Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:18:47 (2430)

1995-12-21 22:18:47# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikill áhugi hv. þm. á þessu verkefni birtist með ákaflega undarlegum hætti. En nú vil ég biðja hæstv. heilbrrh. að leggja við hlustir vegna þess að ég vil árétta skýrt og klárt þá formlegu ósk mína að hv. þm. fái tafarlaust að sjá minnisblaðið sem meiri hluti fjárln. hlýtur að byggja á. Ég get ekki ímyndað mér að hér sé um leyniplagg að ræða þótt það sé með þeim hætti heima í héraði að hreppsnefndarmenn hafa ekki séð þetta blað og hafa ekki hugmynd um hvað í því stendur. Enda hefur ekki komið fram í þessari umræðu hverjir undirrita það í umboði heimamanna né heldur hvað í því stendur. Eigum við ekki að taka af öll tvímæli í þessu sambandi og fá að sjá þetta minnisblað. ,,Áhugamaður`` um framgang þessa máls sýnir hér áhuga sinn með því að leggja til 10 millj. kr. mínus tölu til þessa stóra verkefnis. Auðvitað fá Austfirðingar fregnir af þessu. Það gefur auga leið.

Það er hins vegar spurning um formsatriði þessa máls, virðulegi forseti. Við búum núna við formlegan, gildan samning sem undirritaður er af hæstv. heilbrrh. fyrrv. og fjmrh. og eitthvert minnisblað sem er í tösku eða handröðum uppi í ráðuneytum og hefur auðvitað ekkert gildi í þessu sambandi. Þess vegna hlýt ég að árétta að þessar breytingartillögur meiri hluta fjárln. eru auðvitað tómt plat og ganga þvert á það sem gildandi samningar segja til um. Ég hygg því að meiri hluti fjárln. hljóti að gaumgæfa að draga þessa tillögu til baka. Það er ekki hægt að byggja hana á einhverjum lausafregnum ofan af Laugavegi 116. Það gengur ekki.