Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 1 . mál.


488. Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



Inngangur.
    Frá því að 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið lauk hefur fjárlaganefnd haft frumvarpið til meðferðar og hefur hún farið yfir tekjuhlið þess, fjallað um B-hlutastofnanir og 6. gr. frumvarpsins og afgreitt mál sem meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórn ákváðu að fresta afgreiðslu á til 3. umræðu. Þá hefur meiri hlutinn lagt til breytingar á nokkrum þáttum frumvarpsins, m.a. með tilliti til endurskoðaðrar þjóðhagsspár, en hún var kynnt á fundi fjárlaganefndar 14. desember sl. Þá hafa nokkur mál verið endurskoðuð í meðförum nefndarinnar á milli 2. og 3. umræðu.
    Minni hlutinn átelur það hversu seint upplýsingar bárust frá heilbrigðisráðuneytinu um veigamikil mál. Þær upplýsingar, sem fengust frá ráðuneytinu, eru vægast sagt mjög óljósar og á engan hátt til þess fallnar að gefa heildarmynd af þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru.

Breyttar efnahagsforsendur.
    Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar eru horfur á hagvexti á næsta ári betri en búist var við og reiknað er með að hann verði 3,2% í stað 2% í þjóðhagsáætlun. Þjóðarútgjöld hafa aukist hraðar en gert var ráð fyrir og er áætlað að þau aukist í heild um 4% á þessu ári og 5,6% á hinu næsta.
    Áður hafði Þjóðhagsstofnun áætlað að þjóðarútgjöld ykjust um 2,8% á næsta ári, þannig að endurskoðuð áætlun tvöfaldar vöxtinn. Ástæðan er annars vegar framkvæmdir vegna stækkunar álvers og hins vegar aukin einkaneysla frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu. Áhrifin verða jákvæð að því leyti að atvinnuleysi minnkar úr 4,8% í 4,4% og ríkissjóður hefur verulegar tekjur af veltuaukningunni eða um 1.500 millj. kr. Hins vegar mun viðskiptajöfnuður verða neikvæður á næsta ári og aukinn þrýstingur verður næstu mánuði á vaxtastigið til hækkunar.

