Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 21 . mál.


128. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu Ragnhildi Arnljótsdóttur deildarstjóra og Rannveigu Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra lyfjamála, Ingolf Petersen, Jón Þórðarson og Guðmund Reykjalín frá Apótekarafélagi Íslands, Örn Guðmundsson og Þorvald Árnason frá Stéttarfélagi íslenskra lyfjafræðinga og Róbert Melax lyfjafræðing.
    Þar sem ekki er fyrirhugað að gera breytingar sem hverfa frá þeirri meginstefnu sem mörkuð er í gildandi lyfjalögum er nefndin sammála um að mæla með samþykkt frumvarpsins en þó með þeim breytingum að VII. kafli lyfjalaga, um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi, og XIV. kafli laganna, er fjallar um lyfjaverð, taki gildi 15. mars 1996 í stað 1. júlí 1996. Af þessum breytingum leiðir að breyta verður til samræmingar ákvæðum laganna um brottfall tiltekinna ákvæða eldri lyfjalaga, nr. 108/1984, og laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982. Þá breytast ákvæði til bráðabirgða um frest fyrir ákveðna aðila til að uppfylla skilyrði laganna. Einnig framlengjast lyfsöluleyfi lækna og sveitarfélaga í samræmi við breytinguna til 15. mars 1996. Ákvörðun þóknunar fyrir lyfjaafhendingu dýralækna, sem kveðið er á um í lyfjalögum, kemur af þessum sökum ekki til framkvæmda fyrr en 15. mars 1996.
    Sigríður A. Þórðardóttir og Sólveig Pétursdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðanna „1. júlí 1996“ í 3. gr. og a- og b-lið 4. gr. komi: 15. mars 1996.

Alþingi, 27. okt. 1995.



Össur Skarphéðinsson,

Siv Friðleifsdóttir.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.


form., frsm.



Guðni Ágústsson.

Ásta R. Jóhannesdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.



Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.