Ferill 14. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 14 . mál.


14. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986, með síðari breytingum.

Flm.: Sighvatur Björgvinsson, Össur Skarphéðinsson,


Guðmundur Árni Stefánsson.



1. gr.


    1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Seðlabankinn hefur eftirlit með því að lánastofnanir og aðrar fjármálastofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir eða það sem telja má eðlilega viðskiptahætti, nema eftirlitið sé falið öðrum með lögum.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
    Á eftir orðinu „innlánsstofnana“ í 1. málsl. kemur: og annarra fjármálastofnana.
    Á eftir orðinu „Innlánsstofnunum“ í 2. málsl. kemur: og öðrum fjármálastofnunum.

3. gr.


    Á eftir orðunum „innlánsstofnun“ og „innlánsstofnunar“ í 1. og 2. málsl. 15. gr. laganna kemur: og aðrar fjármálastofnanir, og: og annarra fjármálastofnana.

4. gr.


    Á eftir orðinu „innlánsstofnanir“ í 1. málsl. 16. gr. laganna kemur: eða aðrar fjármálastofnanir.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
    Á eftir orðinu „innlánsstofnun“ í 1. mgr. kemur: og aðrar fjármálastofnanir.
    Á eftir orðinu „innlánsstofnunar“ í 2. og 3. mgr. kemur: eða annarrar fjármálastofnunar.
    Á eftir orðinu „innlánsstofnun“ í 1. og 5. málsl. 4. mgr. kemur: eða annarri fjármálastofnun.
    Á eftir orðinu „innlánsstofnun“ í 1. málsl 5. mgr. kemur: eða fjármálastofnun.

6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996.

Greinargerð.


     Lengi hefur staðið til að framkvæma heildarendurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands. Álitaefni við slíka heildarendurskoðun eru mörg og því hefur dregist úr hömlu að endurskoðuð lög um starfsemi og hlutverk Seðlabanka Íslands hafi verið lögð fyrir Alþingi. Án efa mun það taka talsverðan tíma til viðbótar að ná sáttum um tillögugerð um slíka heildarendurskoðun.
    Sum atriði í þeirri endurskoðun á starfi og hlutverki Seðlabanka Íslands, sem nauðsynlegt er að fari fram, eru þó þess eðlis að um þau ætti ekki að þurfa að vera ágreiningur. Þar má m.a. nefna þörfina sem er á því að efla starfsemi þeirrar deildar bankans sem nú fer með eftirlit gagnvart innlánsstofnunum og að hluta til gagnvart öðrum fjármálastofnunum og er þar átt við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Þær breytingar, sem þarf að gera á starfsemi og hlutverki bankaeftirlitsins, eru tvíþættar. Annars vegar þarf að endurskoða skipulagsmál bankaeftirlitsins, hugsanlega með því að sameina það Vátryggingaeftirlitinu, sem hefur hliðstæðum verkefnum að sinna, og gera að sjálfstæðri stofnun eða auka sjálfstæði bankaeftirlitsins innan Seðlabanka Íslands. Hins vegar þarf að auka eftirlitshlutverk bankaeftirlitsins með öðrum fjármálastofnunum en innlásstofnunum, svo sem lífeyrissjóðunum sem nú eru orðnir stærstu fjármálastofnanir landsins með rúmlega 40 milljarða kr. ráðstöfunarfé á ári. Sjóðir þessir sækja í síauknum mæli á innlendan og erlendan fjárfestingarmarkað og nýleg dæmi um fjármálaráðstafanir einstakra lífeyrisstjóða sýna berlega nauðsyn þess að eftirlit með fjárfestingarstarfsemi þeirra verði aukið og eflt því ómetanlegir hagsmunir sjóðfélaga eru í húfi. Ástæðulaust er að rifja upp dæmi um mistök í fjárfestingum lífeyrissjóða og ráðstafanir á fjármunum án tilskilinna heimilda en flutningsmönnum er kunnugt um fleiri dæmi slíks en komið hafa fram í opinberri umræðu og jafnframt um viðvaranir bankaeftirlitsins og ábendingar til forráðamanna lífeyrissjóða sem bankaeftirlitið hefur ekki getað fylgt eftir á sama hátt og gagnvart öðrum stofnunum, oft vegna óljósra laga- og reglugerðarákvæða sem um starfsemina gilda en ekki síður vegna takmarkaðs gildissviðs laga um lífeyrissjóði.
    Í frumvarpi þessu eru ekki gerðar tillögur um endurskoðun á stöðu eða skipulagi bankaeftirlitsins, og bíður það síns tíma, heldur snúa tillögur í frumvarpinu eingöngu að því að bankaeftirlitið fái lagastoð til þess að sinna eftirlitshlutverki með öðrum fjármálastofnunum en innlánsstofnunum með sama hætti og bankaeftirlitið fylgist nú með starfsemi innlánsstofnana. Með „öðrum fjármálastofnunum“ er hér fyrst og fremst átt við lífeyrissjóðina og hlutabréfasjóði en þar fer bankaeftirlitið nú með mjög takmarkað eftirlitshlutverk. Með lögum um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða, nr. 27/1991, er bankaeftirlitinu þannig aðeins falið að yfirfara ársreikninga og endurskoðunarskýrslur lífeyrissjóða nánast í þeim tilgangi einum að stuðla að samræmingu slíkra upplýsinga. Í krafti þeirra laga getur bankaeftirlitið komið athugasemdum og ábendingum á framfæri við stjórnendur lífeyrissjóða og hefur gert það en auk þess hafa fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra verið sendar slíkar umsagnir. Bankaeftirlitið getur hins vegar ekki að óbreyttum lögum fylgt athugasemdum sínum eftir og tæplega gert vettvangsathuganir hjá lífeyrissjóðum og alls ekki hjá hlutabréfasjóðum með sama hætti og gagnvart innlánsstofnunum. Með hliðsjón af hversu umfangsmikil fjárfestingarstarfsemi þessara fjármálastofnana annarra en innlánsstofnana er orðin, að hún fer stöðugt vaxandi, að starfsemi þessara aðila getur skipt sköpum fyrir þýðingarmikil kjaraleg atriði fjölda fólks eins og lífeyrisréttindi þess eru og að ítrekuð mistök og vafasamar ráðstafanir hafa komið í ljós ber brýna nauðsyn til þess að mati flutningsmanna að nú þegar verði bankaeftirlitinu falið með lögum að annast eftirlit með starfsemi þessara stofnana á sama hátt og á sér stað gagnvart innlánsstofnunum. Flutningsmenn telja að það atriði eigi ekki að bíða heildarendurskoðunar á lögum um Seðlabanka Íslands eða á lífeyriskerfinu á Íslandi sem getur tekið mörg ár eins og reynslan sýnir.