Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 61 . mál.


61. Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna.

Flm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Nefndin vinni í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands að því að efla íþróttir stúlkna og kvenna og leitist við að koma í veg fyrir eða minnka hið mikla brotthvarf stúlkna úr íþróttum. Þá skoði nefndin sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um íþróttir stúlkna og kvenna, hvaða fjármagn sé veitt til stúlkna- og kvennaíþrótta, skiptingu kynjanna í forustu íþróttahreyfingarinnar og aðra þá þætti sem geta haft áhrif á stöðu stúlkna- og kvennaíþrótta. Meðal annars verði litið til þess sem gert hefur verið erlendis í átt til umbóta í þessum efnum.

Greinargerð.


    Á 115. löggjafarþingi Íslendinga var lögð fram tillaga til þingsályktunar um eflingu íþróttaiðkunar kvenna og var hún samþykkt af þinginu 18. maí 1992. Flutningsmenn voru allar konur sem þá sátu á þingi. Samkvæmt ályktun þessari skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að átak yrði gert til að efla íþróttaiðkun kvenna, áhersla skyldi lögð á mikilvægi íþrótta í líkamlegu og félagslegu uppeldi og sem fyrirbyggjandi aðgerða til að bæta heilsu og vinnuþrek. Fjárframlög ríkisins til íþrótta skyldu veitt með það að markmiði að gera íþróttaiðkun kvenna og karla jafnhátt undir höfði.
    Á 116. þingi lagði Kristín Einarsdóttir fram fyrirspurn til menntamálaráðherra um það til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hefði gripið í framhaldi af ályktun Alþingis frá 18. maí 1992 og í svari menntamálaráðherra þá kom fram að heldur lítið hafði verið gert á vettvangi ráðuneytisins til að framfylgja ályktuninni. Vitnaði ráðherra sérstaklega í væntanlegar niðurstöður rannsóknar á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála þar sem könnuð var þátttaka ungmenna í íþróttum og samspil íþróttaiðkunar og annarra þátta í lífi ungmennanna og batt vonir við að rannsóknin mundi varpa ljósi á viðhorf, þátttöku og áhuga pilta og stúlkna í íþróttum og að nýta mætti niðurstöðurnar til eflingar íþróttaiðkun kvenna.
    Niðurstöður umræddrar könnunar ásamt öðrum könnunum sem gerðar hafa verið í tengslum við íþróttaiðkun stúlkna og kvenna benda til þess að átak þurfi að gera til eflingar stúlkna- og kvennaíþróttum. Má þar nefna könnun um brottfall stúlkna úr íþróttum sem gerð var af Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála í samvinnu við og að frumkvæði þróunarhóps umbótanefndar ÍSÍ um kvennaíþróttir á árinu 1994 og skoðanakönnun um kvennaíþróttir sem umbótanefnd ÍSÍ gerði í samvinnu við ÍM Gallup, en niðurstöður þeirrar könnunar voru birtar nú fyrir skömmu. Í síðarnefndu könnuninni kom fram að það er almennt viðhorf að kvennaíþróttir fái of litla umfjöllun í fjölmiðlum sem samrýmist ekki því mati sem fjölmiðlar hafa lagt á áhuga áhorfenda á kvennaíþróttum og kemur fram í ofuráherslu á karlagreinar í allri umfjöllun.
    Í öðrum löndum hefur náðst að efla stöðu stúlkna- og kvennaíþrótta með samstilltu átaki stjórnvalda, íþróttahreyfingar og kvennahreyfingar, og má þar nefna Noreg sem gott dæmi. Brottfall stúlkna úr íþróttum hefur verið áhyggjuefni víða um heim, enda efast enginn um mikilvægi íþróttaiðkunar fyrir fólk, ekki síst er mikilvægi íþrótta viðurkennt sem liður í uppeldi ungmenna og sem vörn gegn vímuefnanotkun. Stjórnvöld þurfa því í samráði við íþrótta- og ungmennahreyfinguna í landinu og þau samtök sem berjast fyrir bættri stöðu kvenna í samfélaginu að móta stefnu í þessu vandasama máli eins og lagt er til í þingsályktunartillögu þessari. Reynslan sýnir okkur að öðruvísi næst ekki árangur.


Fylgiskjal I.


Umbótanefnd ÍSÍ um kvennaíþróttir
í samvinnu við ÍM Gallup:


Útdráttur úr skoðanakönnun um kvennaíþróttir.



(Repró, 2 síður.)






Fylgiskjal II.


Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála
og þróunarhópur umbótanefndar ÍSÍ
um kvennaíþróttir:


Brottfall stúlkna úr íþróttum.


(Úr niðurstöðum rannsóknar í 8. bekk grunnskóla.)




(Repró, 2 myndir.)