Fjáraukalög 1995

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 22:30:28 (2433)

1995-12-21 22:30:28# 120. lþ. 76.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[22:30]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. gerðist svona ,,litterer``, með leyfi forseta, eins og fyrri daginn og ræddi um blaðaútgáfu og bókmenntir. Hann er reyndar gamall ritstjóri og það er nú þannig að í ritstjórnartíð minni leyfist fréttadeildinni að hafa skoðun og setja hana á blað og jafnvel á forsíðu, en það hefur kannski ekki verið þannig í tíð hv. 15. þm. Reykv. þegar hann var ritstjóri á sínum tíma. Sjálfsagt er ritskoðunin ekki jafngóð hjá mér og honum en blaðamenn mínir og fréttadeildin hafa leyfi til þess að setja fram skoðanir.

Nú vil ég víkja að Ríkisspítölunum. Það er alveg ljóst að aukafjárveiting leysir ekki allan vanda Ríkisspítalanna. Það er mér fullkunnugt um. Hins vegar er von í því fólgin að afkoma Ríkisspítalanna hefur batnað verulega á seinni hluta ársins og hallareksturinn var mjög verulegur á fyrri hluta ársins. Síðan eru áform um að reyna að nýta féð sem er lagt til spítalanna á höfuðborgarsvæðinu sem best með því að auka eins og kostur er samstarf þeirra á milli. Sú áætlun sem fjáraukalögin og fjárlögin byggjast á er í því fólgin.