Heilbrigðismál.
    Við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið var lítillega gerð grein fyrir aðgerðum sem fyrirhugaðar voru til lausnar vanda í heilbrigðiskerfinu. Ljóst er nú þegar 3. umræða fer fram að ekki hefur tekist að leysa hann.
    Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, segir: „Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.“
    Fjárlög þau, sem nú er verið að afgreiða á Alþingi, eru skilaboð um að draga eigi úr lækningum og þau skilaboð eru fyrst og fremst ætluð hátæknisjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Að óbreyttum fjárveitingum liggja fyrir lokanir fleiri deilda, fækkun starfsfólks og lenging biðlista.
    Undanfarin ár hefur athyglin beinst mjög að útgjöldum til heilbrigðismála og því að nauðsynlegt sé að halda aftur af útgjöldum á þessu sviði. Er þar nefnt til að annars vegar séu þessi útgjöld mjög mikil og hins vegar að þau muni aukast verulega næstu árin að óbreyttu. Ekki er dregið úr því að aðhalds er þörf á þessu sviði og að það er stöðugt verkefni að vinna að sparnaði og ráðdeild í þessum mikilvæga málaflokki.
    Á hinn bóginn er nauðsynlegt að minna á ákveðnar staðreyndir svo að menn gleymi sér ekki í umræðunni um þörf á niðurskurði í heilbrigðismálum.
—    Þrátt fyrir allt hafa útgjöld til heilbrigðismála ekki aukist um nema tæplega 3% af ríkisútgjöldum á tólf ára tímabili, þ.e. 1984–96. Þá var varið 37% af útgjöldum fjárlaganna til heilbrigðismála en í fjárlagafrumvarpi 1996 er hlutfallið 39,7%. Aukningin svarar til um 4 milljarða kr. sem er um 3% af útgjöldum ríkissjóðs eins og fyrr segir.
—    Upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun sýna að á síðasta ári voru gjöld hins opinbera til heilbrigðismála 16,85% af heildarútgjöldum en 17,72% árið 1984. Þetta þýðir að vöxtur í öðrum útgjöldum hins opinbera hafði á tímabilinu verið meiri en aukningin í heilbrigðismálunum.
—    Heildarkostnaður við heilbrigðisútgjöld er á síðasta ári áætlaður 8,09% af vergri landsframleiðslu í stað 6,89% árið 1984, þar af er hlutur hins opinbera 6,77% af vergri landsframleiðslu í stað 5,98% fyrir 12 árum.
—    Ísland er einungis í 13. sæti af ríkjum OECD í útgjöldum til heilbrigðismála.
    Vert er að gefa þessum staðreyndum gaum við umræðu um heilbrigðismál.
    Minni hluta fjárlaganefndar er fullljóst að grípa þarf til nýrra úrræða í heilbrigðiskerfinu og að setja verður fram tillögur um stefnumótun til framtíðar. Nauðsynlegt er að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu, starfsemi og rekstrarfyrirkomulag sjúkrahúsa landsins. Það er hlutverk heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hafa forgöngu um mörkun þeirrar stefnu sem fylgja skal í framtíðinni og dugir þá skammt að fela sjúkrahússtjórnum að skera niður og hagræða, án þess að fyrir liggi pólitísk ákvörðun um hvar eigi að skerða þjónustuna. Minni hlutinn vekur athygli á að eitt af hlutverkum stjórna sjúkrahúsa er að gera áætlanir til fjögurra ára í senn varðandi rekstur og þróun. Þetta er þeim hins vegar ekki mögulegt á meðan niðurskurður á fjárlögum er svo handahófskenndur sem raun ber vitni. Uppbygging eitt árið þýðir kannski niðurskurð það næsta og þannig verða áætlanir ekki marktækar.
    Miðað við þær upplýsingar sem minni hlutinn hefur fengið lítur út fyrir að óleystur sé stór hluti vanda sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Virðist sem hallinn hjá Ríkisspítölum á árinu 1996 sé gífurlegur miðað við kynnta stöðu fyrir fjárlaganefnd og eru hugmyndir heilbrigðisráðuneytisins um úrbætur vægast sagt mjög óljósar. Ljóst er af þeim gögnum um Sjúkrahús Reykjavíkur sem minni hlutinn hefur kynnt sér að vandinn þar er gífurlega mikill og skiptir hundruðum milljóna. Þessar stofnanir eru lykilstöðvar lækninga á Íslandi og því er brýnt að starfseminni þar sé haldið í sómasamlegu ástandi.
    Í samræmi við það sem hér hefur komið fram leggur minni hlutinn fram breytingartillögur um aukin framlög til sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu en leggur jafnframt áherslu á að í ráðuneyti heilbrigðismála sé mótuð skýr stefna í málefnum alls heilbrigðiskerfisins.


