Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 43 . mál.


421. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1996.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín frá fjármálaráðuneyti Magnús Pétursson ráðuneytisstjóra og Ingólf Bender hagfræðing. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Þórður Friðjónsson þjóðhagsstofustjóri, Lárus Jónsson, Guðjón V. Valdimarsson og Gísli Fannberg frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Hinrik Greipsson og Einar Kristinn Jónsson frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins, Kristján Jónsson og Eiríkur Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins, Pétur Guðmundsson frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Heimir Steinsson og Hörður Vilhjálmsson frá Ríkisútvarpinu, Guðmundur Malmquist frá Byggðastofnun, Bragi Hannesson frá Iðnlánasjóði, Snorri Tómasson frá Ferðamálasjóði, Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun ríkisins og Leifur Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
1.    Tveir töluliðir verði færðir úr kaflanum um lántökur yfir í kaflann um ríkisábyrgðir. Samtala 3. gr. breytist til samræmis við þetta.
2.    Þar sem endurskoðuð lánsfjárþörf Landsvirkjunar er áætluð 2.760 m.kr. er lagt til að heimild stofnunarinnar til lántöku verði lækkuð um 780 m.kr. Þá er lagt til að 3. tölul. 3. gr. verði bætt við 4. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að lántökuheimild Rafmagnsveitna ríkisins hækki um 200 m.kr. frá frumvarpinu. Annars vegar er áætlað að teknar verði 100 m.kr. að láni til 10 ára til að standa undir kostnaði er hlaust af tjóni í óveðri í lok október sl. og til jarðstrengslagningar í dreifikerfi fyrirtækisins í þeim sveitum. Hins vegar er um að ræða 100 m.kr. lántöku til tveggja ára til að flýta lagningu jarðstrengs sem komi í stað helmings línunnar frá Kópaskeri til Brúarlands í Þistilfirði. Með því móti verður unnt að láta bráðabirgðaviðgerð á línunni nægja. Á framkvæmdaáætlun fyrirtækisins var gert ráð fyrir þessari framkvæmd árið 1998.
3.    Lagt er til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að binda ríkissjóð með sjálfskuldarábyrgð vegna lántöku ýmissa aðila á næsta ári. Í fyrsta lagi er þar um að ræða allt að 470 m.kr. lántöku Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Akraneskaupstaður, Borgarbyggð og Andakílsárhreppur gerðu með sér samkomulag 8. desember 1995 er kveður á um aðgerðir í málefnum hitaveitunnar. Skv. 4. tölul. 5. gr. samkomulagsins er gert ráð fyrir að hitaveitan taki lán til að greiða hluta lána sem gjaldfalla 5. júní 1996. Lán þessi eru með breytilegum vöxtum og bundin í Bandaríkjadölum og þýskum mörkum. Samkvæmt stöðu gjaldmiðla þegar samkomulagið var gert nemur lántakan 426 m.kr. Í ljósi óvissu um þróun gengis er þess óskað að hitaveitunni verði heimilað að taka allt að 470 m.kr. lán á næsta ári. Í öðru lagi er þess óskað til samræmis við greiðsluáætlun Bæjarveitna Vestmannaeyja fyrir árin 1996 og 1997 að þær fái heimild til að taka allt að 24 m.kr. lán sem ætlað er að greiða hluta 96,2 m.kr. afborgana og fjármagnskostnaðar á árinu 1996. Í þriðja lagi er lagt til að Lyfjabúð Háskóla Íslands fái lántökuheimild vegna kaupa á fasteigninni Austurstræti 16. Í fjórða lagi er lagt til að Flugmálastjórn verði gert heimilt að taka allt að 92 m.kr. lán til 15 ára til endurnýjunar á flugvél. Við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir það ár sem er að líða var gert ráð fyrir allt að 70 m.kr. lántökuheimld. Endurskoðuð áætlun Flugmálastjórnar gerir hins vegar ráð fyrir þeirri fjárhæð sem hér er lögð til. Í fimmta lagi er 6. tölul. 3. gr. frumvarpsins færður yfir í þessa grein. Þar er lagt til að Ríkisútvarpið fái lántökuheimild vegna kaupa á langbylgjusendi og loftnetum til að nýta mastur Lóranstöðvarinnar á Gufuskálum til langbylgjusendinga. Loks er lagt til að Orkusjóður fái heimild til að taka allt að 15 m.kr. að láni til jarðhitaleitar, samkvæmt ákvæðum orkulaga, í námunda við þéttbýli á þeim svæðum þar sem vonir hafa aukist um að unnt sé að finna jarðhita. Fé þessu verður ráðstafað að fengnum umsóknum frá viðkomandi aðilum samkvæmt tillögum Orkuráðs.
4.    Lagt er til að þremur nýjum greinum verði bætt við III. kafla frumvarpsins. Má þar fyrst nefna heimild Stofnlánadeildarinnar til að taka allt að 350 m.kr. viðbótarlán á árunum 1995 og 1996 vegna skuldbreytinga á lausaskuldum bænda. Í lánsfjárlögum fyrir árið 1995 var gert ráð fyrir að Stofnlánadeildinni væri heimilað að taka allt að 900 m.kr. lán til þessa verkefnis. Nú hefur komið í ljós að umsóknir eru fleiri en reiknað hafði verið með og því þörf fyrir 350 m.kr. viðbótarheimild. Þar sem ekki var lagt fram frumvarp til lánsfjáraukalaga í ár er þessi breyting tekin inn í frumvarp til lánsfjárlaga fyrir árið 1996, en þó sérstaklega tekið fram í gildistökuákvæði að þessi lántökuheimild nái einnig til ársins 1995. Reiknað er með að um 200–250 m.kr. af heildarfjárhæðinni falli á árið 1995 og þá 100–150 m.kr. á næsta ár. Í öðru lagi er lagt til að inn í frumvarpið verði teknar tvær heimildargreinar til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Annars vegar er um að ræða heimild til að yfirtaka skuldir Herjólfs hf. vegna kaupa á Herjólfi. Stefnt er að því að samningaviðræðum ríkisins við stjórn Herjólfs hf. um þetta efni ljúki með undirritun samnings nú í vikunni. Að öllum líkindum verður þá einnig undirritaður samningur milli Vegagerðarinnar og Herjólfs hf. um rekstur ferjunnar til fjögurra ára. Hins vegar er heimild fjármálaráðherra til að gefa út viðbætur við eldri flokka spariskírteina ríkissjóðs. Ríkissjóður stefnir að því að fækka og stækka flokka spariskírteina. Meginástæðan er sú að það eykur líkurnar á að viðskipti á eftirmarkaði verði öflugri og verðmyndun á markaði betri. Því auðveldar fækkun flokka hlutverk viðskiptavaka.

Alþingi, 19. des. 1995.



Vilhjálmur Egilsson,

Gunnlaugur M. Sigmundsson.

Sólveig Pétursdóttir.


form., frsm.



Valgerður Sverrisdóttir.

Einar Oddur Kristjánsson.

Pétur H. Blöndal.