Ferill 195. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 195 . mál.


243. Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.


    Orðin „þó að fengnum tillögum útvarpsráðs ef um starfsfólk dagskrár er að ræða“ í 6. mgr. 21. gr. laganna falla brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 20. gr. útvarpslaga segir að hlutverk útvarpsráðs sé að taka ákvarðanir um „hversu útvarpsefni skuli haga í höfuðdráttum innan marka fjárhagsáætlunar“ og setji ráðið eins og þurfa þykir reglur „til gæslu þess að fylgt sé ákvæðum 15. gr.“ um markmið og skyldur Ríkisútvarpsins.
    Hin síðari ár hefur útvarpsráð samkvæmt þessum ákvæðum því starfað þannig að þar er annars vegar mótuð heildarstefna um dagskrá Ríkisútvarpsins og hins vegar lagt mat á hversu til hafi tekist um þessa dagskrá. Ekki verður séð að sérstök afskipti útvarpsráðs af ráðningu dagskrárstarfsfólks séu í eðlilegum tengslum við hlutverk ráðsins og vinnubrögð skv. 20. gr.
    Ákvæði 21. gr. um sérstakar „tillögur“ útvarpsráðs þegar ráðið er starfsfólk dagskrár er í raun arfur frá liðnum tíma þegar hlutleysisreglur Ríkisútvarpsins voru túlkaðar á annan veg og þrengri en nú tíðkast. Vera má að þegar fjölmiðlun á Íslandi var fyrst og fremst í höndum stjórnmálaflokkanna hafi þótt eðlilegt að útvarpsráð, kjörið pólitískt á Alþingi, legði mat á umsækjendur um dagskrárstöður og greiddi um þá atkvæði. Nú eru aðrir tímar í fjölmiðlun hérlendis þar sem kröfur um fagmennsku, menntun og hæfni við fjölmiðlastörf aukast sífellt en meint stjórnmálaviðhorf þeirra sem á fjölmiðlum starfa skipta minna máli. Eðlilegt er að löggjafinn geri Ríkisútvarpinu kleift að laga sig sem best að nýjum tímum, ekki síst í ljósi stóraukinnar samkeppni á fjölmiðlasviði.
    Rétt er að benda á að þrátt fyrir skýr ákvæði 21. gr. um að tillögur útvarpsráðs taki til alls starfsfólks dagskrár hefur venjan verið sú að útvarpsráð gerir eingöngu tillögur um starfsmenn á fréttastofum Ríkisútvarpsins en skiptir sér lítt eða ekki af mönnun annarra dagskrárdeilda. Þetta þýðir meðal annars að starfsmenn við dagskrárgerð á Rás 2 eða í Dagsljóssþáttum sjónvarps þurfa ekki að fara gegnum nálarauga útvarpsráðs. Ráðið hefur af einhverjum ástæðum kosið að fara ekki að lögum í þessum tilvikum þótt á báðum stöðum séu unnin störf sem gera svipaðar faglegar kröfur og gerðar eru til fréttamanna.
    Ljóst er að núverandi skipan við ráðningu dagskrárfólks hefur ýmis áhrif á fréttastofur Ríkisútvarpsins og setur bæði umsækjendur og ráðna starfsmenn í sérkennilega aðstöðu. Algengt er að umsækjendur reyni að afla umsókn sinni fylgis með samtölum við útvarpsráðsmenn eða einstaka pólitíska samherja þeirra. Þannig myndast í sumum tilvikum pólitískar blokkir í útvarpsráði um afstöðu til einstakra umsækjenda og er þá undir hælinn lagt hvort fagleg hæfni er metin að verðleikum. Þeir sem hljóta ráðningu eru í slíkum tilvikum í þeirri aðstöðu að þeir hafa að einhverju leyti fengið starf sitt á pólitískum forsendum, jafnvel flokkspólitískum. Þeir þurfa því að sæta tortryggni í nýju starfi og eiga á hættu að reynt sé að beita þá þrýstingi í starfi.
    Erfitt er að koma auga á rök gegn því að á Ríkisútvarpinu sé viðhöfð sama skipan og á öðrum fjölmiðlum þar sem yfirmenn einstakra deilda eru alla jafna sjálfráðir um að ráða starfsmenn sína en standa sjálfir og falla með heildarframmistöðu sinni. Fréttastjórar ættu að þessu leyti að vera í svipaðri aðstöðu og ritstjórar dagblaðanna eða fréttastjórar eftir atvikum. Án þess að kasta nokkurri rýrð á núverandi og fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins er ljóst að afskipti útvarpsráðs draga úr valdi þeirra og ábyrgð á fréttastofunum og torvelda þeim eðlilega stjórnun og samskipti við starfsmenn sína, t.d. þegar fréttastjóri hefur eindregið mælt með einum umsækjanda í stöðu fréttamanns en útvarpsráð hins vegar hafnað honum og mælt með öðrum og útvarpsstjóri kosið að fara að vilja ráðsins, eins og mörg dæmi eru um fyrr og síðar.
    Með þeirri skipan sem breytingin á lögunum gerir ráð fyrir er útvarpsráð losað undan umsagnarskyldum sínum við ráðningar tiltekinna starfsmanna á Ríkisútvarpinu. Eðlilegt væri að í framhaldinu yrðu settar ákveðnar innanhússreglur um framgang ráðningarmála, um samskipti einstakra yfirmanna og útvarpsráðs og um upplýsingar til ráðsins um einstakar ráðningar. Það er einnig álit flutningsmanna að heppilegast sé að a.m.k. dagskrárstarfsfólk, að yfirmönnum meðtöldum, sé aðeins ráðið til ákveðins tíma í senn. Þannig hafi yfirmenn dagskrárdeilda þokkalega frjálsar hendur til skipulagsbreytinga og mannaskipta ef svo ber undir en útvarpsstjóri geti hins vegar í samráði við útvarpsráð metið frammistöðu yfirmanna á ákveðnu tímabili. Slíkar breytingar eru þó ekki lagðar til í þessu frumvarpi þar sem um flókið mál er að ræða, m.a. vegna kjarasamninga, og eðlilegast að umfjöllun um það fylgi þeirri heildarendurskoðun útvarpslaga sem nú hefur staðið yfir um árabil.