförnum mánuðum og árum áður en framsóknarmenn komust í ríkisstjórn. Nú lýsir núv. félmrh. því yfir, og ég er afar stolt af því sem fyrrv. ráðherra og lít á þetta sem komplíment, að hann sé afar ánægður með þær tillögur um greiðsluerfiðleikalán, skuldbreytingu og frystingu lána sem hafa verið í gildi frá 1993. Og sem betur fer, virðulegur forseti, kom þingið í veg fyrir að lögfest yrðu ákvæði sem þrengdu verulega þá aðstöðu sem fólk hefur þó til skuldbreytinga og hefur verið möguleg frá 1993.

Þegar ráðherrann svaraði spurningu minni áðan hvort lánalengingin í 40 ár muni gilda gagnvart fólki sem þegar hefur tekið húsbréfalán, hvert er þá svar hæstv. ráðherra? Jú, það sé ekki hægt að skuldbreyta og lengja lán til 40 ára hjá því fólki sem þegar hefur tekið húsbréf. Af hverju sagði ráðherrann þetta ekki við fólkið fyrir kosningar? Hvað ætli framsóknarmenn hafi fengið mikið fylgi út á þau orð að hér væri um einhvern ávinning fyrir fólk að ræða? Ráðherrann segir áðan: Nei, við getum ekki leyft fólki sem er með 25 ára lán í húsbréfakerfinu að lengja sín lán en við ætlum að leyfa þeim sem eru í basli með bréf sín, eins og hann orðaði það, að fresta afborgunum eða skuldbreyta. Það er nákvæmlega það sem hefur verið hægt, virðulegi forseti, á undanförnum árum. Fólk sem með 25 ára lán sem hefur verið í basli eða greiðsluerfiðleikum hefur getað fengið frestun í þrjú ár, sem er lengri tími en hæstv. ráðherra var að bjóða upp á í tillögum sínum. Fólkið gat einnig tekið skuldbreytingu. Þannig að það er nákvæmlega ekkert verið að gera fyrir fólk sem er í greiðsluvanda núna, ekki neitt, ekki neitt nýtt. Hv. félmn. hefur einungis komið í veg fyrir að lögfest væri sú vitleysa, sú þrenging sem ráðherrann vildi að þingið lögfesti. Það er ástæða til að þakka henni fyrir og fagna þessu því þessi þrenging var sérstaklega gagnvart landsbyggðarfólki. Það væri vissulega ástæða til þess að fara mjög ítarlega ofan í það, virðulegi forseti, lið fyrir lið, setningu fyrir setningu, í 2. gr. frv. hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir almenning ef minni hluti félmn. hefði ekki haft vit fyrir meiri hlutanum og hæstv. ráðherra í þessu efni. Þess vegna er ástæða til þess að þakka, eins og ráðherrann gerði áðan, hv. form. nefndarinnar fyrir að leiða ráðherrann og meiri hluta nefndarinnar af villu síns vegar. Ég býð ekki í það hver staðan hefði verið ef þingið hefði lögfest þessa vitleysu, þessar svakalegu þrengingar. Fólk hefði svo komið upp í Húsnæðisstofnun til þess að reyna að fá lausn sinna mála og þá hefði það staðið frammi fyrir því að búið væri að þrengja verulega ákvæðin sem í gildi voru. Ef lausnir ráðherrans, það sem eftir lifir af þeim tíma sem hann situr í ráðherrastól, verða eins og ráðherrann boðar í þessu frv., þá segi ég bara: Guð hjálpi fólkinu.

Síðan fer hann með þuluna sína um að sú sem hér stendur hafi innleitt afföllin í húsbréfakerfinu. Húsbréfakerfið var þó ekki verra en svo að það var það sem hann ætlaði að bjóða fólki í greiðsluerfiðleikum upp á. Hann ætlaði að innleiða lánaflokk í húsbréfunum til þess að bjóða fólki upp á í greiðsluerfiðleikum. Flokk með hærri vöxtum en hv. félmn. kemst að niðurstöðu um þegar hún breytir þessu í núverandi ástand. Auðvitað veit ráðherrann það, ef hann hefur á annað borð eitthvað kynnt sér húsnæðismál, hverjar ástæðurnar fyrir þessum afföllum voru, í þann eina mánuð sem afföll voru veruleg. Það var af því að við komum ekki framsóknarmönnunum ofan af því að hætta við þetta galna 86-kerfi og þurftum að standa í að leysa greiðsluerfiðleika fólks sem var að kikna undan greiðslubyrði í því kerfi. Það veit hæstv. ráðherra vel.

Auðvitað veit hæstv. ráðherra líka að afföll hafa verið til í húsnæðislánum allar götur síðan var farið að bjóða þau. Það held ég að hafi verið heldur betur afföll í 86-kerfinu þegar fólk var að selja lánsloforðin á verðbréfamarkaðnum með miklum afföllum.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það komplíment sem ég fékk úr ræðustól af hans vörum. Því átti ég ekki von á. Hann er afar ánægður, hæstv. ráðherra, með það ástand sem hefur verið í gildi frá 1993 sem ég þakka hv. formanni nefndarinnar enn og aftur fyrir að hafa leiðrétt hjá ráðherranum. Þetta sýnir að allt sem framsóknarmenn hafa verið að segja um húsnæðislán og húsbréfakerfi er dæmt ómerkt með orðum ráðherrans, sem er afar ánægður með ástandið í húsnæðismálum á undanförnum mánuðum.