Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 193 . mál.


241. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu fríverslunarsamnings milli Íslands og Lettlands.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands og Lettlands, sem gerður var í Kolding á Jótlandi 30. ágúst 1995.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á árinu 1993 var ákveðið að hefja samningaviðræður um gerð fríverslunarsamninga milli Íslands og allra Eystrasaltsríkjanna. Samningaviðræðum milli Íslands og Lettlands lauk í ársbyrjun 1995 með samkomulagi um fríverslunarsamning landanna. Var fríverslunarsamningur milli Íslands og Lettlands undirritaður í Kolding í Danmörku 30. ágúst 1995 í tengslum við utanríkisráðherrafund Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem þá var haldinn þar. Samningurinn milli Íslands og Lettlands er birtur sem fylgiskjal I með þingsályktunartillögu þessari.
    Fríverslunarsamningurinn við Lettland er mjög hliðstæður þeim fríverslunarsamningum sem EFTA hefur gert við ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Fríverslunarsamningurinn við Lettland kveður á um fríverslun milli Íslands og Lettlands með iðnaðarvörur (25.–97. kafli í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá). Einnig nær samningurinn til fisks og fiskafurða samkvæmt viðauka I í samningnum. Þá nær hann jafnframt til ákveðinna vara, sem unnar eru að hluta til eða að öllu leyti úr landbúnaðarvörum (unnar landbúnaðarvörur). Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og kveðið á um framkvæmd viðskipta með þær í bókun A við samninginn.
    Ísland og Lettland afnema alla innflutningstolla á iðnaðarvörum sem upprunnar eru í löndunum svo og öll gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku samningsins. Hið sama gildir um fisk og fiskafurðir, að undanskildum tilgreindum fiskafurðum, þar sem gert er ráð fyrir fjögurra ára aðlögunartíma. Aðlögunartíminn tekur til þurrkaðs, saltaðs, reykts og niðursoðins fisks en einnig til frystra flaka af nokkrum fisktegundum.
    Strax við gildistöku samningsins tekur gildi í Lettlandi 200 tonna tollfrjáls innflutningskvóti fyrir saltsíld frá Íslandi. Í bókun, sem gerð var um niðurstöðu samningaviðræðna, segir að sameiginleg nefnd Íslands og Lettlands um framkvæmd samningsins geti stækkað saltsíldarkvótann.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin, að því marki, sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfi, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarvörur, sbr. 9. gr. samningsins. Gert er ráð fyrir að gerður verði tvíhliða samningur um landbúnaðarmál milli ríkjanna.
    Viðskipti Íslands og Lettlands eru ekki mikil. Verðmæti útflutnings til Lettlands nam 6,4 milljónum árið 1994 en verðmæti innflutnings nam 50,2 milljónum króna það ár.


..........



    Með tillögunni var prentaður fríverslunarsamningur milli ríkjanna svo og eftirtaldir viðaukar og bókanir:
         
I.
    Viðauki sem um getur í c-lið 2. gr.
         
II.
    Viðauki sem um getur í 2. mgr. 5. gr. (útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif).
         
III.
    Viðauki sem um getur í 2. mgr. 6. gr. (bann við og afnám magntakmarkana á innflutningi).
         
IV.
    Viðauki sem um getur í 12. gr. (útflutningsaðstoð sem samrýmist ekki þessum samningi).
         
V.
    Viðauki, um túlkun á 12. gr.
    Bókun A, um vörur sem um getur í b-lið 2. gr.
    Tafla I og II við bókun A.
    Bókun B, skilgreining hugtaksins „upprunavörur“ og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda.
         
I.
    Viðauki (við bókun B). Skýringar.
         
II.
    Viðauki. Skrá yfir aðvinnslu sem efni er ekki teljast upprunaefni verða að hljóta til þess að vara framleidd úr þeim geti öðlast upprunaréttindi.
         
III.
    Viðauki við bókun B. Flutningsskírteini.
         
IV.
    Viðauki við bókun B. Yfirlýsing sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 8. gr.
         
V.
    Viðauki.
         
VI.
    Viðauki við bókun B.
    Einnig var samningurinn prentaður með þingsályktunartillögunni á ensku ásamt viðaukum og bókun A.
    Um þessi fylgigögn vísast til þingskjalsins ( lausaskjalsins).