Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 20:55:06 (2410)

1995-12-21 20:55:06# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., ÓRG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[20:55]

Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum með þetta svar. Ég get ekki séð að af þessu svari sé hægt að ráða nokkurn skapaðan hlut um það hvernig á að leysa fjárhagsvanda Sjúkrahússins á Suðurnesjum og heilsugæslustöðvarinnar í heild sinni, þótt skýrt sé sagt á minnisblaði sem formaður og varaformaður fjárln. hafa undirritað að það sé liður í samkomulaginu um frestun framkvæmda. Það er lágmarkskrafa að útskýrt sé í ræðu, ég skil að það sé kannski erfitt í andsvari, alveg nákvæmlega hvað menn eru að tala um.

Það vekur t.d. athygli að í brtt. við fjárlagafrv. er verið að minnka framlagið til Sjúkrahúss Suðurnesja frá því sem það er í fjárlagafrv. Sumir hafa sagt, ég ætla ekkert að fullyrða um hvort það er rétt, að það sé vegna þess að sjóðurinn, sem sjúkrahúsið á svo að sækja í, sé þannig til kominn að niðurskurður á upphaflegu framlagi sjúkrahússins sé látinn renna í sjóðinn. Það hefur verið skilningur allra sem að málinu hafa komið, bæði þingmanna, sveitarstjórnarmanna og forustumanna sjúkrahússins, að þessi sameiginlegi sjóður sem verið er að tala um feli alfarið í sér viðbótarfjármagn, nýtt fjármagn sem komi til skiptanna. Það gengur ekki, hv. formaður fjárln., að þegar formaður og varaformaður nefndarinnar eru búnir að setja stafina sína undir að það sé liður í lausn málsins, í sérstöku minnisblaði, þá sé bara vísað á hæstv. heilbrrh. og sagt að hann eigi svo að annast skiptinguna. Þar með er engin trygging fyrir því að það fyrirheit sem merkt er upphafsstöfum formanns og varaformanns fjárln. sé efnt.

Ég vona, virðulegi þingmaður, að við þurfum ekki að efna til langrar umræðu í þingsalnum um þetta mál, það er ekki vilji minn. En ég vil fá það fram alveg skýrt hvernig fjárhags- og rekstrarvandi sjúkrahússins og heilsugæslunnar er leystur í þessari sameiginlegu afgreiðslu fjárlagafrv. og fjáraukalaga.