Menntamál.
    Minni hluti fjárlaganefndar gerði ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til menntamála við 2. umræðu um frumvarpið og vísar til þeirrar umræðu. Minni hlutinn telur þó ástæðu til að vekja frekari athygli á nokkrum atriðum er tengjast menntun og menningu.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu var varað sérstaklega við því ástandi sem ríkir varðandi flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Var bent á að enn væri ekki séð fyrir endann á kostnaðarþættinum þrátt fyrir að lögum um grunnskólann væri ætlað að taka gildi 1. ágúst 1996. Dregist hefur úr hófi að þær nefndir, sem fjalla um flutninginn, skili niðurstöðum og er það miður. Minni hlutinn ítrekar þessar áhyggjur og bendir á ályktun Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags þar sem vakin er athygli á seinagangi málsins og kennarasamtökin lýsa því yfir að ekki geti orðið af flutningnum á tilætluðum tíma ef lausir endar verði ekki hnýttir í málinu fyrir miðjan janúarmánuð næstkomandi. Ályktun kennarasamtakanna er fylgiskjal með áliti þessu.
    Minni hlutinn leggur áherslu á áhyggjur sínar af stöðu mála í Háskóla Íslands. Fjárhagur skólans er með þeim hætti að nauðsynlegt mun reynast að skerða gæði kennslunnar, en eins og forsvarsmenn skólans bentu fjárlaganefnd á þegar fyrir 2. umræðu vantar 70 millj. kr. upp á að kennslan geti orðið sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Ljóst er að vandi skólans er gífurlegur. Meiri hlutinn gerir reyndar tillögu um 15 millj. kr. viðbótarframlag til Háskóla Íslands, er gangi til nýrra verkefna að hluta, en 10 millj. kr. eru ætlaðar skólanum vegna fjölgunar nemenda. Minni hlutinn bendir á að þrátt fyrir að allt fé sé sennilega vel þegið til skólans leysir sú fjárhæð sem meiri hlutinn leggur til engan veginn þann vanda sem fyrir er í málefnum skólans. Því leggur minni hlutinn fram breytingartillögu þar sem lagt er til að framlög til Háskóla Íslands séu aukin um 60 millj. kr. til viðbótar þeim 15 millj. kr. sem meiri hlutinn leggur til.
    Þá vill minni hlutinn minna á fjárskort innlendrar rannsóknarstarfsemi, en þrátt fyrir viðbót til Nýsköpunarsjóðs námsmanna fyrir 2. umræðu er ljóst að sjóðurinn þyrfti mun meira fé til að standa undir skuldbindingum sínum. Þá vekur minni hlutinn enn athygli á skerðingu til Rannsóknarnámssjóðs og Vísindasjóðs Rannsóknarráðs og telur hana ógna innlendri rannsóknar- og vísindastarfsemi verulega. Minni hlutinn fagnar hins vegar auknu framlagi til Kvikmyndasjóðs sem nú fær sama framlag og í fyrra.
    Minni hlutinn telur sérstaka ástæðu til að vekja athygli á nýjum lið í frumvarpinu, 02-983 Ýmis fræðistörf, viðfangsefni 123, Hið íslenska bókmenntafélag. Undir hann eru settar 12 millj. kr., en að auki er lagt til að 6 millj. kr. gangi til félagsins á fjáraukalögum 1995 samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Minni hluti fjárlaganefndar hefur leitað eftir skýringum á því að ríkisstjórnin skuli nú óska eftir að styrkja bókaútgáfu á þennan hátt og með svo rausnarlegum framlögum og raun ber vitni. Hefur sú skýring ein fengist að hér sé um að ræða greiðslu til félagsins vegna þjóðhátíðarútgáfu á sögu Íslands í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Þessi rausnarskapur að 21 ári liðnu kemur minni hlutanum í opna skjöldu, á sama tíma og framlög til menntunar og menningarmála eru skorin við nögl og grundvallarmenntastofnanir í landinu lýsa yfir neyðarástandi vegna fjárskorts.


