Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 92 . mál.


339. Nefndarálit



um frv. til l. um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Björgu Thorarensen, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Barnaheillum, barnaverndarstofu, Sálfræðingafélagi Íslands, Bernskunni, Geðlæknafélagi Íslands, Heimili og skóla, Sýslumannafélagi Íslands, barnaverndarráði, biskupsstofu og réttarfarsnefnd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Í þeim breytingum felst:
    Tekin eru af tvímæli um að dómsmálaráðuneytinu er aðeins ætlað að endurskoða ákvörðun sýslumanns að því er varðar inntak umgengnisréttarins, en ekki framkvæmd aðfarargerðar að öðru leyti. Skv. 3. mgr. 37. gr. barnalaga úrskurðar sýslumaður ávallt um inntak umgengnisréttar ef foreldra greinir á um umgengnina. Fullnustu sýslumanns á erlendri umgengnisréttarákvörðun á grundvelli Evrópusamningsins er undantekning frá þeirri meginreglu íslenskra laga að ekki verði gerð aðför til að fullnægja ákvörðun um umgengnisrétt, sbr. niðurlag 38. gr. barnalaga. Þykir eðlilegt að ákvörðun um inntak umgengnisréttarins verði áfram í höndum sýslumanns með kæruheimild til dómsmálaráðuneytis en færist ekki til dómstóla samhliða öðrum ágreiningsefnum um aðfarargerðina.
                  Að öðru leyti en því sem snertir inntak umgengnisréttarins, er orðað sérstaklega í breytingartillögunni að komi ágreiningur upp um önnur atriði varðandi aðfarargerðina, gildi almennar reglur aðfararlaga. Með þessu er fyrst og fremst átt við ákvæði 14. kafla laga um aðför, nr. 90/1989, um úrlausn ágreinings sem rís við framkvæmd aðfarargerðar eða um endurupptöku hennar og 15. kafla sömu laga um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar.
    Með því að bæta inn í 16. gr. frumvarpsins ákvæði um að aðeins beiðandi geti krafið dóminn um skýringar eru tekin af tvímæli um að þessi heimild er einskorðuð við hann. Beiðandi getur krafist skýringanna beint eða fyrir milligöngu móttökustjórnvaldsins hér á landi, þ.e. dómsmálaráðuneytisins.
                  2. mgr. 16. gr. er byggð á 2. mgr. 11. gr. Haagsamningsins. Þar segir að þeir sem geti krafist skýringa samkvæmt ákvæðinu séu beiðandi eða móttökustjórnvald þess ríkis sem beiðni er beint til (þ.e. dómsmálaráðuneytið hér á landi) annaðhvort að eigin frumkvæði eða að ósk móttökustjórnvalds þess ríkis sem ber fram beiðni.
                  Rétt er að vekja athygli á að þessi regla er undantekning frá þeirri meginreglu íslensks réttarfars að dómari verði ekki krafinn skýringa eða verði gert skylt að tjá sig um gang máls á meðan það er til meðferðar fyrir dómi. Á móti kemur þó að reglan er afdráttarlaust bundin í 1. mgr. 11. gr. Haagsamningsins og er þannig þjóðréttarleg skuldbinding sem samningsríkjum er óheimilt að gera fyrirvara við. Þess má geta til hliðsjónar að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur reglan verið lögfest í sambærilegar meginreglur réttarfars um að dómari verði almennt ekki krafinn skýringa um mál sem eru til meðferðar fyrir dómi.
    Tilvísun í barnalögin, í 17. gr. frumvarpsins, er gerð afdráttarlaus, enda ekki önnur ákvæði þeirra sem koma sérstaklega til álita varðandi þetta atriði. Í 4. mgr. 34. gr. barnalaganna eru skýrar reglur um hvenær skylt er að leita afstöðu barns og hvaða aðferðum er beitt í því markmiði.
    Rétt er að benda á að í umsögn Barnaheilla um frumvarpið kemur fram að nauðsyn sé að kanna hvort ekki beri að fullgilda hér á landi Norðurlandasamning frá 1977, um viðurkenningu og fullnustu norrænna einkamálaákvarðana, sem heimilar að fullnægja ákvörðunum um forsjá, umgengnisrétt eða afhendingu á barni sem teknar eru í einu Norðulandanna í einhverju hinna, ef ákvörðun er fullnustuhæf í því landi þar sem hún var tekin. Tekur þessi samingur bæði til barna giftra og ógiftra foreldra.

Alþingi, 12. des. 1995.



Sólveig Pétursdóttir,

Sighvatur Björgvinsson.

Kristján Pálsson.


form., frsm.



Guðný Guðbjörnsdóttir.

Ögmundur Jónasson.

Ólafur Örn Haraldsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.

Hjálmar Jónsson.