Ferill 140. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 140 . mál.


167. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu Alþingis á samningum ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Sighvatur Björgvinsson, Lúðvík Bergvinsson, Össur Skarphéðinsson,


Gísli S. Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson.



    Alþingi ályktar að staðfesta eftirtalda samninga sem gerðir hafa verið af hálfu framkvæmdarvaldsins, heilbrigðisráðherra, með og án fjármálaráðherra, við sveitarstjórnir og forsvarsmenn viðkomandi stofnana um nýframkvæmdir og endurbætur á heilbrigðisstofnunum:
    samning um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Fáskrúðsfirði,
    samning um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja í Keflavík (nú Reykjanesbæ),
    samning um endurbætur á sjúkrahúsi St. Fransiskussystra í Stykkishólmi,
    samning um byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði,
    samning um byggingu heilsugæslustöðvar í Laugarási,
    samning um byggingu þjónustuhúss við dvalar- og hjúkrunarheimilið á Hvammstanga,
    samning um byggingu legudeildarálmu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri,
    samning um viðgerðir og klæðningu Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði,
    samning um heilsugæslustöð og hjúkrunarheimili á Þingeyri,
    samning um verklok framkvæmda við Sjúkrahúsið á Blönduósi,
    samning um byggingu heilsugæslustöðvar í Kópavogi.

Greinargerð.


    Í lýðræðisríki er mikilvægt að allur almenningur hafi glöggan skilning og traustar upplýsingar um ákvarðanir stjórnvalda; átti sig á því hver hefur heimild til ákvarðana sem varðar líf og framtíð fólks og hvernig þær eru teknar. Nokkur misbrestur er á því að þannig sé um hnúta búið í okkar stjórnkerfi. Þekkt eru álitamál um „grá svæði“ milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og með réttu hefur það verið gagnrýnt að í of ríkum mæli hafa framkvæmdarvald, ráðuneyti og ríkisstjórn tekið ákvarðanir sem þingi og þjóð er lítt kunnugt um og lagaheimildir þar að lútandi oft æði óljósar. Í þessu samhengi er einnig ástæða til að benda á beitingu bráðabirgðalaga.
    Þingsályktunartillagan sem hér flutt er ekki síst til þess fallin að eyða óvissu í þessu efni. Lagt er til að Alþingi taki af öll tvímæli um samninga ríkis, sveitarfélaga og forsvarsmanna tiltekinna ríkisstofnana á vettvangi heilbrigðismála hvað varðar framtíðaruppbyggingu þeirra.
    Ekki síst er það nauðsyn í ljósi umræðu síðustu vikna og mánaða þar sem heilbrigðisráðherra hefur látið þau viðhorf í ljós að ekki sé stefnt að því að hálfu heilbrigðisráðuneytisins að standa við alla þá samninga sem viðkomandi ráðuneyti hefur á umliðnum árum gert við sveitarstjórnir og stjórnendur stofnana. Þekkt er sú viðmiðun í nefndum samningum að allar skuldbindingar ríkisvaldsins séu háðar fjárveitingum Alþingis. Eðlilega hefur verið litið svo á að þar sem viðkomandi ráðherrar, í þessu tilfelli heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, starfa í umboði meiri hluta Alþingis hverju sinni sé um skuldbindandi samkomulag að ræða. Ef á því er orðin grundvallarbreyting, þ.e. að samkomulag sem ráðherrar undirrita er ekki lengur samkomulag sem hægt er að treysta, er nauðsynlegt að það liggi skýrt fyrir.
    Með þingsályktunartillögunni er hins vegar leitað eftir staðfestingu á því þannig að enginn vafi leiki á því lengur að Alþingi styður og staðfestir þá samninga sem ráðherrar hafa gert. Með samþykkt þessarar tillögu er tryggilega frá því gengið að Alþingi, löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið, hefur tekið skýra afstöðu til þeirra mála sem hér um ræðir. Rétt er þó að undirstrika að Alþingi hefur áður tekið efnislega afstöðu til þeirra verkefna sem hér eru nefnd; það hefur þingið gert við fjárlagagerð með „eyrnamerktum“ framlögum til viðkomandi samninga. Því er íhugunarefni hvort ráðherrar hverju sinni hafi heimild til þess að ganga á svig við vilja þingsins í þessum efnum. Það er álitamál sem nauðsynlegt er að ræða mun nánar.
    Með samþykkt tillögunnar yrði allri óvissu eytt. Málsmeðferðin er hliðstæð því verklagi og þeim vinnubrögðum sem þekkt eru á Alþingi t.d. hvað varðar meðferð milliríkjasamninga þar sem Alþingi staðfestir eftir á með þingsályktunartillögu gjörninga framkvæmdarvaldsins. Með afgreiðslu málsins fengju samningsaðilar heima í héraði hreinar línur, ráðherrar gerðu sér grein fyrir rétti sínum og skyldu og Alþingi markaði skýra stefnu hvað varðar framtíðarskipan þeirra mála sem hér um ræðir.
    Ljóst er af því frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 sem nú liggur fyrir þinginu að langur vegur er frá því að fjárveitingar dugi til þeirra verkefna sem ríkisvaldið hefur skuldbundið sig til að framkvæma. Svo virðist sem aðeins 27,2 millj. kr. sé varið til fjárfestinga tilgreindra verkefna í frumvarpinu, sbr. fjárlagalið 08-381, Stofnkostnaður, 690, Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Auk þess er lagt til að varið sé 35 millj. kr. til nýbyggingar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (08-358, Stofnkostnaður, 650 Nýbygging). Þetta eru samtals 62,2 millj. kr. en fyrirliggjandi samningar um þessi sömu verkefni kalla hins vegar á um 156,5 millj. kr. 94,3 millj. kr. vantar til að unnt sé að uppfylla þessa samninga. Þessi misvísun og óljósar yfirlýsingar heilbrigðisráðherra hafa skapað óþolandi óvissu í þessu sambandi. Sjö af þeim ellefu viðfangsefnum, sem hér er gerð tillaga um að Alþingi staðfesti, eru þegar á framkvæmdastigi og ljóst að ef ekki verður um snurðulaust framhald á viðkomandi verkefnum að ræða mun hugsanlega hljótast af skaðabótakrafa á hendur ríkisvaldinu.
    Algengt ákvæði í þeim samningum sem hér um ræðir er að kveðið sé á um að greiðslur ríkissjóðs séu háðar fjárveitingum Alþingis. Að sumu leyti er hér um eðlilegan fyrirvara að ræða. Vissulega er þekkt að ákvæði laga sem Alþingi hefur samþykkt hafi ekki komið til framkvæmda við samþykkt fjárlaga. Nægir þar að nefna grunnskólalög og það sem beinast liggur við að nefna í þessu sambandi, þ.e. vegáætlun. Það er mjög til umhugsunar í bráð og lengd hvort það sæmi virðingu Alþingis og nauðsynlegu réttaröryggi að lög stangist á við önnur, þ.e. að tiltekin lagasetning fái ekki staðfestingu þegar til afgreiðslu fjárlaga kemur.
    Hvað sem því líður er þessi þingsályktunartillaga flutt í þeim tilgangi að eyða óvissu í þessum efnum og skapa nauðsynlegan trúnað og traust milli ríkisvaldsins, undirstofnana þess, sveitarfélaga, Alþingis og fólksins í landinu.
    Álitamál í þessu sambandi er hvort ekki sé rétt þegar til framtíðar er litið að samningar á borð við þá sem hér um ræðir komi til umfjöllunar og ákvörðunar Alþingis hverju sinni um það leyti sem þeir eru gerðir. Um það er þó engu slegið föstu í þessari tillögu.
    Meðfylgjandi eru eftirfarandi gögn:
    1. Skrá yfir þá samninga sem heilbrigðisráðuneytið, með eða án aðildar fjármálaráðuneytisins, hefur gert um nýbyggingar á vettvangi heilbrigðismála eða um meiri háttar viðhald á mannvirkjum sem notuð eru til heilbrigðisþjónustu.
    2. Greinargerð frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu um verkstöðu þessara samninga, verktíma og fjármálalega stöðu þeirra.
    3. Afrit af greindum samningum eins og þau bárust 1. flutningsmanni frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
    4. Þrjár blaðsíður (134, 139 og 246) úr fjárlögum fyrir árið 1995 þar sem fram koma fjárveitingar til þeirra verkefna sem hér er um að ræða.