Félagsmál.
    Minni hlutinn vísar í nefndarálit 1. og 2. minni hluta við 2. umræðu um almennar athugasemdir um félagsmál. Sérstaklega þykir þó ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum.
    Eins og bent er á í kaflanum um breyttar efnahagsforsendur er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% á næsta ári í stað 4,8% eins og þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá verða töpuð ársverk 5.800 í stað 6.400 miðað við fyrri spá. Þetta hefur í för með sér að hægt er að gera ráð fyrir minna fé til atvinnuleysistrygginga en áætlað var og hefur þó verið tekið tillit til hækkunar bóta atvinnuleysistrygginga samkvæmt nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við aðgerðir á vinnumarkaði. Minni hlutinn vill vekja athygli á því að komið hefur í ljós að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs voru verulega vanáætluð í fjárlagafrumvarpinu. Samkvæmt áætlunum vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins var, miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1996, gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins yrðu 4.003.672.224 kr. á árinu, en í fjárlagafrumvarpinu var í upphafi gert ráð fyrir að útgjöldin yrðu aðeins 3.760.000.000 kr. Nú gerir meiri hluti fjárlaganefndar tillögur um skerðingu á framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár en tekur ekki tillit til skekkjunnar sem falin er í upphaflegum tölum frumvarpsins. Hér virðist því vera um vanáætlað fjármagn til atvinnuleysismála að ræða.
    Minni hlutinn harmar að ekki skuli hafa verið fallist á tillögu um aukið framlag til Félagsmálaskóla alþýðu og lýsir yfir furðu sinni á því að ríkisstjórnin skuli skera niður framlög til þessa málaflokks á meðan þörf fyrir fullorðinsmenntun og menntun atvinnulausra hefur síst minnkað. Þá vill minni hlutinn lýsa yfir vanþóknun sinni á þeirri skerðingu sem orðið hefur á lið 07-981 Vinnumál, viðfangsefni 190, Ýmislegt. Framlög samkvæmt þessum lið hafa að mestu gengið til aðila vinnumarkaðarins í þágu þeirra samfélagslegu verkefna sem þeir sinna og er síst minni þörf en áður fyrir þá mikilvægu starfsemi sem fram fer hjá þessum samtökum.

Stofnanir í B-hluta.
    Nefndin ræddi við forsvarsmenn nokkurra stofnana í B-hluta, og eru fáeinar tillögur um breytingar á þeirra högum sem minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við. Minni hlutinn óskaði sérstaklega eftir því að fá stjórnendur Ríkisútvarpsins á fund nefndarinnar. Í máli þeirra kom fram að viðhald og uppbygging dreifikerfa væri verulega aðkallandi. Enn eru í landinu 70–80 sveitabæir sem ekki ná útsendingum sjónvarps, og víða eru hlustunarskilyrði vegna útvarps ófullkomin. Til stendur að koma upp nýjum langbylgjusendi á Gufuskálum en einnig vantar sendi á Eiðum og bíður Ríkisútvarpið nú heimildar til að bjóða út uppbyggingu þeirra beggja í einu sem yrði hagkvæmur kostur. Með tilkomu þeirra yrði gjörbreyting á hlustunarskilyrðum, og leggur minni hlutinn áherslu á að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að rækja skyldur sínar gagnvart landsmönnum.

Ýmsir útgjaldaliðir.
    Mjög margir útgjaldaliðir frumvarpsins hafa verið til athugunar í nefndinni milli 2. og 3. umræðu, svo sem sjá má af breytingartillögum meiri hlutans. Minni hlutinn tók þátt í þeirri afgreiðslu og styður margar tillagnanna, en ekki allar, og því varð að ráði að meiri hlutinn flytti þær en ekki öll nefndin.

    Minni hlutinn fór fram á að áætlanir ríkisstjórnarinnar um skerðingu bótagreiðslna til þolenda afbrota yrðu að fullu dregnar til baka. Ekki virðist vilji hjá ríkisstjórninni fyrir því og harmar minni hlutinn það. Ríkisstjórnin boðaði í upphafi þings tillögu um frestun á gildistöku laganna um bótagreiðslur til þolenda afbrota um eitt ár og að auki að afturvirkni þeirra flyttist fram um eitt ár. Hörð viðbrögð utan sem innan þings leiddu til nýrra tillagna um frestun gildistökunnar um hálft ár án þess að það hefði áhrif á afturvirknina. Jafnframt voru lagðar til breytingar á bótafjárhæðum sem leitt hefðu til stórfelldrar lækkunar frá því að lögin voru samþykkt í mars sl. Útilokað var að sætta sig við þær breytingar, og hefur síðan verið unnið að því með öllum ráðum að fá meiri hlutann til að hætta við þau áform. Nú hefur enn þokast í baráttunni gegn þessari hróplega óréttlátu lagasetningu við 2. umræðu laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Eins og fram kom í nefndarálitum, ræðum og breytingartillögum við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið lagði minni hlutinn áherslu á að Alþingi tryggði með fjárlögum það framlag sem þarf til þess að staðið verði við lögin í einu og öllu, og mun minni hlutinn enn freista þess að tryggja framkvæmd laganna eins og þau voru afgreidd á Alþingi rétt fyrir síðustu kosningar.
    Minni hlutinn vill vekja athygli á hækkun til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, til Mannréttindaskrifstofu Íslands og til Krýsuvíkurskólans þótt ekki séu hér stórkostlegar fjárveitingar á ferð. Þá má nefna 500 þús. kr. hækkun á liðnum 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi, en sú upphæð er ætluð til fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir. Allt eru þetta liðir sem minni hlutinn hefur lagt áherslu á og þótt hér sé um smáar upphæðir að ræða er víst að þær koma í góðar þarfir.