Fylgiskjal I.

Heilbrigðis- og
tryggingamálaráðuneytið:


Bréf til Guðmundar Árna Stefánssonar.


(6. nóvember 1995.)


    Ráðuneytið vísar til bréfs frá 26. október sl. þar sem beðið er um skrá yfir þá samninga sem heilbrigðisráðuneytið, með eða án aðildar fjármálaráðuneytisins, hefur gert um nýbyggingar á vettvangi heilbrigðismála eða um meiri háttar viðhald á mannvirkjum sem notuð eru til heilbrigðisþjónustu.
    Þá er beðið um verkstöðu allra þessara samninga, verktíma og fjármálalega stöðu þeirra og loks er óskað eftir afritum af greindum samningum.
    Í ráðuneytinu hefur verið tekin saman skýrsla í samræmi við það sem um er beðið og sendist hér með eftirfarandi:
    Upplýsingar um framkvæmdir þar sem samningar við sveitarfélög hafa verið gerðir ásamt verksamningum við verktaka.
    Upplýsingar um samninga við sveitarfélög þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar.
    Samningur um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Fáskrúðsfirði.
    Samningur um byggingu D-álmu við Sjúkrahús Suðurnesja í Keflavík.
    Samningur um endurbætur á sjúkrahúsi St. Fransiskussystra í Stykkishólmi.
    Samningur um byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn í Hornafirði.
    Samningur um byggingu heilsugæslustöðvar í Laugarási.
    Samningur um byggingu þjónustuhúss við dvalar- og hjúkrunarheimilið á Hvammstanga.
    Samningur um byggingu legudeildarálmu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.
    Samningur um viðgerðir og klæðningu Fjórðungsjúkrahússins á Ísafirði.
    Samningur um heilsugæslustöð og hjúkrunarheimili á Þingeyri.
    Samningur um verklok framkvæmda við Sjúkrahúsið á Blönduósi.
    Ráðuneytið væntir þess að þessar upplýsingar séu í samræmi við það sem um var beðið og fullnægjandi fyrir þá umfjöllun sem fyrirhuguð er á Alþingi.

F.h.r.


Páll Sigurðsson.





34 síður myndaðar

Fylgiskjal II.


Úr fjárlögum fyrir árið 1995.


(Bls. 134, 139 og 246.)






(3 síður myndaðar.)