Alþingi, 21. des. 1995.



Bryndís Hlöðversdóttir,

Kristinn H. Gunnarsson.

Gísli S. Einarsson.


frsm.



Kristín Halldórsdóttir.









Fylgiskjal I.


Ályktun stjórnar Hins íslenska kennarafélags


og stjórnar Kennarasambands Íslands.


(Samþykkt 12. og 15. desember 1995.)



    Réttindanefnd skipuð fulltrúum kennarafélaganna, sveitarfélaga og ríkisins hefur eftir linnulaus fundarhöld lagt fram drög að skýrslu um yfirfærslu réttinda kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Vinna við nauðsynlegar lagabreytingar er hins vegar enn ekki hafin og umfjöllun um yfirfærslu kjarasamninga er skammt á veg komin. Miðað við þá staðreynd að tillögur um lagabreytingar áttu að liggja fyrir um miðjan október er ljóst að í nokkurt óefni er komið og mikil vinna eftir.
    Þeir fyrirvarar, sem kennarafélögin settu fyrir flutningnum, eru í rauninni enn í fullu gildi. Samningsbundin og lögbundin réttindi kennara og skólastjórnenda hafa ekki verið tryggð, sveitarfélögum hafa ekki verið tryggðir tekjustofnar til að standa undir öllum rekstri grunnskóla, rekstrarlegur grundvöllur sérskólanna er ekki tryggður, mikil óvissa ríkir um réttindi og stöðu starfsmanna á fræðsluskrifstofum, óvíst er um fjárveitingar til endurmenntunar kennara og skólastjórnenda, skipulag sérfræðiþjónustu er víða skammt á veg komið og öllum skólum á landinu hefur enn hvorki verið tryggð lögbundin þjónusta né fagleg yfirstjórn.
    Stjórnir Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands lýsa því yfir að verði ofangreind atriði ekki frágengin fyrir miðjan janúar sé sjálfgefið að flutningi grunnskólans verði að fresta.

F.h. Hins íslenska kennarafélags,


Elna Katrín Jónsdóttir, formaður.



F.h. Kennarasambands Íslands,


Eiríkur Jónsson, formaður.




Fylgiskjal II.


Fréttatilkynning stúdentaráðs Háskóla Íslands um fjárhagsstöðu HÍ.


(18. desember 1995.)



(Repró, 1 síða. Athugið pdf-skjalið)





Fylgiskjal III.


Ályktun miðstjórnar ASÍ um atlögu heilbrigðisráðherra


og ríkisstjórnar að velferðarkerfinu.


(20. desember 1995.)



(Repró, 1 síða. Athugið pdf-skjalið)



Með kveðju,



Benedikt Davíðsson,


forseti ASÍ.





Fylgiskjal IV.


Þjóðhagsstofnun:

Heilbrigðismál í OECD-ríkjunum.


(5. september 1994.)



(Repró, ein síða. Athugið pdf-skjalið)





Fylgiskjal V.


Þjóðhagsstofnun:

Heildarútgjöld til heilbrigðismála 1970–94.


(Fjárhæðir í millj. kr. og hlutfalli af landsframleiðslu.)


(14. desember 1995.)




(Repró, tvær síður. Athugið pdf-skjalið)